Á þeim fimm árum sem ég hef setið á Alþingi hef ég lært margt og mikið um íslenskt samfélag og hina sér-íslensku pólitík. Margir undrast að það virðist alveg sama hversu mörg hneykslis- og spillingarmál koma upp hjá stjórnvöldum, það hefur engin teljandi áhrif á það sem kemur upp úr kjörkössunum. Sömuleiðis virðist vinnan gegn ofbeldismenningu og gerendameðvirkni í samfélaginu ganga allt of hægt.
Margir vilja kenna gullfiskaminni íslensku þjóðarinnar um þessa stöðu; við séum svo fljót að gleyma, við getum nú sjálfum okkur um kennt að hér breytist aldrei neitt, sama hversu oft siðferðiskennd þjóðarinnar er misboðið.
Málið er þó alls ekki svona einfalt. Það er ekkert „af því bara“ sem veldur því að hneykslismálin sofna og spillingin skríður aftur undir yfirborðið. Það er ekki eitthvert „sinnuleysi þjóðarsálarinnar“ sem veldur því að það þarf hverja #metoo-bylgjuna á fætur annarri til þess að stíga pínulítil skref út úr ofbeldismenningunni. Það er nefnilega lögð heilmikil vinna í að viðhalda óbreyttu ástandi.
Ég kalla þessa vinnu þöggunartaktík. Reynsla mín á Alþingi fær mig til að halda að valdakerfið á Íslandi eigi sér hreinlega einhvers konar handbók með þöggunartaktík, sem það flettir upp í þegar þarf að svæfa óþægileg mál sem fyrst.
Þöggunarhandbókin - Efnisyfirlit:
- Afneitun eða Að gera lítið úr málinu
- Finna blóraböggul
- Skjóta sendiboðann
- Að gera sjálfan sig að fórnarlambi
- Smjörklípuaðferðin
- Afvegaleiðing umræðunnar
- Að endurskrifa söguna
- Gaslýsingar
1. Afneitun eða Að gera lítið úr málinu
Fyrstu viðbrögð í flestum spillingar- og hneykslismálum eru að þræta fyrir þau eða að reyna að gera sem minnst úr þeim.
Gott dæmi um þessa aðferðafræði eru fyrstu viðbrögð formanns KSÍ við ásökunum um gerendameðvirkni og þöggun vegna kynferðisbrota. Hann þvertók fyrir að nokkuð slíkt dæmi væri til og kannaðist ekkert við málið.
Sambærilegt dæmi má finna í fyrstu viðbrögðum Samherja eftir að Kveikur birti umfjöllun sína um ætlaðar stórfelldar mútugreiðslur fyrirtækisins til ráðamanna í Namibíu. Svörin voru á þá leð að það væri ekkert fréttnæmt við starfshætti félagsins i Namibíu enda væri fyrirtækið sjálft búið að rannsaka málið.
2. Finna blóraböggul
Ef ekki reynist mögulegt að þagga hneykslið niður þá er gjarnan gripið til þess að finna blóraböggul. Í tilfelli Samherja er blóraböggullinn augljós; uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson er sakaður um að bera einn ábyrgð á öllum mútugreiðslum fyrirtækisins í Namibíu, meira að segja þeim sem voru inntar af hendi löngu eftir að Jóhannes lét af störfum hjá fyrirtækinu.
Það er líka vinsælt að kenna einhverju sjálfvirku kerfi um vondar ákvarðanir, eins og dæmið um uppreist æru sannaði. Þar var það bara „kerfið“ sem virkaði einfaldlega þannig að dæmdir barnaníðingar fengu uppreist æru og alls ekki þannig að einhverjar manneskjur, jafnvel ráðherrar, bæru nokkra ábyrgð á því.
3. Að skjóta sendiboðann
Elsta brellan í bókinni í krísustjórnun hneykslismála er auðvitað að skjóta sendiboðann. Ein ljótasta birtingarmynd þessara klækjabragða er að fara í meiðyrðamál við sendiboðann, hvort sem sá er þolandi í kynferðisbrotamáli sem segir sögu sína eða blaðamaður sem flytur fréttir af spillingarmálum.
Konurnar sem höfðu hátt í „uppreist æru“-málinu fengu illilega að kenna á þessu bragði. Þær voru meðal annars sakaðar um að „vilja bara berja á“ mönnum sem veittu meðmæli með því að barnaníðingar fengju uppreist æru. Þetta þekkir lika nafna mín Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, sem hefur mátt þola rætnar persónuárásir eftir að hún sagði frá ofbeldi sem hún varð fyrir. Eitt allra svæsnasta dæmið um þessa taktík gagnvart blaðamönnum má síðan finna í aðför Samherja að Helga Seljan og persónu hans vegna umfjöllunar hans um fyrirtækið og starfshætti þess.
4. Að gera sjálfan sig að fórnarlambi
Vinsæl leið til þess að koma sér hjá því að taka ábyrgð á eigin gjörðum eða að viðurkenna vanda sem bent er á er að gera sjálfan sig að fórnarlambi. Þorsteinn Már Baldvinsson og aðrir forsvarsmenn Samherja hafa verið duglegir að mála sig upp sem fórnarlömb ófrægingarherferðar alls konar hópa í samfélaginu, hvort sem það eru starfsmenn Seðlabankans, fyrrum starfsmenn Samherja eða fréttamenn RÚV.
Landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins hefur gert ítrekaðar tilraunir til að gera sig og landsliðið að fórnarlömbum í KSÍ-málinu og þeir Sölvi Tryggvason og IngólfurÞórarinsson veðurguð gripu til sömu aðferðar fyrr í sumar. Stjórnmálamenn sem lenda í vanda vegna spillingar og hneykslismála eru líka duglegir að nota þetta bragð til þess að koma sér hjá því að axla ábyrgð á gjörðum sínum. „En við vissum ekki að það væri verið að taka upp fyllerísröflið okkar“ - einhver?
5. Smjörklípuaðferðin
Smjörklípuaðferðin er mikið notuð í stjórnmálum á Íslandi. Hún felst í því að reyna að beina athygli almennings frá hneykslismáli að einhverju allt öðru.
Gott dæmi um þessa taktík er þegar Bjarni Benediktsson sótti fjölmennt samkvæmi í Ásmundarsal, þar sem strangar samkomutakmarkanir og aðrar sóttvarnareglur voru þverbrotnar, en umræðan var færð yfir í deilur um hvernig skyldi flokka hið ólöglega partý og svo á samtöl og dagbókarfærslur lögreglunnar sem leysti það upp.
Nýlegt og súrrealískt dæmi um smjörklípuaðferðina er þegar lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson, forseti dómstóls KSÍ, fór að dylgja um þjófnað úr vínkjallaranum á Bessastöðum til þess að beina athygli almennings frá KSÍ-málinu. Sígildasta dæmið um smjörklípu á síðustu árum verður þó að teljast umræðan um „bús í búðir“ - sem einhvern veginn skýtur alltaf upp kollinum á „heppilegustu“ tímum.
6. Afvegaleiðing umræðunnar
Að afvegaleiða umræðuna á sér margvíslegar birtingarmyndir. Það er vinsælt að leiða umræðuna út í smáatriði og tæknileg atriði sem engu máli skipta um heildarmyndina til þess að gagnrýnisraddir festist í að þræta um þau frekar en málið sjálft. Þessi aðferðafræði var mikið notuð í Landsréttarmálinu svokallaða þar sem fjöldi tæknilegra útúrsnúninga var dreginn fram til þess að afvegaleiða umræðuna um pólitískar skipanir ráðherra í Landsrétt. Þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins notaði reyndar öll brögðin í þöggunarhandbókinni í því máli en það er önnur og lengri saga.
Almennt er þetta bragð líka notað til þess að reyna að slökkva á allri samfélagslegri umræðu um nauðgunarmenningu og heimilisofbeldi gagnvart konum. Vinsæl afvegaleiðing er til dæmis að krefjast sífellt umræðu um ofbeldi gagnvart körlum á sama tíma. Afvegaleiðing umræðunnar á sér aðra birtingarmynd í því að væna gagnrýnisraddir um að vilja eitthvað allt annað en þær segjast vilja. Gott dæmi um þetta er þegar konur eru sakaðar um að vilja „taka menn af lífi“ eða að vilja banna körlum að daðra við konur eða að segja brandara þegar þær ræða kynferðislega áreitni og ofbeldi í sinn garð.
7. Að endurskrifa söguna
„Hið svokallaða hrun“ er gott dæmi um ítrekaðar tilraunir íhaldsins til þess að endurskrifa fjórða stærsta gjaldþrot í heimi sem eitthvað smáræði, sem engin ástæða er til þess að fetta fingur út í. „Uppreist æru“-málið sem felldi þarsíðustu ríkisstjórn hefur heldur betur fengið að finna fyrir þessu þöggunarbragði. Endurtekið er talað um að þetta hafi nú bara verið eitthvað smotterí sem aldrei hefði átt að valda stjórnarslitum.
Ríkisstjórnin þáverandi notaði meira að segja skattpeningana okkar til þess að borga alþjóðlegu stórfyrirtæki milljónir fyrir það að endurskrifa söguna af falli ríkisstjórnarinnar í heimsmiðlunum. Meðal þess sem ríkisstjórnin borgaði fyrir var að tala niður baráttu kvennanna í #höfumhátt og þátt hennar í falli ríkisstjórnarinnar. Dæmin um endurskrifun sögunnar eru mörg og því miður mjög árangursrík fyrir fjársterka og valdamikla aðila í samfélaginu okkar.
8. Gaslýsing
Að gaslýsa heila þjóð er ekki einfalt verk og kallar á einbeittan brotavilja þess sem það gerir. Það stoppar samt ekki valdamikið fólk að nýta sér þetta bellibragð til þess að komast hjá því að svara fyrir hin ýmsu mál. Eins og þegar formaður Sjálfstæðisflokksins segir að gagnrýnendur hans hljóti að vera eitthvað geðveikir sem sjái ekki hvað Ísland er frábært land - sem svar við gagnrýni á aflandseignir sínar og veru hans í Panamaskjölunum! Þetta er gaslýsing til þess að koma sér undan gagnrýni.
Þegar sami formaður Sjálfstæðisflokksins segist alltaf hafa staðið með þolendum, eftir að ríkisstjórnin hans féll vegna þöggunarherferðar Sjálfstæðismanna gegn þolendum í „uppreist æru“-málinu, er hann að nota gaslýsingu til þess að komast undan gagnrýni. Bjarni Benediktsson er svosem ekki einn um þessa taktík, en mér finnst hann duglegastur af öllum sitjandi ráðherrum við að nota hana.
Þöggunarhandbókin virkar best þegar við vitum ekki af henni
Mörg og jafnvel flest dæmin hér að ofan falla undir fleiri en eitt og fleiri en tvö þeirra bellibragða sem hér hafa verið nefnd til sögunnar, enda mörkin á milli þeirra oftar en ekki óskýr og loðin. Og þetta er alls ekki tæmandi upptalning á brögðunum í þöggunarhandbókinni en þetta er heiðarleg tilraun til þess að útlista þau helstu. Öll þessi brögð virka nefnilega best ef almenningur er ekki meðvitaður um tilvist þeirra eða þekkir ekki merkin um að verið sé að beita þeim.
Það er ekki gullfiskaminni þjóðarinnar sem veldur því að það fennir yfir flest hneykslismál á Íslandi án teljandi áhrifa á samfélagið. Það er vísvitandi verið að þagga niður umræðu um óþægileg mál til þess að viðhalda óbreyttu ástandi. Fyrsta skrefið til þess að breyta þessum veruleika er að viðurkenna hann, þekkja brögðin í bókinni og benda á þau þegar þau eru notuð til þess að þagga niður umræðuna. Næsta skref er að kjósa fólkið burt sem leitar reglulega í handbókina.
Athugasemdir