„Eftir töluverða umhugsun hef ég ákveðið að fara með kosningamálið í Norðvesturkjördæmi til Mannréttindadómstóls Evrópu,“ segir í yfirlýsingu sem Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður og frambjóðandi Pírata í kjördæminu, sendi frá sér rétt í þessu.
Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands og eigandi lögmannstofunnar Réttur, mun fara með málið fyrir hönd Magnúsar.
Magnús lagði fram kæru til Alþingis þann 1. október síðastliðinn og krafðist ógildingar kosninganna í Norðvesturkjördæmi. „Allar málsástæður kærunnar, hver um sig og eins allar saman, fólu í sér ógildingarannmarka
sem voru til þess fallnir að draga úr trúverðugleika talningarinnar,
sama hvort litið var til þeirrar fyrri eða síðari, lögbrota og starfa
yfirkjörstjórnar í heild og þar með trúverðugleika kosninganna sem fram
fóru í kjördæminu,“ segir Magnús.
Kjarna málsins segir hann vera þann að „fyrir lágu tvær talningar í meingölluðu ferli þar sem hver ágallinn á fætur öðrum hefur komið í ljós. Vilji kjósenda lá engan veginn fyrir enda breyttust niðurstöður milli talninga sem leiddu til breyttrar samsetningar þingsins“.
„Þingmenn, frambjóðendur og kjósendur í landinu vita því ekki hvort núverandi samsetning þingsins er rétt. Slíkt þing getur aldrei talist lögmætt.“
Segir þingmenn þurfa íhuga stöðu sína
Magnús segir í yfirlýsingunni að þeir 42 þingmenn sem lögðu blessun sína yfir kosningarnar í Norðvesturkjördæmi þurfi að „íhuga stöðu sína og framtíð í stjórnmálum fari svo að mál þetta vinnist fyrir Mannréttindadómstól Evrópu“.
„Enginn ætti að taka lýðræðinu sem gefnum hlut, sérstaklega þegar kjörnum fulltrúum er falið að úrskurða um gildi kosninga þar sem þeir sjálfir
náðu kjöri. Ég trúi því að réttlætið muni sigra í þessu máli þó síðar
verði.“
Athugasemdir (1)