Það hefði eflaust þótt saga til næsta bæjar hér á árum áður að viðskiptamaður, kapítalisti jafnvel, hefði áhuga á styttri vinnuviku. Frasinn „tími er peningar“ er enn í fullu gildi, ekki satt? En sagan er sönn, því milljarðamæringurinn og viðskiptamaðurinn Andrew Barnes heldur nú á lofti hugmyndinni um fjögurra daga vinnuviku, og hann bendir á að tími jafngildi ekki peningum, heldur framleiðni. Og framleiðni fæst ekki hvernig sem er, segir hann.
Andrew hefur komið víða við í viðskiptum, einkum í Bretlandi og Nýja-Sjálandi. Hann rekur nú fjárfestingarfyrirtæki í Nýja-Sjálandi, Perpetual Guardian að nafni, sem stýrir fjárfestingarsjóðum, hvers verðmæti er um og yfir 200 milljarðar nýsjálenskra dollara (um 18.400 milljarðar króna), og er með starfsstöðvar vítt og breitt um Nýja-Sjáland.
Andrew hratt af stað tilraun með styttingu vinnuvikunnar innan Perpetual Guardian árið 2018, tilraun sem lukkaðist það vel að tilraunin er komin til að vera. Síðar setti Andrew á laggirnar vef og átak sem er einfaldlega kallað 4 Day Week Global, og hefur Andrew sjálfur hjálpað til við að vekja athygli á málstaðnum utan Nýja-Sjálands, m.a. á Írlandi. Tilraunin er grunnurinn að baki þessu átaki, og grunnurinn sömuleiðis að bók sem Andrew skrifaði ásamt viðskiptablaðamanninum Stephanie Jones. Bókin ber hinn einfalda yfirtitil The 4 day Week og kom út á síðasta ári.
En hvað er það sem Andrew vill og af hverju er það viðskiptamaður sem heldur á lofti þessari hugmynd? Ástæðurnar þar að baki eru kannski ekki augljósar en þó skýrar.
Framleiðni, framleiðni, framleiðni
Í bókinni er lögð áhersla á að það sé framleiðni sem fyrirtæki og stjórnendur eigi að sækjast eftir, fremur en viðvera starfsfólks í vinnunni. Þess vegna eigi stjórnendur að hafa augun opin fyrir aðgerðum sem geta aukið framleiðni á sínum vinnustað. Það sé lykilatriði að reyna að halda uppi góðri framleiðni og ein aðferð til þess sé að stytta vinnuvikuna, svo fólk geti fengið betri hvíld – góð hvíld sé lykillinn að heilbrigðri framleiðni, endurnært fólk er framleiðnara. Þá leggur Andrew sjálfur – sumir hlutar bókarinnar eru eftir aðeins annan höfundinn – áherslu á að fyrirtækin bjóði starfsfólki sínu upp á vinnuumhverfi þar sem áreiti sé sem minnst og að umhverfið geri það að verkum að að fólk þreytist síður, slíkt auki framleiðni. Léleg og lítil hvíld, auk mikils áreitis í vinnunni, minnki framleiðni. Þetta sé sérstaklega mikilvægt til lengri tíma litið.
Í bókinni er jafnframt lögð áhersla á að ýmiss konar samskiptatækni – sítengdur tölvupóstur og spjallkerfi – og tíska í skrifstofurýmum – opin rými – geti virkað til að draga úr framleiðni, og að æskilegt væri að endurskoða hvernig hvort tveggja er nýtt, tæknin og skrifstofurýmin. Þá sé mikilvægt að endurskoða fundarmenningu í kjölinn, fundir eigi almennt að geta verið stuttir og hnitmiðaðir.
Draumur höfundanna er að með svolítilli endurskoðun á því hvernig við vinnum vinnuna í fyrirtækjum samtímans megi draga úr vinnustundum, og þá einnig úr árekstrum vinnu og heimilislífs, minnka streitu og draga úr kulnun. Slíkt bætir líf fólks, eins og gefur að skilja. Eins og Andrew sjálfur leggur áherslu á, þá þýðir þetta ekki að fyrirtækin tapi peningum, enda aukist framleiðnin meðfram þessum aðgerðum, og hagnaðurinn geti jafnvel aukist. Árangurinn geti orðið mikill og gagnist öllum.
Þannig sé draumurinn um fjögurra daga vinnuviku ekki hugsaður út frá einhvers konar góðgerðarsjónarmiðum, heldur út frá harðkjarna viðskiptasjónarmiðum, hvatanum til að hagnast og betra lífs starfsfólksins. Stytting vinnuvikunnar þurfi alls ekki að leiða til tapreksturs, heldur til aukins hagnaðar, ítrekar Andrew. Það hefur og verið raunin hjá Perpetual Guardian, enda hefur dregið úr veikindum starfsfólks og ýmiss konar sóun hjá fyrirtækinu. Hefur þetta og verið raunin hjá mörgum öðrum fyrirtækjum sem reynt hafa styttri vinnuviku.
100-80-100 reglan og innleiðing
Í bókinni er lögð til eins konar leiðsagnarregla fyrir stjórnendur sem hyggjast innleiða eða prófa sig áfram með styttingu vinnuvikunnar í fjóra daga, sem er einfaldlega nefnd 100-80-100 reglan, en hún felst í eftirfarandi:
– 100% laun starfsfólksins
– 80% vinnutímans
– 100% framlag starfsfólksins.
Markmiðið með leiðsagnarreglunni er sátt á milli starfsfólksins og stjórnenda um að fullum afköstum sé haldið eftir innleiðingu styttri vinnuviku, gegn því að laun haldist óbreytt. Og ávinningurinn er að streita starfsfólks minnki, vellíðan í starfi aukist, jafnvægi vinnu og einkalífs aukist, fólk sé frekar tilbúið til breytinga á vinnustaðnum, veikindadögum fækki og framleiðni aukist. Allt þetta var raunin í tilrauninni hjá Perpetual Guardian, og hélst. Hefur þetta og verið raunin hjá öðrum fyrirtækjum sem stytt hafa vinnuvikuna.
Þannig sé ávinningur fyrir alla, jafnt starfsfólk sem atvinnurekendur, af styttingu vinnuvikunnar, þegar hún er innleidd rétt.
Andrew leggur raunar ríka áherslu á að vanda þurfi til verka áður en slíkri tilraun sé hleypt af stokkunum, ekki megi rjúka til að óhugsuðu máli. Hann leggur einnig áherslu á að frídagurinn sem bætist við þurfi ekki endilega að bera upp á föstudögum eða mánudögum – slíkt fari einfaldlega eftir aðstæðum. Það þurfi enda að veita þjónustu alla virka daga í flestum fyrirtækjum, og í sumum alla daga – sú krafa þurfi að stýra því á hvaða degi frídagurinn lendi hjá fólki.
Höfundarnir leggja áherslu á að stytting vinnuvikunnar og tilraunir með slíkt virki best innan fyrirtækja þar sem mikið traust er fyrir – einkum milli stjórnenda og starfsmanna – en ef traustið er lítið verði að byrja á að efla það. Þá sé mjög mikilvægt að stjórnendurnir leggist á eitt um gildi þess að stytta vinnuvikuna og að öllum – eigendum, starfsfólki og öðrum stjórnendum – sé gert ljóst að stjórnendurnir séu einhuga um það. Höfundarnir vara við að slíkar tilraunir geti leitt til enn verra andrúmslofts á vinnustaðnum, ef þær misheppnast og andrúmsloftið er slæmt fyrir.
Einnig leggja höfundarnir áherslu á að stytting vinnuvikunnar verði að vera innleidd í fullu samstarfi við starfsfólkið: Það sé starfsfólkið sem verði að finna leiðir til að láta styttinguna ganga upp, það sé starfsfólkið sem verði að endurskoða vinnuferla, allt í góðu samstarfi við stjórnendur og samstarfsmenn almennt. Til að þetta gangi verði að vera traust á milli allra, en ekki síst skilningur á því að aukin framleiðni sé lykillinn að því að þetta gangi allt upp. Þá sé mikilvægt að búast við mistökum og erfiðleikum, sem einfaldlega þarf að yfirvinna og leysa með því að prófa sig áfram með nýjar leiðir – nánast sjálfgefið í öllum rekstri, en sérlega mikilvægt þegar miklar breytingar ganga yfir. Svo eru sumir sem ekki kæri sig um styttri vinnuviku, og þeirra óskir verði einfaldlega að virða – ekki allir eru greyptir í sama mót.
Þegar öllu er á botninn hvolft, segja þau Andrew og Stephanie, snýst stytting vinnuvikunnar um að vinna verkin öðruvísi, forgangsraða betur, sleppa því sem ekki skiptir máli, fækka fundum og gera þá markvissari – allt í sátt og með það að leiðarljósi að ná árangri.
Einn hluti leiðsagnarreglunnar er að starfsfólk haldi fullum launum þrátt fyrir að vinnustundum fækki. Andrew varar eindregið við að eigendur og stjórnendur hugsi með sér að kjörið tækifæri sé til að lækka laun fólks meðfram styttri vinnuviku, enda sé enn ætlast til þess að sömu verk séu unnin og fyrir styttinguna, það sé bundið í öðrum hluta leiðsagnarreglunnar, um 100% framlag – og náist það, þá aflar fyrirtækið jafn mikilla tekna og áður og geti þannig greitt sömu laun eftir sem áður. Einnig sé rétt að að hafa í huga að það séu unnin verk sem skipti máli, ekki viðveran sem slík. Beinn ágóði atvinnurekandans sé fólginn í því þegar framleiðni eykst meira en sem styttingunni nemur, sem og í formi færri veikindadaga.
Hin víðtækari áhrif á skemmri vinnuviku
Af hverju er atvinnurekandi, sem alla jafna – myndi maður halda – ætti fyrst og fremst að vilja leggja rækt við sitt fyrirtæki og stækka það, að spá í styttingu vinnuvikunnar um heim allan? Er það ekki mál sem fyrst og fremst varðar stéttarfélög og samtök launafólks, fremur en atvinnurekendur? Af skrifum Andrews er málum alls ekki svo háttað: Þetta sé sameiginlegt umhugsunarefni alls samfélagsins. Raunar er um helmingur bókarinnar lagður undir röksemdafærslu um hin víðtækari áhrif af styttingu vinnuvikunnar í fjóra daga.
Það er rétt að skoða þessi rök stuttlega.
Það sem rak Andrew til að velta fyrir sér fjögurra daga vinnuviku – að eigin sögn – er rannsókn sem hann las um, en ein ályktun rannsóknarinnar var að starfsfólk á skrifstofum í Kanada og Bretlandi sé alla jafna aðeins virkt í vinnunni í um þrjá tíma á dag – restinni sé varið í alls konar annað sem sé oft ekki árangursríkt fyrir þau verkefni sem þarf að sinna, eða í eitthvað sem er ekki vinnutengt. Þetta var Andrew hvatning til að reyna skemmri vinnuviku til að vita hvernig árangurinn yrði. Eftir að tilrauninni í Perpetual Guardian var lokið – og hún komin til að vera – var hann þess fullviss að átta tíma vinnudagur, fimm daga vikunnar, væri barn síns tíma, arfleifð frá verksmiðjusamfélagi 19. aldar. Það sé kominn tími til að endurhugsa hvernig við vinnum. Það er rétt að minna á í þessu samhengi að vinnuvikan var alla jafna sex dagar, en styttist víða í fimm daga á 19. öldinni (á Íslandi á þeirri tuttugustu).
Í bókinni er reifað hvernig vinna hafi svo mjög breyst, að endurhugsa þurfi samband vinnutíma og framleiðni: Hvernig t.d. metur maður á merkingarbæran hátt framleiðni sölumanns, eða einhvers sem vinnur við notendaaðstoð í gegnum tölvu? Eða þá hugbúnaðarsmiða? Slíkt mat sé langt í frá einfalt, og erfiðara en t.d. að meta framleiðni í bílaverksmiðju. En þó hugsum við oft um vinnu eins og hún sé öll á færiböndum þótt svo langfæstir vinni slíka vinnu í þróuðum ríkjum samtímans – slíkt er einfaldlega liðin tíð, og sums staðar var slík vinna aldrei mjög stór hluti hagkerfisins (m.a. á Íslandi).
En þetta er ekki allt: Í samtímanum verði fleiri og fleiri að aka lengri og lengri vegalengdir til að komast í vinnuna, benda þau Andrew og Stephanie á – sem þýðir að æ stærri hluta vökutímans sé varið í samgöngur – en það leggist ofan á vinnudaginn sjálfan. Slíkt skapi streitu út af fyrir sig. Þá ýti það jafnframt undir streitu að miklir árekstrar séu á milli vinnu og einkalífs í samtímanum. Þessi samblanda leiði til kulnunar og veikinda, sem skaddar allt samfélagið. Allt þetta – veikindi, aksturinn og árekstrarnir – valdi samfélaginu kostnaði og óþægindum sem má komast hjá með því að draga úr vinnu. Ekki má vanmeta þennan þátt: Streita sé sífellt algengari, sem og kvíði og ýmsar geðraskanir, eins og þekkt er. Þá er um 57% allra veikindadaga í Bretlandi komnir til vegna andlegs krankleika, sem dæmi.
Þá fjallar bókin um álagið á umhverfið sem kemur til af fimm daga vinnuviku og hvað geti sparast við að stunda fjögurra daga vinnuviku, með fjarvinnu í bland. Því fylgir álag á umhverfið að fólk aki langar vegalengdir í vinnuna – m.a. í formi loftslagsbreytinga og auðlindanotkunar – og ljóst er að fjögurra daga vinnuvika getur haft jákvæð áhrif á þessa þætti, án þess endilega að það hafi neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækjanna.
Í bókinni er fjallað um ýmisleg fleiri rök í þessa veruna, sem ekki er pláss til að fara yfir hér, en þau snúa öll að hinum stærri málefnum samfélagsins, sem varða okkur öll.
Framtíðin er styttri vinnuvika
Áhugi Andrew Barnes á styttingu vinnuvikunnar er þannig ekki aðeins kominn til vegna væntinga um minni vinnu, heldur fyrst og fremst vegna jákvæðra áhrifa þess á fólk, samfélag og fyrirtæki. Í bókinni er ágætlega fjallað um hvernig flókið samspil getur verið á milli vinnutíma, framleiðni, streitu, kvíða og svo afkomu fyrirtækjanna, auk ýmissa samfélagsþátta. Þessir þættir eru oft ekki augljósir, en tengslin þó greinileg, og eru því gerð greinargóð skil í bókinni. Þannig fjallar bókin um þessi mál í hinu stóra samhengi.
Það sem kannski skortir á í bókinni, og þarf að ræða ítarlegar í samfélaginu, er hvernig við innleiðum framtíðarstyttingu á vinnuvikunni í heilbrigðiskerfinu, umönnun og menntakerfinu, sem dæmi. Er og hefur raunar verið brýnt í mörgum löndum að bæta starfsaðstæður í þessum mikilvægu greinum almennt til að tryggja lífsgæði fólks sem þar starfar; er það mikilvægt fyrir starfsfólkið sjálft, skjólstæðingana, framgang greinanna og jafnvægi milli atvinnugreina í samfélaginu.
Bókin er þó hinn prýðilegasti leiðarvísir fyrir þá sem vilja reyna sig áfram með styttingu vinnuvikunnar í sínu fyrirtæki, sérstaklega þá í fjóra daga. Hún er uppfull af hagnýtum upplýsingum, jafnt sem heilræðum, sem ættu að geta gagnast starfsmönnum, stjórnendum og eigendum fyrirtækja sem öðrum sem vilja stytta vinnuvikuna. Hún er mikilvægur leiðarvísir um eitt helsta mál samtímans og framtíðarinnar, styttingu vinnuvikunnar.
Höfundur er stjórnarmaður í Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði
Athugasemdir