Varla er hægt að fjalla um árið sem er að líða án þess að ræða áhrif faraldursins á börn og ungt fólk. Áhrifin á skólastarf, tómstundir og ekki síst félagslíf eiga vafalaust eftir að segja til sín á næstu árum. En það eru fjölmörg önnur mál sem brenna á börnum og ungu fólki, ekki síst loftslagsmálin, sem hafa fengið aukið vægi á síðustu misserum en þar hafa börn og ungmenni látið mikið til sín taka.
Heimsfaraldurinn hefur auðvitað yfirskyggt flest annað á þessu ári og áhrifin á börn og unglinga eru ótvíræð. Við hjá umboðsmanni barna söfnuðum frásögnum úr heimsfaraldri frá börnum tvisvar á síðasta ári og svo aftur síðastliðið vor.
Í byrjun faraldurs tóku mörg börn fram að þeim hafi liðið vel en áberandi munur var á svörum barnanna þegar frá leið en þá greindu mörg börn frá því að hafa fundið fyrir vanlíðan, streitu, kvíða, þunglyndi og einmanaleika. Hjá þeim eins og öllum öðrum reyndi verulega á þegar faraldurinn dróst á langinn, og ljóst að bólusetningar voru ekki sú lausn sem vænst hafði verið.
Þrátt fyrir breytingar og neikvæð áhrif sem heimsfaraldur hafði á daglegt líf barna, bentu fjölmörg þeirra á jákvæð atriði sem vert er að staldra við. Þau tiltóku að það hafi verið minni streita á morgnana og þau hafi náð betri svefni. Fram kom líka að börn kunnu að meta auknar samverustundir fjölskyldunnar og að fá tækifæri til að ráða meira sínum tíma.
Mörg barnanna tilgreindu sérstaklega hvað þau hefðu lært mikið á þessum tíma, til dæmis hvað vinátta skiptir miklu máli, hvað það er mikilvægt að gera gott úr hlutunum, hugsa jákvætt og finna sér eitthvað að gera. Mörg barnanna nefndu einnig aukna samvinnu og hjálpsemi sem mikilvægan lærdóm þeirra af kórónuveirunni. Skerðing á skólastarfi hafði ekki aðeins í för með sér færri tíma í skólanum heldur upplifðu mörg barnanna meira næði og ró í skólastofunni og áttu því auðveldara með að einbeita sér. Þá hentaði fjarnám sumum nemendum mjög vel.
Allt eru þetta mikilvæg skilaboð til samfélagsins alls um hvernig við getum búið skólanum og fjölskyldum betra og barnvænna umhverfi.
Börn og ungt fólk hafa látið sig loftslagsmálin miklu varða síðustu misserin eins og glöggt mátti sjá af fréttum af loftslagsráðstefnunni í Glasgow nú í haust. Á Barnaþingi umboðsmanns barna hafa umhverfismálin einnig verið fyrirferðarmikil og eins í skilaboðum ungmennaráðs Heimsmarkmiðanna til stjórnvalda. Sú dökka mynd sem dregin er upp af vísindamönnum um hamfarahlýnun er einkum ætlað að ná eyrum þeirra sem halda um valdataumana, hafa áhrif á ákvarðanir sem varða framtíðina og fá almenning til að breyta hegðun sinni.
Það er óneitanlega þversagnakennt að umræðan um loftslagsvána hefur náð best eyrum þeirra sem yngst eru, það eru þau sem taka helst mark á staðreyndum um aukna hlýnun jarðar, en það er jafnframt sá hópur sem hefur minnst völd og getu til að hafa áhrif. Málið brennur heitast á börnum og ungu fólki enda tilheyra þau þeirri kynslóð sem lengst mun lifa með afleiðingum þess hvernig við höfum gengið um náttúruna og umhverfið á síðustu áratugum og öldum.
Það hefur verið gaman að fylgjast með því hvernig börn og ungt fólk hefur í vaxandi mæli fengið aðgang að umræðu um loftslagsmál bæði heima fyrir og á alþjóðlegum vettvangi. Þeirra rödd hefur komið inn með beinskeyttum hætti en óhætt er að fullyrða að til dæmis hispurslaus þátttaka Gretu Thunberg hafi átt mikinn þátt í því að vekja almenning til vitundar um það hversu aðsteðjandi vandinn er. Stjórnmálamenn og annað valdafólk getur ekki annað en hlustað.
Í samtölum embættis umboðsmanns barna við börn og í frásögnum þeirra kemur iðulega fram að þrátt fyrir erfiðleika og svartsýni sem einkenna umræðu bæði um heimsfaraldur og loftslagsmál leita þau sífellt leiða til að benda á jákvæða þætti, hvað megi læra og betur fara. Sá samtakamáttur sem við höfum upplifað í heimsfaraldri, einkum framan af, gæti líka verið okkur hvatning til að ná betri árangri í loftslagsmálum með samstilltu átaki kynslóðanna.
Unga kynslóðin hvetur til breytinga og vill svo sannarlega leggja sitt af mörkum. Börn hafa vissulega áhyggjur af því að allt sé að fara á versta veg og óttast jafnvel heimsendi, en það er á ábyrgð okkar að taka sjónarmið barna og ungs fólks í ríkari mæli inn í umræður um lausnirnar á þessum mikla vanda.
Ekki aðeins er sjónarmið þeirra dýrmætt heldur sjá börn og ungt fólk oft tækifæri og lausnir þar sem aðrir sjá eingöngu vandamál. Þátttaka barna er líka valdeflandi og vekur hjá þeim bjartsýni og vitund um að þau geti haft áhrif á samfélagið og að þeirra bíði spennandi tækifæri til umbreytingar í framtíðinni. Það er á okkar ábyrgð að mæta áhyggjum barna með uppbyggjandi hætti og bjóða þeim til samræðu og ákvarðanatöku í ríkari mæli. Það er lykillinn að bjartari framtíð.
Athugasemdir