Karlkyns dómarar eru líklegri til að dæma eða úrskurða sóknaraðila í hag, en kvenkyns dómarar eru líklegri til að komast að niðurstöðu varnaraðila í hag. Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum nýrrar ransóknar fræðimanna við lagadeild Háskóla Íslands.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að kyn og aldur dómara og málflytjenda kunni að hafa tengsl við niðurstöður dómsmála. „Hún lýtur að því að safna upplýsingum um kynferði og aldur dómenda og málflytjenda í dómsúrlausnum í einkamálum, sem kærðar hafa verið eða áfrýjað til Hæstaréttar og Landsréttar á síðustu tíu árum,“ segir Dr. Valgerður Sólnes, dósent við lagadeild, í viðtali um rannsóknina á vef Háskóla Íslands.
Ásamt Valgerði vinna Benedikt Bogason, prófessor og forseti Hæstaréttar, og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor í félagsfræði, að rannsókninni sem er þverfagleg. Valgerður segist hafa viljað komast að því hvort það skipti máli fyrir úrslit dómsmáls hvort dómari sé til dæmis fullorðin kona eða ungur karlmaður, þar sem reynsluheimur kynjanna og eldra og yngra fólks sé ólíkur.
„Konum hefur á hinn bóginn ekki fjölgað jafnhratt í starfsstétt starfandi lögmanna og skipaðra dómara hér á landi“
„Konur hafa frá því á síðustu öld í auknum mæli sóst eftir menntun og störfum í starfsstétt lögfræðinga, sem áður einskorðaðist að mestu við karlmenn,“ segir Valgerður. „Það er þó nokkuð síðan konur tóku fram úr körlum í fjölda brautskráðra nemenda úr laganámi á Íslandi. Konum hefur á hinn bóginn ekki fjölgað jafnhratt í starfsstétt starfandi lögmanna og skipaðra dómara hér á landi.“
Venjulega snúa rannsóknir í lögfræði að niðurstöðu dómstóla, en ekki hver dæmi eða flytji mál. Rannsóknin er því frábrugðin hefðbundnum rannsóknum og sambærileg rannsókn hefur ekki áður verið framkvæmd hérlendis, að sögn Valgerðar.
Huga gæti þurft að kyni og aldri við skipan dómara
Endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir, en bráðabirgðaniðurstöðurnar gefa ýmislegt til kynna, meðal annars að dómarar á fimmtugsaldri séu mun líklegri til að dæma eða úrskurða varnaraðila í hag en aðrir aldurshópar dómara.
„Með rannsókninni verður meðal annars unnt að leiða í ljós hvort kynferði og aldur dómenda skipti máli fyrir úrslit dómsmála og hvort og þá hvaða máli kynferði og aldur málflytjenda skipti fyrir úrslit slíkra mála,“ segir Valgerður. „Ef tengsl eru á milli aldurs og/eða kynferðis dómenda og málflytjenda og úrslita dómsmála gefur það ef til vill tilefni til að huga að menntun lögfræðinga, fræðslustarfi á vettvangi dómara og lögmanna og sjónarmiðum við skipun dómara. En ef í ljós kemur að engin tengsl séu á milli þessara þátta væri slíkt auðvitað merki um að dómstólarnir standi vel að vígi hvað þetta snertir.“
„Þá getur rannsóknin haft þýðingu fyrir þau sem skipa í dómaraembætti“
Hún segir að niðurstöðurnar eigi erindi við lögfræðingasamfélagið sem og almenning. Þær geti gefið til kynna hvort efla þurfi laganám og fræðslustarf meðal dómara og lögmanna með tilliti til aldurs- og kynjatengdra þátta. „Rannsóknin kann einnig að hafa þýðingu fyrir ytra og innra starf dómstólanna því niðurstöður hennar geta varpað ljósi á hvort gæta þurfi sérstaklega að kynferði og aldri dómara við úthlutun dómsmála og hvort efla þurfi fræðslu fyrir dómara um áhrif þessara þátta á dómstörf,“ segir Valgerður. „Þá getur rannsóknin haft þýðingu fyrir þau sem skipa í dómaraembætti, sem eftir atvikum kunna að þurfa að gæta sérstaklega að kynferði og aldri umsækjenda við skipun nýrra dómara ef rannsóknarniðurstöðurnar gefa tilefni til þess.“
Athugasemdir