„Það fór ekki svo að Kóvíð konungur næði manni ekki inn í ríki sitt,“ skrifar Hallgrímur Helgason rithöfundur, sem fluttur var af slökkviliðsmanni á sóttvarnarhótelið við Rauðarárstíg í gærkvöldi, eftir að hafa greinst smitaður af Covid-19, einn 72 Íslendinga í gær.
Alls eru 897 Íslendingar í einangrun í dag og 1.169 í sóttkví. Það flækir stöðuna hjá Hallgrími að hann var einn þriggja gesta í Vikunni hjá Gísla Marteini Baldurssyni á RÚV á laugardagskvöldinu, eins og hann lýsir á Facebook-síðu sinni.
„Vona svo bara að ég hafi ekki smitað neinn í settinu hjá honum Gísla Marteini. Þau eru þrjú komin í sóttkví mín vegna, hann sjálfur, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Sóli Hólm, einkennalaus sem betur fer, og smitskömmin því í lágmarki. Aðrir sem ég hitti á föstudaginn eru í smitgát. Allir neikvæðir að ég best veit,“ segir hann.
Hallgrímur er „vel flensaður og slappur en þó enn með bragð- og lyktarskyn“, „enda tvívarinn með Astra Zeneca síðan í sumar,“ eins og hann segir.
Af þeim 72 sem greindust smitaðir í gær voru tæp 40% ekki bólusett, en það er mun hærra hlutfall en fjöldi óbólusettra í samfélaginu segir til um. 76% landsmanna eru bólusettir og 89% fullorðinna.
Hallgrímur eggjar alla landsmenn að láta bólusetja sig. „En við ykkur sem enn eigið eftir að láta bólusetja ykkur segi ég: Gerið það strax!“ segir hann og hnykkir út: „Guð blessi bóluefnin!“
Hallgrímur tekur sérstaklega fram að þau sem komu í útgáfuteiti hans á fimmtudag þurfi ekki að bregðast við, þar sem línan sé dregin við föstudagsmorgun.
Athugasemdir