Vegna mistaka við birtingu forsetaúrskurðar um skiptingu starfa ráðherra í Stjórnartíðindum í gærkvöldi virtist sem svo að Guðlaugi Þór Þórðarsyni, nýskipuðum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefði verið falin stjórn menningarmála. Var hann sagður fara fyrir málefnum bókmennta, myndlistar, listskreytingar opinberra bygginga, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Kvikmyndamiðstöðvar, starfslauna listamanna, Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins.
Svo er hins vegar ekki, samkvæmt upplýsingum frá Róberti Marshall, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Mistök hafi verið gerð við birtingu úrskurðarins. Hin eiginlegu skjöl hafi verið rétt og því hafi mistökin ekki haft áhrif á raunverulega skiptingu verkefna á milli ráðherra.
Hið rétta er að Guðlaugur Þór fær á sitt borð verkefni umhverfisráðuneytisins að viðbættum málefnum tengdum menningarminjum, sem tilheyra mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Undir þeim málaflokki er varðveisla menningararfs, skil menningarverðmæta til annarra landa, verndarsvæði í byggð og Minjastofnun Íslands.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, nýskipaður ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, er sú sem fer með forræði yfir þeim menningar- og listamálum sem voru sögð á borði Guðlaugs Þórs.
Mistökin fólust í því að farið var línuvillt þegar vísað var til verkefna umhverfisráðherrans en menningarmál er í næstu línu á eftir menningarminjum í öðrum forsetaúrskurði þar sem verkefni hvers ráðuneytis eru talin upp. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar er verið að uppfæra auglýsinguna í Stjórnartíðindum.
Uppfært klukkan 11.32 til að árétta að mistök við birtingu forsetaúrskurðar höfðu ekki lagaleg áhrif á skiptingu málaflokka á milli ráðherra.
Athugasemdir (3)