Mikill munur er á hvernig gerendur ofbeldis upplifa og skýra brot sín eftir því hvaða stétt þeir tilheyra. Þetta sýnir rannsókn sem er hluti af doktorsverkefni Katrínar Ólafsdóttur. Rannsóknin byggir á viðtölum við einstaklinga sem sjálfir skilgreina sig sem gerendur ofbeldis. Í rannsókninni greinir Katrín þeirra sögu og sjálfsmynd og hvernig þeir staðsetja sig með tilliti til ofbeldisins.
„Það er mikill munur á hvernig einstaklingar upplifa brot sín eftir því hver samfélagsstaða þeirra er. Það er alveg skýr stéttamunur á hvað þessir einstaklingar draga fram, hvað þeim finnst mikilvægt þegar þeir eru að skýra sín brot. Einstaklingar af verkastétt eru meira að hugsa um karlmennskuhugmyndir og hvernig þeir máta sig við þær á meðan einstaklingar af miðstétt eru meira að hugsa um hvort rétt sé að kalla brotin því nafni sem hefur verið lagt á þau: „Eru mín brot ofbeldisbrot eða eru þau kannski eitthvað annað?““ segir Katrín.
„Ef maður setur þetta í samhengi við enn þá frægari einstaklinga sem við sjáum sögur af í dag, hvernig við sjáum þetta endurspeglast í frásögnum þekktra manna sem er verið að nefna sem gerendur og þeirra viðbrögð við því, þá finnst þeim þetta kannski erfitt vegna þess að þeir hafa notið frægðar og frama og eiga erfiðara með það að staða þeirra sé mögulega að breytast. Þá fara þeir í vörn.“
Katrín kynnir niðurstöður sínar á Kynjaþingi Kvenréttindafélags Íslands sem fram fer laugardaginn 13. nóvember næstkomandi. Þar segist Katrín ætla að setja niðurstöður sínar í samhengi við nýjustu bylgju #metoo frásagna. Hvernig á að bregðast við henni og hvernig er hægt að læra.
„Eru mín brot ofbeldisbrot eða eru þau kannski eitthvað annað?“
Katrín segir að það sé áskorun að finna einstaklinga til að taka þátt í rannsókn eins og þessari, þar sem forsenda er að einstaklingarnir hafi viðurkennt og gengist við því að vera gerendur ofbeldis. Þeir einstaklingar eru ekki á hverju strái. „Þeir eru það ekki. Það er mjög flókið að finna viðmælendur fyrir verkefni eins og þetta en hins vegar kemur það á óvart þegar farið er af stað að það eru einstaklingar sem gangast við sínum brotum og vilja að þeirra frásögn geti hjálpað einhverjum, svo ekki fleiri einstaklingar gangi þennan veg. Flestir eru að hugsa um forvarnargildið,“ segir hún.
Athugasemdir (1)