Laugardaginn 15. janúar opnar The Icelandic Love Corporation / Gjörningaklúbburinn, sem skipaður er myndlistarkonunum Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur, sýninguna Seiglu í NORR11, Hverfisgötu 18.
Um tvenns konar verk er að ræða, annars vegar einstök nælonsokkabuxnaþrykk, þar sem hinn margslungni vísinda- og félagsvefur nælonsins fær að njóta sín í öllum sínum fjölbreytileika og leikgleði, og hins vegar veggverkið Seigla sem býr yfir aðdáunarverðri aðlögunarhæfni og styrk þar sem fínlegir nælonsokkar mynda eina heild sem inniheldur hnefastórt grjót í hverri tá. Nælonsokkabuxurnar, olíulitir Gjörningaklúbbsins, koma beint úr iðrum hins kvenlæga veruleika þar sem efniviðurinn, nælonið, býr yfir eiginleikum úthalds, þolgæðis og þrautseigju.
„Við höfum áður gert svona nælonþrykk og fannst svo gaman að sjá afraksturinn af vinnunni strax því undanfarin ár höfum við verið að vinna í stærri og flóknari langtímaverkefnum og mikilli tölvuvinnu; okkur langaði að fá smá skít á puttana,“ segja listakonurnar. „Þegar við gerum þrykkin þá vætum við sokkabuxurnar í prentsvertu, þær eru gegnumsýrðar í litnum og svo þurfum við með ákveðinni aðferð að gera þær prenthæfar. Hvert verk er einstakt, þetta eru nokkurs konar „action painting“ með sokkabuxum. Okkur langaði að fara meira inn í „tradisjónina“ sem listamenn, ekki vera bara að svara „emailum“ og halda fundi.
Nælonsokkabuxur eru í rauninni okkar olíulitir, koma beint úr iðrum hins kvenlæga veruleika sem við þekkjum mjög vel og er eitt okkar helsta viðfang í myndlistinni. Nöfnin á verkunum á sýningunni segja líka sína sögu, við erum með Skörunga, Glímu, Vinaþel og svo er Ópið sem er bæði svolítið húmorískt en líka hættulegt.
Verkið Seigla er óður til allra kvenna í heiminum og allra þeirra sem þurfa að berjast en það er líka hægt að horfa á verkið sem bara eitthvað fallegt, það hefur oft verið okkar „teik“ í myndlistinni að gera verk sem í fyrstu líta út fyrir að vera falleg eða jafnvel fyndin en þegar betur er að gáð er oftast líka í þeim ádeila.“
Seigla er úr litríkum nælonsokkabuxum, rauðum, bleikum og appelsínugulum, sem mynda eina heild með hnefastórum steinum í hverri tá sem gerir hana hættulega, gera hana að brimbrjót. „Það er engin tilviljun að það eru rauðir sokkar í Seiglunni, við stöndum á herðum þeirra kvenna sem hafa komið á undan okkur í kvennabaráttunni og eru undanfarar þess sem er að gerast í dag með MeToo. Seiglan er uppfull af slöngvivöðum sem tengjast hugmyndinni um kraftinn í fjöldasamstöðu, og að hinn smái geti sigrað þann stóra, sbr. Davíð og Golíat. Steinninn bara brýtur glerþökin.“
Gjörningaklúbburinn er samstarfshópur. „Við höfum unnið saman síðan 1996 í ýmsum formum og vinnum í flesta miðla innan nútímamyndlistar, enginn miðill er okkur óviðkomandi, hugmyndirnar ráða ferlinu. Við erum alltaf að takast á við eitthvað nýtt, hvort sem það eru hugmyndir eða aðferðir, enginn dagur er eins og maður er oftast bara á brúninni, alltaf að leita að einhverju sem maður veit ekki hvar endar. Við, Eirún og Jóní, stofnuðum Gjörningaklúbbinn ásamt Sigrúnu Hrólfsdóttur 1996; hún var í klúbbnum til 2016 og svo var Dóra Ísleifsdóttir með okkur frá 1996 til 2001.“
Hugmyndir Gjörningaklúbbsins tengjast oft félagslegum málefnum með femínískum áherslum í bland við glettni og hressandi einlægni. Gjörningaklúbburinn vinnur í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni svo sem gjörninga, ljósmyndir og innsetningar og nýtir sér gjarnan verkfræði ömmunnar, handverk og útsjónarsemi í bland við glæsileika og nútímatækni. Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim, þar á meðal MoMA í New York, Kunsthalle Vienna, Schirn Kunsthalle, Hamburger Bahnhof, Amos Anderson, ARoS og Lilith Performance Studio.
Athugasemdir