Ég hóf árið 2021 kasólétt með Covid. Rétt fyrir áramótin, daginn sem þau fyrstu fengu bólusetningu, var ég greind með veiruna. Í staðinn fyrir að borða huggulegan kvöldverð með jólakúlunni svaf ég í gegnum áramótin. Einangrunin var drepleiðinleg en samt svolítið kósí. Kannski er þetta einmitt lýsingin á árinu 2021; öðru árinu af Covid-19 faraldrinum.
Ég náði mér blessunarlega ágætlega (þótt veiran hafi náð að snúa eitthvað upp á bragð- og lyktarskynið) og eignaðist yndislegan son í lok janúar; kátt og skemmtilegt barn sem er allt annað en drepleiðinlegt. En fæðingarorlof með nýju barni þýddi annað ár þar sem ég dvaldist aðallega á heimilinu án mikillar fjölbreytni. En eins og ég segi: rosa kósí.
Íslensk íbúðarkaup
Til þess að fá smá fútt í þessa heimaveru þá gerðumst við eins íslensk og hægt er að hugsa sér og keyptum okkur nýja íbúð. Önnur hver manneskja virðist hafa keypt og selt fasteign hér á landi síðustu misseri. Með sex vikna gamalt barn fluttum við á milli íbúða. Það felst alveg pínu tilbreyting í því að horfa á ný hús og ný tré út um gluggann, núna til dæmis nýt ég útsýnis yfir fimmtíu ára gamlar aspir.
„Andvaraleysi Íslendinga gagnvart reynsluheimi nýrra Íslendinga er jafnvel meira en andvaraleysi karla gagnvart kynjamálum“
Tilbreytingin sem fólst í borgarferðum (fyrir komu Covid) fólst kannski alltaf einnig í því að gista annars staðar en heima. Hluti af stemningunni var að vakna á hóteli og muna ekkert eftir veggjunum sem umkringja man, fatta svo að man er ekki heima. Eins náði ég að krydda tilveruna aðeins með nýjum veggjum í nýrri íbúð þótt engar væru útlandaferðirnar og vart út-á-land-ferðirnar.
Hvað felst í því að taka ábyrgð
Man má samt ekki heldur gleyma að margt annað gerðist en Covid á árinu. Hér á klakanum var markvert að fylgjast með nýrri #MeToo bylgju sem var að mörgu leyti öðruvísi en sú sem átti sér stað 2017 og 2018. Andvaraleysi karlmanna gagnvart kynjamálum virðist fara minnkandi þótt vissulega beri konur enn höfuð og herðar yfir þá í femínískum byltingum síðustu ára.
Sem heimspekingi þótti mér sérstaklega áhugavert að sjá umræður um hvað fælist í því að bera ábyrgð á gjörðum sínum; að ekki væri nóg að gangast við verkum sínum í orðum eða að markaðssetja „hinn iðrandi mann“ heldur þyrfti fólk (menn í þessum tilvikum) að takast á við sársaukann sem fylgir því að gera sér grein fyrir að man beitti annarri manneskju ofbeldi.
Ég er bjartsýn á framtíð kynjamála vegna #MeToo en engin okkar ætti að setjast í helgan stein hvað þessi mál varðar. Margar hliðar þeirra eiga enn eftir að koma í ljós á næstu árum, t.d. þarf að auka vægi líkamsvirðingar án þess að hún gangi inn í módel hinnar markaðsvæddu útlitsdýrkunar.
Vonbrigði ársins
Ýmislegt og nær óteljandi margt gerðist á plánetunni jörð árið 2021. Eitt var það mál „utan úr heimi“ sem reynist okkur fjölskyldunni erfitt: Yfirtaka talíbana á Afganistan. Navid, maðurinn minn, er nýr Íslendingur, fæddist sem ríkisfangslaus afganskur flóttamaður í Íran við bágar aðstæður sem hann flúði og fékk á Íslandi hæli.
Að mörgu leyti er þetta saga síðasta áratugarins þar sem margar manneskjur hafa lagst á flótta. Hér á landi er til dæmis að verða til ágætt samfélag afganskra Íslendinga sem leggja mikið af mörkum til íslensks samfélags og kunna að meta íslensku sauðkindina betur en mörg okkar sem eigum enga erlenda foreldra samkvæmt Íslendingabók. Allt þetta fólk á ættingja sem lifa nú undir stjórn talíbana og búa sig undir hungursneyð og erfiða tíma.
„Ég er bjartsýn á framtíð kynjamála vegna #MeToo en engin okkar ætti að setjast í helgan stein hvað þessi mál varðar“
Vonbrigði ársins var að íslenska ríkisstjórnin gerði sama sem ekkert til þess að hjálpa Afganistan og fjölskyldum þessara nýju Íslendinga þótt hún vissulega léti það hljóma eins og hún hefði gert eitthvað annað og meira en segja Útlendingastofnun að vinna vinnuna sína.
Ofan á þessi vonbrigði var endurnýjun ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega enn einn dómsmálaráðherrann sem man væntir einksis af þegar kemur að flótta- og innflytjendamálum og vonar bara að geri ekki illt verra.
Líklegast er að enn og aftur þurfi mörg okkar að halda áfram að reyna að minnka skaðann sem hið mannfjandsamlega flóttamannakerfi á Íslandi veldur flóttafólki. Andvaraleysi Íslendinga gagnvart reynsluheimi nýrra Íslendinga er jafnvel meira en andvaraleysi karla gagnvart kynjamálum og þá er nú mikið sagt. Löngu er kominn tími til þess að við menntum okkur betur í þessum málum í orðsins fyllstu merkingu.
Hvað er hið nýja „normal“?
Þar sem ég hef verið svo mikið heima á árinu þá hef ég kannski ekki gert mér almennilega grein fyrir hvað sé hið nýja normal. Hversu mikið síbreytilegar sóttvarnarráðstafanir hafa áhrif á samfélagið. En samt hef ég á tilfinningunni að við höfum aðlagast ágætlega og fundið nýjan takt, bæði persónulega og almennt, einhvers konar samfélagstakt.
En það sem var svo magnað að finna fyrir árið 2020 var að vélarnar gátu stoppað og allt verið samt sem áður nokkurn veginn í lagi. Það er eins og okkur sé talið trú um að „tannhjól atvinnulífsins“ geti ekki verið neitt nema eilífðarvél, alltaf með sama taktinum.
„Vonbrigði ársins var að íslenska ríkisstjórnin gerði sama sem ekkert til þess að hjálpa Afganistan og fjölskyldum þessara nýju Íslendinga“
En í fyrra kom stopp, við aðlöguðumst og sameiginlega sjóði var hægt að nota fyrir þau sem áttu erfiðara um vik vegna þessa stopps. Í byrjun Covid birtust á samfélagsmiðlum myndir af auðum götum og heiðskírum himni, plánetan myndi kannski bjargast! Síðan kemur árið 2021; ár bólusetninga og við reynum að snúa aftur til fyrra lífs, í sömu tannhjólin. Ranghvolfum augunum yfir enn einum takmörkunum og pöntum okkur eitthvað næs af netinu.
Í draumum mínum hefði 2021 verið árið þar sem þetta stopp hefði verið notað til þess að stöðva losun koltvísýrings, minnka plast og öll skaðleg efni á byltingarkenndan hátt. Árið sem við hefðum einfaldlega breytt förum tannhjólanna og öll fundið okkur hlutverk í nýjum snúningi. Kannski að fyrsta verkið sé að takast á við þessa kennd að finnast tilbreytingarleysið án útlandaferða drepleiðinlegt, að læra að njóta þess að horfa ár eftir ár á þessar gömlu aspir án þess að stækka við sig eða fara eitthvað annað. Nýársheit er greinilega að verða til.
Athugasemdir