Fyrri aukaspurning:
Myndin hér að ofan sýnir albúmið á Bítlaplötunni Abbey Road. Ég huldi einn bílanna á götunni og nú er spurningin: Hvernig er sá bíll á litinn og af hvaða tegund er hann? Þið fáið stig ef þið náið annaðhvort tegundinni eða litnum, en þeir sem hafa hvorttveggja fá sérstakt Gsal-bítlastig, kennt við Gunnar Salvarsson!
***
Aðalspurningar:
1. Hver á að velta sér um koll í lagi Chuck Berrys?
2. Árið 1927 flaug bandarískur flugmaður í fyrsta sinn einn yfir Atlantshafið og þótti það mikilsháttar afrek. Hvað hét flugmaðurinn?
3. Milli hvaða tveggja stórborga flaug hann?
4. Seinna átti flugmaðurinn eftir að koma við sögu í glæpamáli sem vakti gríðarlega athygli og endaði hryggilega. Út á hvað gekk það mál?
5. Hverjir stjórnuðu á eyjunni Makau við Kínastrendur þangað til árið 1999?
6. Árið 1990 var stofnuð í Manchester á Englandi ein af hinum svonefndu „drengjahljómsveitum“ og naut hún gríðarlegra vinsælda síðasta áratug síðustu aldar. Hún er víst enn starfandi þótt „drengirnir“ séu komnir um fimmtugt. Hvaða hljómsveit er þetta?
7. Hvaða tungumál er opinbert mál í fjallaríkinu Andorra?
8. Árið 1988 fóru í fyrsta sinn fram forsetakosningar á Íslandi þar sem sitjandi forseti fékk mótframboð. Hver vann þessar kosningar?
9. Í hvaða landi er borgin Örebro?
10. Í grískum bókmenntum segir frá Jasoni sem var mikill kappi og sótti meðal annars „gullna reifið“ svokallaða. Hann naut aðstoðar göldróttar konungsdóttur og gengu þau síðan í hjónaband. Hjónabandið endaði með ósköpum en konungsdóttir varð börnum þeirra Jasons að bana eftir að hann gerðist henni ótrúr. Hvað hét konungsdóttir?
***
Seinni aukaspurning:
Hvaða sjarmör er að stíga dans á myndinni hér að neðan?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Beethoven. (Hér er lagið flutt af Bítlunum.)
2. Lindbergh.
3. New York og Parísar.
4. Barni hans var rænt og það myrt.
5. Portúgalir.
6. Take That.
7. Katalónska. „Spænska“ er vitaskuld ekki rétt svar.
8. Vigdís Finnbogadóttir.
9. Svíþjóð.
10. Medea.
***
Svör við aukaspurningum:
Á Bítlaalbúminu var um að ræða hvíta Fólksvagen.
Á neðri myndinni er Vólódómír Zelensky núverandi forseti Úkraínu að keppa í danskeppni í heimalandi sínu fyrir nokkrum árum.
Athugasemdir