Rakel Þorbergsdóttir hefur sagt upp störfum sem fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Hún hefur gegnt starfinu síðan 2014 en áður starfaði hún sem fréttamaður hjá stofnuninni. Starfsmönnum var tilkynnt þetta í morgun og var tilkynning send fjölmiðlum nú fyrir skömmu.
Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri mun gegna starfi Rakelar frá áramótum en það verður auglýst laust til umsóknar á næsta ári.
Í tilkynningu frá RÚV er haft eftir Rakel að árin á RÚV hafi verið lærdómsrík, krefjandi og skemmtileg. „Ákvörðun mín var því ekki auðveld, fréttastofan er frábær vinnustaður en það er öllum hollt að breyta til og takast á við nýjar áskoranir,“ segir hún í tilkynningunni.
„Allar mælingar staðfesta að fréttastofa RÚV er sá miðill sem þjóðin reiðir sig á, treystir og leitar til, sérstaklega þegar mikið liggur við. Ég er gríðarlega stolt af frammistöðu okkar fólks og það hefur verið heiður að fá að stýra þessari öflugu og rótgrónu fréttastofu síðustu ár. Ég kveð með söknuði og hlýju í garð minna góðu félaga á RÚV.“
Fróðlegt verður að sjá hverja sjálfstæðisflokkurinn velur í störfin ?