Um daginn las ég áhugaverða rannsókn. Þar var fólk frá 13 Evrópulöndum, sem komið var yfir fimmtugt, beðið að segja hvaða tímabil í lífi þeirra var það besta. Flestir svöruðu að árin frá 30 til 34 hefðu verið gullöldin.
Þetta var svekkjandi lesning. Ég er nefnilega 37 ára. Þegar ég var þrítugur eignaðist ég mitt fyrsta barn. Þegar ég var 35 ára eignaðist ég mitt annað. Frá 30 til 34 vann ég sem blaðamaður, skrifaði mína fyrstu bók, var að feta mig í nýju hlutverki sem faðir og lét áhyggjur lífsins að mestu sem vind um eyru þjóta. Þetta voru vissulega frábær fjögur ár, en þau sem fylgdu á eftir hafa líka verið góð. Öðruvísi. Erfiðari, já. En líka ljúfsár. Á sama tíma dásamleg, með öðru kryddi. Flóknari samsetning.
Ég er því mjög meðvitaður um að árin sem ég er að upplifa núna eru líklega þau bestu sem ég mun lifa. Börnin mín eru að fá vit en samt enn á krúttlegum og viðráðanlegum aldri. Elska okkur foreldra sína skilyrðislaust og við getum, að þeirra mati, nánast ekkert gert rangt. Árin þar sem þau fara til þerapista og tala um hvernig við ómeðvitað skemmdum þau með takmörkunum okkar enn um það bil tvo áratugi í burtu.
Dásamlegt hark
Ég sæki drenginn á leikskóla. Þurrka horið, set hann í bílstólinn og við hlustum á (You Gotta) Fight for Your Right (To Party!) með Beastie Boys í bílnum. Hann elskar það lag. Kallar það „kökulagið“ af því í myndbandinu er tríóið að henda rjómatertum í andlitið á fólki. Kem heim og hann leikur sér með bíla í klukkustund þar til við sækjum stelpuna á frístundaheimilið sem hún fer á eftir skóla.
Nánast daglega kemur hún heim með vinahálsmen, pappamassaskúlptúra eða teikningar, algjörlega að springa úr óheftri sköpunargleði og upplifunarvímu. Nýbyrjuð í skóla, farin að lesa og skrifa, eignast nýja vini og dottin inn í hina flóknu dýnamík sem samskipti í grunnskóla eru, án þess að þau séu farin að hafa mjög kvíðavekjandi áhrif á hana. „Saaaam…. Suuung? Hvað er það?“ Les hún af sjónvarpinu þegar við erum búin að slökkva á því.
Þakklæti er framkvæmd
Því við erum náttúrlega alltaf að berjast við að lágmarka skjátíma, eins og flestir foreldrar nú til dags. Helsta viðfangsefni foreldrahlutverksins. Setjum handahófskennd tímamörk út í loftið og svíkjum þau þægindanna vegna og hlustum á enskuslangrið stelast inn í talmál barnanna án þess að eiga séns í að stoppa það. En á þeim stundum þegar við stöndum við sett mörk, setjum á Hrekkjusvínin, Bland í poka eða aðrar vandaðar íslenskar barnaplötur og dönsum eða förum í kitluleik eða sund eða göngutúr eða á róló, þá fæ ég oft svo sterklega á tilfinninguna hvað þetta sé allt frábært. Og þegar ég fæ þessa tilfinningu þá fyllist ég oft af mjög yfirþyrmandi þakklæti.
Fyrir nokkrum dögum var kæró búin að elta krakkana upp í hjónarúm (hún þóttist vera Grýla eða norn, ég náði því ekki alveg) og var að kitla þau og þau voru í svo innilegu hláturskasti og þetta var allt svo einlægt og fullkomlega fallegt. Í stað þess að slást í leikinn þá bara stóð ég hjá og táraðist og hugsaði um hvað ég væri ótrúlega heppinn. Hversu mikil blessun þessi tvö börn hafa verið inn í líf okkar. Hvað ég sé heppinn að eiga í góðu sambandi við kærustuna mína, móður þeirra. Hversu mikil og ósjálfsögð gjöf það sé að vera andlega og líkamlega til staðar fyrir börnin okkar, hvað svo sem þerapistum eftir tvo áratugi kann að finnast um aðferðirnar.
Mismunandi gleraugu
Í mörg ár dreymdi mig um að enda eigið líf.* Losa sjálfan mig undan stöðugu sjálfshatrinu og mína náunustu undan þeirri kvöð að þurfa að horfa upp á mig vera svona mikinn aumingja. Lífshamingjan var töluvert lengra frá en handan við hornið. Hún var ófáanleg. Hvernig átti einu sinni að vera hægt að vera hamingjusamur í svona ömurlegum og dauðadæmdum heimi? Það að brosa ætti að vera glæpur á meðan jörðin er að farast. Mér datt ekki í hug að biðja um hjálp. Hvernig ætti einhver að geta hjálpað mér frá því að vera raunsær? Að sjá sjálfan mig sem bjána, samfélag manna sem ólæknandi ósanngjarnt og heimsendir í nánd.
Á þessum tíma voru nokkur ár liðin frá því ég hafði verið í framhaldsskóla. Einhver hafði logið því að mér þegar hann var að hefjast að þar ættu bestu ár ævi minnar eftir að eiga sér stað. Þau voru svo sem ágæt. En þetta með bestu árin voru ýkjur.
Ennþá þessi asni
En hvað gerðist? Hvað breyttist þannig að ég hætti að hata sjálfan mig? Ekkert, í rauninni. Ég er enn bjáni. Samfélag manna er ósanngjarnt. Heimsendir er í nánd. Þessum hlutum fæ ég ekki breytt. Það eina sem er í mínu valdi er að annaðhvort get ég ákveðið að vera mjög dapur með þetta ástand, eða ég get kosið að vera hamingjusamur bjáni. Ég gerði á sínum tíma óvart tilraun til þess að vera hamingjusamur. Fyrsta skrefið var að biðja um hjálp. Ég álpaðist í hendurnar á fólki sem var tilbúið að leiðbeina mér og ég fylgdi þeirra tillögum. Síðan þá hef ég fengið fólk upp í hendurnar sem er einnig að biðja um hjálp. Sumir fara strax að vinna í eigin málum. Aðrir halda að bónin um hjálp sé nóg, en hún er bara fyrsta skrefið. Það sem tekur við næst er ekki auðvelt, en það er einfalt. Það þarf að halda áfram. Brjóta mynstrið. Byggja upp nýtt líf.
37 ára. Samt líður mér oftast eins og ég sé átján. Þegar kæró horfir á leirtauið í vaskinum sem átti að vera á mína ábyrð og setur upp kryppu er hún sammála þeirri greiningu. Við göngum frá eftir stormasaman og vel heppnaðan dag. Þegar helmingur heimilismeðlima er stöðugt að draga fram leikföng, föndurdót, rústa sófanum og fá sér snarl án þess að ganga frá einu né neinu breytist foreldrahlutverkið að kvöldi dags skyndilega í ólaunað þjónustustarf.
Horft á sofandi börn
Allan daginn bíðum við eftir því að geta svæft litlu kvikindin svo við getum púslað sófanum aftur saman, hlammað okkur í hann og étið óhollustu á meðan heimskulegir sjónvarpsþættir rúlla inn í hornhimnurnar. Engin takmörkun á skjátíma fyrir okkur. Skaðinn er skeður. Svo stöndum við stundum upp og förum inn í herbergið þar sem þau sofa. Þar eru þau búin að sparka af sér sænginni og komin í algjörlega fáránlegar líkamsstöður upp á svefn að gera. Samt svo sæt þegar þau sofa.
Og við stöndum í myrkrinu og knúsum hvort annað og horfum á þessi fallegu og fullkomnu börn sem við slysuðumst til að setja saman. Dæsum. Vá, hvað við erum heppin. Þó við séum bæði eldri en 34 ára.
*Hafir þú hugsað um sjálfsvíg og/eða sjálfsskaða, eða áhyggjur af einhverjum nákomnum, er bent á Píeta samtökin.
Athugasemdir