Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, hefur verið áberandi í kosningabaráttu flokksins fyrir komandi alþingiskosningar og er nú þegar byrjað að tala um hana sem mögulegt leiðtogaefni flokksins til framtíðar. Hún er með óvenjulegan bakgrunn fyrir jafnaðarmann þar sem hún starfaði í bönkum og hjá Viðskiptaráði áður en hún söðlaði um og fór í pólitíkina.
Í viðtali við Stundina ræðir hún um þennan bakgrunn sinn, kaupréttarkerfi banka eins og Kviku þar sem hún starfaði, skiptingu byrða í samfélaginu, stóreignaskatt á efnamesta fólkið og af hverju hún vill taka þátt í stjórnmálum.
Þú starfaðir í alþjóðlegum stórbanka, Morgan Stanley, og þar á eftir varstu hjá Viðskiptaráði og svo hjá Kviku banka í hvað, þrjú ár. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga út úr því að starfa í hinu einkarekna bankakerfi og lobbíistasamtökum eins og Viðskiptaráði og ákvaðst að venda kvæði þínu í kross og fara út í stjórnmálaþátttöku í Sósíaldemókrataflokki?
„Ég hef reyndar alltaf verið sósíaldemókrati. [...] Fólk er flókið og það er alls konar fólk á alls konar stöðum og ég hef alltaf haft sósíaldemókratísk gildi. Ég er alin upp á þannig heimili og það hefur alltaf verið mín pólitík og ég hef verið dyggur stuðningsmaður Samfylkingarinnar í gegnum tíðina og að mörgu leyti var það bara tilviljun að ég endaði á að vinna í fjármálageiranum. [...] Vegna þess að sama hvað fólk vill segja um fjármálageirann og margt sem hefur verið lagað og margt sem má gera miklu betur þá hefur fjármálageirinn alveg gríðarleg völd og ekki bara svona félagslega, fólk upplifir þetta sem sterkt fyrirbæri, heldur ræður þetta atvinnutækifærum að hluta til í landinu, þetta stýrir fasteignamarkaði að hluta til og það skiptir rosalega miklu máli að hafa sem fjölbreyttastan hóp af einstaklingum í bankageiranum. Þannig að ég horfði alltaf á mitt hlutverk þar sem bara einn af þeim einstaklingum sem kannski veitti ákveðinn fjölbreytileika inn í þankaganginn sem var þar. En ég get alveg viðurkennt það að ég hef auðvitað gengið í gegnum tímabil á meðan ég hef verið að vinna í geiranum og velt fyrir mér: Hvað er ég að gera? Skiljið þið? Hvar er ég að láta mína þekkingu og hverjir hagnast á minni þekkingu? [...] Ég var í nokkra mánuði hjá Viðskiptaráði að því ég var að leita mér að svona policy, hagstjórnarvinkli, og áttaði mig tiltölulega fljótt á því, að þó að það sé ýmislegt gott sem þar er gert, því ég ætla ekki að gera lítið úr því, þá var þetta ekki pólitík sem mér þótti þægilegt að stunda. Ég var ekki sammála sumum línunum sem þar voru teknar og hef líka í gegnum tíðina ekki verið sammála því að allir í viðskiptalífinu þurfi að vera hægrimenn. Sósíaldemókratar trúa alveg á markaðshagkerfið. Þeir trúa bara á blöndun á félagshyggju í bland við markaðshagkerfi og þeir trúa líka á, sem mér er mikið í mun að ræða um almennt við fólk, á markaðsbresti. Markaðir bresta og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir einmitt sósíaldemókrataflokka að hafa fólk innanborðs sem hefur þekkingu á fjármálamörkuðum og sem hefur þekkingu oft á orðræðunni sem á sér þar stað af því að oft er okkar skoðunum sem erum á vinstri vængnum svolítið burstað til hliðar á þeim forsendum að við skiljum ekki, að við vitum ekki, að við þekkjum ekki. Þannig að ég var líka að taka svolítið meðvitaða ákvörðun þegar ég setti niður akkeri og sagði bara: Ég ætla í framboð, fyrir Samfylkinguna, ég er sósíaldemókrati og ég get sýnt að þessi þekking, hún getur legið annars staðar en bara hjá hægrimönnum.“
Hvað telur þú vera mikilvægasta stefnumálið hjá ykkur í Samfylkingunni núna? Hvað er það sem þú brennur hvað helst fyrir í stefnunni hjá ykkur?
„Við höfum eiginlega tvískipt þessu, þó náttúrlega þetta vinni saman. Við höfum talað um lífskjör og loftslagsmál og þó auðvitað að loftslagsmálin séu mér mjög mikilvæg, bara eins og hjá flestum sem eru meðvitaðir um loftslagsvána, þá get ég alveg sagt að svona lífskjarahliðin er kannski það sem ég brenn mest fyrir. Þetta er einna helst vegna þess að það er bara svona út frá minni pólitísku sannfæringu, sem mér leyfist nú að segja að er mín pólitíska sannfæring: Að byrðunum sé öðruvísi skipt. [...] En svo líka það að mig langar líka bara ofboðslega mikið að færa pólitíkina inn á nútímalegra svið. Ég er orðinn svolítið þreytt á þessum frösum og klisjum og við höfum efnið og við erum flokkurinn sem hefur grunninn til að hlaupa áfram með þetta efni og það er ástæðan fyrir því að það er spennandi að vera í Samfylkingunni í dag.“
Talandi um barnabæturnar. Þið talið um að þið ætlið að taka upp norrænt barnabótakerfi, eins og það er orðað í stefnuskránni hjá ykkur. En þið gangið í raun og veru ekki eins langt og til dæmis er gert í Svíþjóð þar sem barnabætur eru bara flatar og ekki tekjutengdar heldur fylgir bara ákveðin upphæð hverju barni, óháð tekjum fjölskyldu viðkomandi barns. Hvað mælir gegn því að ganga það langt í barnabótakerfinu hér á landi?
„Kannski það eina sem mælir gegn því núna, af því að það sem við erum að tala um í kosningastefnu okkar er það sem við ætlum að gera á næsta kjörtímabili. Ég hef gagnrýnt suma flokka sem eru vinstra megin við okkur, eða já, lengra til vinstri við okkur, fyrir að vera með stefnu sem er bara um útópíska sýn ef þeir mundu ráða öllu og hvað þeir gætu gert á þrjátíu ára tímabili. Við erum að segja: Þetta er ábyrg stefna í dag og við ætluðum ekki að valda ykkur vonbrigðum og þetta er partur af því að velja okkur þá slagi og þau skref sem við getum lofað. Þannig að staðreyndin er sú að ef við förum í að afnema allar skerðingar þá væri þessi pakki bara einfaldlega dýrari. Við erum að fara úr því að barnabætur hætta að skerðast, núna skerðast þær við þrjú hundruð og fimmtíu þúsund krónur sem eru í rauninni bara lágmarkslaun, og við ætlum að hækka það skerðingarhlutfall upp í sex hundruð þúsund þannig að þetta nálgist svona millitekjuhópinn af því að við vitum að það kostar níu milljarða. Við getum fundið þennan pening annars staðar í kerfinu með því að skattleggja eignamikið fólk. [...] En það er hins vegar stórt skref að taka þá afstöðu sem við erum að gera með stóreignaskattinum og segja bara: Heyrðu, þarna er peninginn að finna. Þetta er bara okkar skýra pólitík: Við viljum skipta byrðunum öðruvísi. Síðan til langs tíma, þá vonandi getum við fært kerfið inn í svona jafnara form, en við erum bara ekki sem samfélag komin þangað og við tölum alltaf um að við séum svo mikið norrænt velferðarkerfi. En við erum til dæmis bara ekki komin eins langt og í Svíþjóð. Það liggur alveg fyrir.“
Talandi um stóreignaskattinn sem þið eruð að tala um. Það var settur á auðlegðarskattur hér á landi eftir hrun í nokkur ár. Af því við erum alltaf að bera okkur saman við Norðurlöndin þá var stóreignaskatturinn afnuminn á hinum Norðurlöndunum fyrir allmörgum árum síðan. [...] Hvað mælir með því að setja á slíkan skatt núna á Íslandi? Þetta er kannski það sem hefur vakið einna mesta athygli í stefnuskránni ykkar og margir eru pirraðir og reiðir yfir þessu og svo framvegis. En hvað mælir með því að það sé gert núna?
„Fyrir okkur og mér er þetta réttlætismál en þetta er líka góð hagstjórn. Það er bara staðreynd. Við erum bara að fara inn í nýja tíma í hagstjórnarpólitík þar sem það hefur bara verið ofboðslega mikil gróska í efnahagsmálaumræðunni um hvers konar skattkerfi eru hagkvæmust, skilvirkust, hvað er að valda vandræðum í hagkerfum út frá samfélaginu og þess háttar. Og það liggur til dæmis fyrir að eignaójöfnuður er sá ójöfnuður sem er svona hvað hættulegastur fyrir samfélög og við sjáum samfélög eins og Bandaríkin, og annars staðar í Evrópu, [...] þar sem þú ert komin það langt í eignaójöfnuði að valdaskiptingin er þannig að það er erfitt að snúa aftur á rétta braut. Þú skapar kerfi þar sem hverra manna þú ert, upphafseignastaðan er farin að ákvarða tækifærin sem þú hefur í lífinu og það hefur áhrif á hagvöxt þegar staðreyndin er sú að að bestu hugmyndirnar koma ekki alltaf frá heimilum þar sem ríkt fólk er og það hefur áhrif á möguleika fólks til að sækja fram. [...] Að lokum vil ég líka segja að þetta er líka leið til að færa bara eftirlit og almenna gagnasöfnun í auknum mæli yfir á eignir vegna þess að þarna skapast hvati til að finna eignir sem eru ekki uppgefnar, finna eignir sem eru ekki metnar bara á nafnverði og færa þær yfir á markaðsverð og þess háttar. Við höfum bara verið að skattleggja tekjur, bæði launatekjur og fjármagnstekjur, og þarna skapast þessi hvati til að ná utan um þetta. Þetta er bæði framsýni í hagstjórn, fyrir utan að vera bara réttlætismál, en réttlætismál í hagstjórn í dag, það er bara vitað mál, að þetta er bara góð pólitík vegna þess að við getum ekki rekið hér samfélag áfram á efstu tíu prósentunum, efstu fimm prósentunum, efsta eina prósentinu, heldur er það massinn sem drífur allt hérna áfram. Þannig að þetta er bara einfaldlega framtíðin og það sem er svo gott við að geta verið með þessar hugmyndir í Samfylkingunni. Þarna er svið til að hlaupa með framsýna efnahagspólitík og þetta er bara stóra einnar línu svarið við af hverju ég er í Samfylkingunni, að þarna er svigrúmið og Samfylkingin ætlar að taka það svigrúm til sín.“
En það má nú ætla, og það er reyndar talað um það þarna í þessum kafla ykkar sem þið kallið Sókn gegn sérhagsmunum, að það þurfi að stórauka eftirlit með skattaundanskotum, stórauka eftirlit með eignasöfnun stöndugra einstaklinga og svo framvegis og væntanlega þá fara að skoða hvernig menn eru að bókfæra virði hlutabréfa og svo framvegis. Er það á nafnvirði eða markaðsvirði og svo framvegis. Þetta hlýtur að kosta mikla fjármuni. Er það ekki rétt?
„Upphafskostnaðurinn verður einhver. En þetta er bara fjárfesting í skilvirkara kerfi. Og þetta er ástæðan fyrir því að það skiptir máli hverjir halda utan um fjárveitingarvaldið. Þeir þurfa að skilja að það er einhver upphafskostnaður við eitthvað. Fyrsta árið verða kannski nettótekjurnar af þessum skatti kannski ekki eins miklar og þær verða á síðasta árinu. En ef við ætlum alltaf að vera á bremsunni af því eitthvað kostar í dag þá gerum við aldrei neitt nýtt og þess vegna skiptir máli að vera með stjórnmálaflokka og fólk í frontinum sem hefur trú á verkefninu og segir: Það bara þarf að fjárfesta. [...] Þetta er bara fjárfesting sem mun margborga sig [...]“
Hvað áætlið þið að ríkisvaldið geti náð í raun og veru í miklar skatttekjur með innkomu þessa skatts, stóreignaskatts?
„Eins og flestir vita sem fylgjast með þessari umræðu þá er náttúrlega mjög erfitt að ná utan um heildareignirnar sem eru til staðar. Það sem er uppgefið er svona hátt í þúsund milljarðar, níu hundruð og fimmtíu til þúsund milljarðar. Það er einhver ávöxtun sem hefur fengist á þetta á þessu ári. Við erum að stilla inn núna að vera með tvö hundruð milljóna króna frítekjumark þannig að það þýðir að svona fjörutíu prósent af þessari upphæð, 40 til 45 prósent, verður undanskilið. Við erum kannski með fimm hundruð, sex hundruð milljarða stabba sem við getum skattlagt. Þetta er það sem er uppgefið. Eitt og hálft prósent skattur á það er níu til tíu milljarðar, og þetta er það sem er uppgefið. Þetta er ekkert umfram það heldur það sem við treystum okkur til að ná á fyrsta árinu. [...]“
,,Það vill enginn lifa í landi þar sem rof er á milli stétta."
En hvernig finnst þér núna, þú ert að koma út úr Kviku banka og þar áður úr Viðskiptaráði, og nú ertu að tala fyrir þessum hugmyndum sem væntanlega falla í mjög grýttan jarðveg í því umhverfi sem þú kemur úr. Hvernig tilfinning er það núna að vera að tala fyrir þessum hugmyndum sem þú veist að kannski eru ekki mjög vinsælar hjá þínum fyrrverandi kollegum og svo framvegis?
„Það er fullt af fólki innan fjármálageirans sem er ekki á háum tekjum. Þar er alveg millitekjufólk. Ef þið skoðið til dæmis bara starfsmannaskrár í bönkum, þegar bankarnir eru að tala um hve margar konur eru farnar að vinna í bönkunum. Þær eru ekkert allar með eina og hálfa milljón á mánuði. [...] Þetta eru örfáir einstaklingar sem eru á hæstu tekjunum. En auðvitað er það þannig að umbjóðendur þeirra eru upp til hópa efnaðir einstaklingar og þar er auðvitað allur gangur á því hvað fólki finnst. En mér líður ekkert persónulega illa með þetta vegna þess að ég veit alveg hvaðan ég er að koma. Ef ég væri sjálf í þessari stöðu, þá myndi ég vilja borga meira til samfélagsins. Ég er ekkert efnaður einstaklingur en ég hef það mjög gott. Ég hef haft það gott í gegnum tíðina og ég veit það, ég er meðvituð um það. Ég er alin upp í opinberu velferðarkerfi. Ég kem af mjög hefðbundnu heimili, öll mín réttindi og allt sem ég hef gert af mér hefur verið út af samfélaginu og það sem skapar lífskjör á Íslandi er einmitt þetta góða samfélag og ég held að langflestir sem eigi peninga og eru efnaðir og eru með hausinn á réttum stað viti alveg að það er ekki gott að hér verði einhvers konar samfélagsrof af því mikið af þessum einstaklingum eru líka að koma frá hógværum bakgrunni. [...] Það vill enginn lifa í landi þar sem er rof á milli stétta, á milli einstaklinga, og þessir einstaklingar sem eiga svona mikinn pening fyrir vilja ekki heldur búa í þannig samfélagi.“
Talandi um þetta rof og mikinn mun á milli einstaklinga hvað varðar eignir og svo framvegis, þá var greint frá því í lok ágúst að helstu stjórnendur í Kviku banka hefðu nýtt sér kauprétti og keypt hlutabréf í bankanum og svo selt hlutabréf sama dag og hagnast um tugi milljóna. Hvað finnst finnst þér um þetta sem sósíaldemókrati?
„Það er svolítið erfitt fyrir mig að taka afstöðu með einhverjum persónulegum fjárfestingarákvörðunum þar, þannig að ég get ekki kommentað á það. Það sem ég var að segja hérna áðan, sem er mikilvægt, er að fólk sem er í þessum stöðum átti sig á því að það fær oft tækifæri í lífinu sem venjulegt fólk, launafólk, fær ekki. Það fær fjárfestingartækifæri og bara það eitt að vera með nokkrum milljónum meira inni á verðtryggðum reikningi veitir þér meiri ávöxtun en næsta manni í kerfinu. Kapítalískt kerfi er þannig uppbyggt. Þannig að þetta hlýtur að vekja fólk sem er í þessari stöðu til umhugsunar. Ertu á þeim stað sem þú ert núna, með þær tekjur og þær eignir sem þú átt, vegna þess að þú hafðir svo ofboðslega mikið fyrir því? [...] Ég held að þetta sé klárlega dæmi um þetta, bara gott dæmi um fjárfestingartækifæri sem bjóðast þröngum hópi sem ekki er allra að sækja og mikilvægi þess að þess vegna horfum við, þegar við horfum á skattlagningu til að mynda, á svona hópa.“
Þarna verða til tugir milljóna króna í hagnað á einum degi sem bara örfáir einstaklingar fá.
„Þetta er bara dæmi um gíraðar stöður sem eru teknar í fjármálakerfinu og einstaklinga sem geta oft nýtt sér þær. Þetta eru oft einstaklingar sem eiga pening fyrir. Þetta er bara mjög konkret dæmi um það sem ég ræddi hérna áðan, þar sem þessi hagnaður sem þarna myndast hefur ekkert að gera með effort heldur með stöðu. Og ég held að það sé mjög mikilvægt að einstaklingar sem eru í þessari stöðu séu meðvitaðir um það og séu þá tilbúnir að leggja meira til samfélagsins vegna þess að mjög eðlilega hugsar fólk þarna úti: Ég fékk ekki þessi tækifæri og ég get ekki ávaxtað mitt fé á sömu forsendum ...“
Ef Samfylkingin kemst í þá stöðu til dæmis að fara í ríkisstjórn, þá ert þú væntanlega fjármálaráðherraefni flokksins. Er þetta eitthvað sem þú gætir hugsað þér að beita þér gegn, þessi kaupréttarkerfi bankanna og svo framvegis, ef svo ber undir?
„Það er náttúrlega heilmikið sem hefur verið gert í þeim málum. Það er sérstakur launaskattur á fjármálafyrirtæki. Það eru mjög strangar kröfur þegar kemur að bónusum og þess háttar. Ég held að það sé mjög eðlilegt að því sé velt upp hvort að það eigi að setja einhverjar skorður á einhverjum stöðum. Hins vegar held ég að auðvitað verði maður að fara varlega í að grípa inn í rekstur einstakra fyrirtækja og staðreyndin er sú, ef við erum bara alveg hreinskilin, að þá eru alls konar dílar sem eiga sér stað sem eru fullkomlega eðlilegir í okkar kapítalíska kerfi sem fólki finnst ósanngjarnir. Við verðum bara að passa okkur hvar við drögum þá línu. En við þurfum kannski fyrst og fremst bara að skoða að almennu reglurnar séu þess eðlis að ef svona tækifæri eru að bjóðast ákveðnum einstaklingum, hver sé skattlagningin á það og hvort sé eðlilegra til dæmis að skattbyrðin sé meiri fyrir vikið. Þannig að það er hægt að taka á þessu eða taka tillit til þessa með mjög mörgum hætti en að fara í bein boð og bönn. Til dæmis er hægt að vera bara með mjög háa skattbyrði á ákveðnum eignum og ákveðnum gjörningum í því samhengi. Þannig að ég get kannski ekki farið út í díteila um það en ég á ekkert erfitt með að fullyrða það að mér finnst ekki sanngjarnt hvernig kerfið er uppbyggt, það liggur alveg fyrir.“
Útilokið þið samstarf við einhvern flokk eða einhverja flokka eftir kosningar og eru einhverjir flokkar sem þið mynduð helst kjósa að vinna með í ríkisstjórn?
„Við höfum sagt það. Ég veit ekki hversu formlegt það er, hvort það sé skrifað einhvers staðar, en ég meina, það hefur ekki farið framhjá neinum að við höfum talið það óskynsamlegt að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sumum finnst það vera útilokun. Okkur finnst það bara vera raunsætt og raunhæft vegna þess að við vitum að sú pólitík sem við stundum mun stoppa hjá Sjálfstæðisflokknum. [...] Við höfum sagt það beint og óbeint að okkar ósk er að fara í svona hóflega vinstristjórn þar sem við náum okkar málum í gegn.“
,,Hingað til hefur okkur verið seld sú mýta að það séu allir jafnir á Íslandi"
Ef það er eitthvað eitt, eitthvað eitt, sem þú mættir velja til að breyta á Íslandi, bara sem stjórnmálamaður. Hvað væri það? Þú getur valið hvað sem er, bara allt undir sólinni. Hverjir myndir þú breyta? Hvað er stærst? Stóra málið?
„Þetta er rosalega stór spurning. Kannski upplifir maður samfélag sitt öðruvísi þegar maður stígur til hliðar og kemur svo aftur inn, Ég er að mörgu leyti, þó að ég hafi alltaf haft ákveðin gildi, bara miklu meiri sósíaldemókrati en ég nokkurn tíma var eftir að ég bjó til dæmis í Bandaríkjunum. Þá áttaði ég mig á þessu samfélagsrofi sem ég var að tala um, hvað getur gerst þegar það skapast ákveðin firring gagnvart aðstæðum annarra, og ég held að eins mikið og mig langar að vera jákvæð og segja að þetta viðhorf hjá Íslendingum, þetta reddast, stétt með stétt og við höfum það alltaf svo, land tækifæranna. En ég held að það sé mjög hollt að við getum tekið raunhæfa umræðu um að í svona landi eins og við erum í þá getum við klárlega fallið á vitlausa braut. [...] Ég held að það sé mjög mikilvægt að við getum tekið hreinskilna umræðu um þessa hluti og það er það sem við í Samfylkingunni erum að berjast fyrir þegar við erum að segja: Við viljum fara í að bæta kjör öryrkja, eldri borgara, barnafólks og að skattleggja stóreignafólk. Hingað til hefur okkur verið seld sú mýta að það séu allir jafnir á Íslandi, það hafi allir aðgang að sömu tækifærum og það hefur þótt svona algjört no, no að tala um þetta. Ég veit að þetta hljómar ótrúlega svona klisjukennt og pólitískt að segja þetta. Þannig að ég held að ef ég mundi fá einhverju breytt þá er það bara þessari umræðu um hvar fólk stendur og þessum misskilningi að hér eigi sér stað hundrað prósent, félagsleg blöndun að það sé ekki firring gagnvart aðstæðum annarra.“
Athugasemdir