Eignir HD verks, eiganda húss sem brann við Bræðraborgarstíg árið 2020, verða kyrrsettar. Það voru íbúar sem sluppu úr eldsvoðanum á og aðstandendur þeirra sem létust í brunanum, alls sautján manns sem fóru fram á að eignir fyrirtækisins yrðu kyrrsettar sem trygging á kröfu þeirra um skaðabætur. Fólkið reisir málatilbúning sinn á því að fyrirtækið beri ábyrgð á að eignin hafi ekki fullnægt lögbundnum kröfum um brunavarnir.
Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um eldsvoðann á Bræðraborgarstíg sem gerð var opinber 18. desember í fyrra segir meðal annars að eigandi hússins á hverjum tíma hafi borið ábyrgð á ástandi þess. Honum hafi verið skylt að sækja um tilskilin leyfi vegna breytinga á húsnæðinu og að tryggja viðunandi brunavarnir. Í skýrslunni kemur fram að notkun hússins hafi verið önnur en teikningar gerðu ráð fyrir og forsendur allt aðrar gagnvart brunaöryggi. „Húsið var í raun notað til útleigu á herbergjum en ekki sem tvær íbúðir. Breytt notkun kallaði á auknar brunavarnir og eldvarnareftirlit,“ segir í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Sama dag og skýrsla HMS var birt, það er 18. desember í fyrra, fóru íbúar hússins og aðstandendur þeirra sem létust fram á það við sýslumann að eignirnar yrðu kyrrsettar en í byrjun þessa árs synjaði sýslumaður þeirri kröfu fólksins. Málið var sent til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar og þar var ákvörðun sýslumanns felld úr gildi. Í byrjun september var úrskurður Héraðsdóms staðfestur í Landsrétti.
Hæstiréttur staðfesti sem fyrr segir úrskurð Landsréttar og lagði fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að gera kyrrsetningu hjá fyrirtækinu HD verk fyrir skaðabótakröfu hvers íbúa sem komst lífs af úr brunanum og hvers og eins aðstandenda þeirra sem létust í eldsvoðanum.
Skaðabótakrafa þeirra nemur tæplega 80 milljónir króna.
Athugasemdir