„Það barst formleg kvörtun til okkar og við erum að skoða þetta,“ segir Hanna Björg Konráðsdóttir, lögfræðingur raforkueftirlits Orkustofnunar, aðspurð um hvað stofnuninni finnist um það fyrirtækið Íslensk orkumiðlun/N1 Rafmagn hafi rukkað mörg þúsund viðskiptavini sína um hærra verð á rafmagni en lægsta, auglýsta verð þess.
Kvörtunin barst til Orkustofnunar þann 16. desember síðastliðinn.
„Það er annars ekki hægt að tjá neina afstöðu til málsins núna þar sem rannsóknin er á frumstigi. En við þurfum auðvitað að skoða þetta gaumgæfilega og rannsaka. Regluverkið er í örri þróun og það er okkar markmið að þjóna almenningi í landinu og því er mikilvægt að við skoðum hvort það sé þörf á að endurskoða þetta umhverfi þegar niðurstaða liggur fyrir í málinu,“ segir Hanna Björg.
Stundin fjallaði um viðskiptahætti Íslenskrar orkumiðlunar/N1-rafmagns skömmu fyrir jól.
Um er að ræða viðskiptavini sem komið hafa í viðskipti við Íslenska orkumiðlun/N1 Rafmagn í gegnum það að fyrirtækið hefur verið svokallaður orkusali til þrautavara síðastliðið eitt og hálft ár. Orkustofnun velur hvaða raforkufyrirtæki á að vera orkusali til þrautavara á grundvelli þess hvaða fyrirtæki hefur verið með lægsta verðið til viðskiptavina sinna. Samkvæmt lögunum og reglugerðinni eiga viðskiptavinir orkusala til þrautavara alltaf að greiða lægsta verðið fyrir rafmagn hverju sinni. Orkustofnun hefur eftirlit með þessu kerfi um orkusala til þrautavara.
Símon Einarsson, einn af stofnendum raforkufyrirtækisins Straumlindar sem er samkeppnisaðili N1 Rafmagns, sagði við Stundina fyrir jól að verið væri að svíkja neytendur. „Þetta er eiginlega bara hneyksli. Verðið er allt of hátt. Maður vill bara sjá ákveðna sanngirni og mér finnst fólk hafa rétt á að vita þetta því það er bara verið að svindla á fólki.“
Tjáð að hann gæti fengið lægra verð
Viðskiptavinir fyrirtækisins sem komið hafa til Íslenskrar orkumiðlunar/N1 Rafmagns í gegnum þessa þrautavaraleið hafa hins vegar ekki greitt lægsta verðið fyrir rafmagnið sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða heldur hærra verð. Forsendurnar fyrir viðskiptasambandinu, sem eru þær að þrautavarakúnnarnir hefja raforkukaup af Íslenskri orkumiðlun/N1 Rafmagni á grundvelli þess að fyrirtækið bjóði upp á lægsta verðið á markaðnum, eru því gallaðar.
Í tölvupósti frá starfsmanni N1 Rafmagns til viðskiptavinar fyrirtækisins í nóvember síðastliðinn kom það skýrlega fram að þrautavaraviðskiptavinirnir greiða hærra verð en almennir viðskiptavinir. „Þar sem veitan þín kom inn sem þrautavaraaðili að þá er einingaverðið 7,6 kr/kWst. Með því að skrá þig í viðskipti verður einingaverði 6,44 kr/kWst,“ sagði í tölvupósti frá starfsmanni N1 Rafmagns/Íslenskrar orkumiðlunar.
Tekið skal fram að starfsmaður N1 Rafmagns lét viðskiptavininn vita af þessum verðmun að fyrra bragði, án þess að viðskiptavinurinn væri að spyrja sérstaklega um þennan verðmun. Þetta segir viðskiptavinurinn við Stundina. Í viðtali við Stundina fyrir jól sagði Þórdís Lind Leiva, sérfræðingur á orkusviði N1, að fyrirtækið léti viðskiptavini sína vita af því ef þeir hefðu samband, að þeir gætu fengið lægra verð á rafmagni með því að skrá sig beint í viðskipti við fyrirtækið. Orð viðskiptavinarins virða því sannarlega staðfesta þetta.
Hins vegar virðist tilgangurinn með þrautavaraleiðinni meðal annars vera sá að viðskiptavinurinn fái strax lægsta mögulega rafmagnsverð. Tilgangurinn virðist ekki vera sá að viðskiptavinurinn þurfi að hafa samband við fyrirtækið til að fá lægsta verð.
Meginmarkmiðið að tryggja fólki rafmagn
Guðmundur Ingi Bergþórsson, verkefnastjóri raforkumarkaða hjá Orkustofnun, segir aðspurður í samtali við Stundina að meginmarkmið reglugerðarinnar um raforkusala til þrautavara vera það að sjá fólki fyrir rafmagni þegar það velur sér ekki raforkusala en ekki að tryggja því lægsta verðið. „Markmiðið er að útvega fólki rafmagn. Með raforkusala til þrautavara er tryggt að ekki verði rof í afhendingu raforku. Hin leiðin, ef fólk selur sér ekki raforkusala, er að loka fyrir afhendingu rafmagns og þetta getur falið í sér aukakostnað. Það verður settur upp mekanismi til að tryggja þetta. Hins vegar varð það ofan á við útfærslu á þessu að stjórnvöld völdu það að raforkusali til þrautavara yrði sá sem gæti sýnt fram á það að hann hefði verið með lægsta meðalverðið yfir tiltekið tímabil,“ segir Guðmundur og bætir við að Orkustofnun hvetji alla neytendur til að velja sér raforkusala og gera samning við viðkomandi. Hann segir að kerfinu með orkusala til þrautavara hafi ekki verið komið á til þess að neytendur gætu látið ríkisvaldið velja raforkusala fyrir sig.
Vegna þess að kvörtunin er til rannsóknar getur Orkustofnun ekki tekið afstöðu til málsins eða lýst nokkurri afstöðu til þess að svo stöddu. Hvað rannsókn Orkustofnunar á kvörtuninni vegna viðskiptahátta N1 Rafmagns leiðir fram um rétt- og lögmæti þeirra á því eftir að koma í ljós.
Athugasemdir (1)