Hvaða eiga frægir tónlistarmenn, frægir fótboltamenn, frægir fjölmiðlamenn og frægir skemmtikraftar sameiginlegt? Þeir eru allir í valdastöðum í samskiptum sínum við aðdáendur og hinn almenna borgara. Og af hverju skiptir það einhverju máli? Jú, völdum fylgir ábyrgð. Og svo virðist sem margir þeirra sem hafa þá ábyrgð, valdi henni ekki.
Valdaójafnvægi
Kynferðisofbeldi snýst ekki, þvert á það sem margir halda, um kynlíf. Kynferðisofbeldi snýst um vald, misbeitingu valds. Fjöldamargar rannsóknir styðja þetta, og ég mæli eindregið með að efasemdafólk kynni sér þær. En hvernig virkar þessi valdamisbeiting? Það er hægt að yfirfæra valdaójafnvægi yfir á svo ótrúlega margar myndir ofbeldis, og það birtist á mjög marga vegu. Ef að annar einstaklingurinn er eldri og reyndari en hinn, skapar það valdaójafnvægi. Ef annar einstaklingurinn er í hjólastól en ekki hinn, skapar það valdaójafnvægi. Stéttaskipting skapar valdaójafnvægi, félagsstaða, tungumál, fötlun, litarhaft, peningar, frægð, stærð og styrkleiki, og svo mætti lengi telja. Það sem öll þau mál sem undanfarið hafa verið í kastljósinu eiga sameiginlegt er gífurlegt valdaójafnvægi.
Þegar þolendur þess konar ofbeldis stíga fram kristallast valdaójafnvægið svo enn meira í viðbrögðum almennings. Manneskjan sem er í valdastöðunni hefur líka oftast meira bakland. Stærra net sem grípur hana, fleiri sem eru tilbúin að taka upp hanskann fyrir hana, fleiri sem vilja innilega trúa því að þessi manneskja sem þau jafnvel líta upp til, geti ekki gert neitt rangt. Eftir stendur þolandinn í sárum, gjörsamlega lamaður gagnvart mótbyrnum og stuðningnum sem gerandinn fær.
Gerendameðvirkni og samstaða
Það er nefnilega þetta með gerendameðvirknina. Óbilandi trú á réttarkerfið hefur verið gegnumgangandi í þolendaskömm síðustu vikna. Af hverju kærði hún ekki? Af hverju er þetta ekki tekið fyrir í dómsal frekar en á samfélagsmiðlum? Saklaus uns sekt er sönnuð. En það að kæra, er svo sannarlega meira en að segja það. Vissuð þið, til dæmis, að aðeins um 13% kærðra nauðgana enda með sakfellingu? Að þessi þrettán prósent eru aðeins brotabrot af þeim kynferðisofbeldismálum sem eiga sér stað hér á landi, vegna þess hvað kæruferlið er erfitt? Að sönnunarbyrðin er svo þung að dæmi eru um að játning gerenda liggi fyrir, en samt er það ekki alltaf nóg?
En hvað er þá hægt að gera? Fyrir það fyrsta, þarf að trúa þolendum þegar þeir stíga fram og segja frá ofbeldi. Staðreyndin er nefnilega sú að gerendur hafa mun meira tilefni til að ljúga en þolendur, og það leikur sér enginn að því að segja frá ofbeldi. Til þess eru afleiðingarnar of miklar. Þolendur er útskúfaðir úr vinahópum, fjölskyldum, heilu bæjarfélögunum. Tölfræðin segir okkur, sem dæmi, að gagnkynhneigðir, sískynja karlmenn eru 230 sinnum líklegri til að vera nauðgað en ranglega sakaðir um ofbeldi. Um þetta eru líka til rannsóknir, þessu beini ég til áðurnefnds hóps. Í öðru lagi er hægt að sýna þolendum stuðning í verki. Ef einhver í kringum þig ákveður að kæra, þrátt fyrir allan þann andlega og veraldlega kostnað sem því fylgir, skuluð þið vera til staðar. Ef þolandi er tekinn fyrir á kommentakerfum, svarið gerendameðvirkninni. Og ef þið verðið sjálf fyrir ofbeldi, hlúið að ykkur. Það eru ótal úrræði í boði, og þegar þið eruð tilbúin að vinna úr áfallinu er fagfólk um allt land sem getur tekið á móti ykkur. Það er ekki skylda ykkar að kæra, nafngreina geranda ykkar eða ykkur sjálf. Þið skuldið alheiminum ekkert.
Sjáumst á laugardaginn
Druslugangan verður gengin frá Hallgrímskirkju í tíunda sinn laugardaginn 24. júlí næstkomandi. Gangan var gengin í fyrsta sinn árið 2011 og síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Árið 2015 var ár samfélagsmiðlabyltinga, #freethenipple, #sexdagsleikinn, vísar að því sem koma skyldi tveimur árum seinna þegar #metoo yfirtók heiminn í nokkrar vikur. Það er orðið aðeins auðveldara að segja frá ofbeldi, en það er enn þá svo ótrúlega langt í land. Það sést greinilega á umræðunni í kommentakerfunum síðustu vikur. Ég vil hvetja öll til að mæta í Druslugönguna á laugardaginn klukkan 14:00, mætið til að mótmæla, mætið til að sýna stuðning og síðast en ekki síst, mætið til að hlusta. Það er það minnsta sem við getum gert fyrir þolendur ofbeldis. Hlustað, og trúað.
Athugasemdir