Á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi árs voru 1.562 íbúðir keyptar af fólki sem var að kaupa sína fyrstu eign. Eru það töluvert færri fyrstu kaup en voru á öðrum ársfjórðungi og einnig á fyrsta ársfjórðungi en aldrei höfðu fleiri keypt sér sína fyrstu íbúð en þá. Aldrei hafa fleiri fyrstu kaup verið gerð en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, alls 1.938.
Þetta kemur fram í gögnum Þjóðskrár Íslands. Þar má sjá að fyrstu kaup tóku mikinn kipp á þriðja ársfjórðungi síðasta árs þegar 1.913 íbúðir voru keyptar af fólki sem var að kaupa sína fyrstu eign. Á fjórða ársfjórðungi þess árs voru kaupin 1.777 talsins. Fjöldi fyrstu kaupa hefur aldrei verið neitt í líkingu við það sem hefur verið undanfarið ár en hæst hafði hann farið í 1.427 árið 2007. Meðalaldur þeirra sem keyptu sína fyrstu íbúð á ársfjórðungnum var 29,5 ár.
Að meðaltali greiða fyrstu kaupendur fjórum milljónum króna meira í dag fyrir sína fyrstu íbúð en þeir gerðu fyrir ári síðan. Meðalkaupverð íbúðanna er nú 45,4 milljónir fyrir 96,9 fermetra íbúð, sem er meðalstærð íbúða sem fyrstu kaupendur keyptu. Það jafngildir um 469 þúsund krónur á fermetra. Mest greiða kaupendur fyrir sína fyrstu eign á höfuðborgarsvæðinu en minnst á Austurlandi. Langflestir fyrstu kaupendur voru á höfuðborgarsvæðinu, 977 talsins sem jafngildir 62,5 prósentum.
Hlutfall fyrstu kaupenda var lægst á Norðurlandi vestra á síðasta ársfjórðungi, um fjórðungur allr kaupenda. Hæst var hlutfallið á Vestfjörðum, um 45 prósent allra kaupenda. Vakin er athygli á að fáir samningar geti verið að baki viðskiptum í einstökum landsfjórðungum á hverjum ársfjórðungi.
Athugasemdir