Í málsatvikalýsingu undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa sem birtist á vef Alþingis í gær kemur fram að samkvæmt Karen Birgisdóttur, starfsmanni yfirkjörstjórnar sem hafði umsjón með starfsfólki talningar, hafi atkvæðaseðlar ekki verið taldir frá grunni í endurtalningunni í Norðvesturkjördæmi.
Í viðtali við Ríkisútvarpið þann 6. nóvember sagði Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, að gert væri ráð fyrir því að nefndin myndi starfa út vikuna í það minnsta. Þá sagði hann einnig að nefndin væri langt á veg komin með gagnaöflun sem snérist að mestu leiti um að varpa ljósi á talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Málsatvikalýsingin er hluti af þeirri vinnu.
Málsatvikalýsing í vinnslu
Í samtali við Stundina segir Birgir Ármannsson að málsatvikin sem hafi verið birt séu enn í vinnslu, þar að segja, að endanlega niðurstaða sé ekki komin í málið. Aðilar að málinu hafa nú allir fengið frest þangað til á morgun til að skila athugasemdum til nefndarinnar svo hægt sé að ljúka við gerð málsatvikalýsingarinnar.
Þegar athugasemdum hefur verið skilað á samkvæmt Birgi eftir að funda um þær áður en hægt er að ljúka vinnunni. Hann telur ekki víst að þeirri vinnu verði lokið í þessari viku.
Yfirkjörstjórn verið byrjuð að telja
Samkvæmt málsatvikalýsingunni kom Karen upp í Borgarnes klukkan 14.30 sunnudaginn 26. september og við komu hafi yfirkjörstjórnin verið byrjuð að telja nokkra listabókstafi. Þegar starfsfólk talningar kom á svæðið hafi verið búið að telja nokkra flokka áður en starfsfólkið hóf störf.
Þá kemur einnig fram að eftir að starfsfólk talningar kom á svæðið hafi aðeins einn villa fundist í talningunni, aðrar villur höfðu áður verið komnar fram.
Karen segist aðspurð hafa viljað fá að telja öll atkvæði aftur með sínu starfsfólki og að hún hefði gert athugasemd við Inga Tryggvason hefði hún vitað að hann ætlaði að byrja talninguna áður en hún mætti á staðinn.
Samkvæmt meðlimi undirbúningsnefndarinnar er ekki útilokað að nefndin fari aftur í Borgarnes til þess að fara yfir kjörgögn að nýju.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Athugasemdir