Borgarstjórinn í Reykjavík brást blessunarlega vel við beiðni fimmmenninga sem gengu á hans fund á dögunum og óskuðu rannsóknar á starfsemi vöggustofa sem reknar voru meira og minna á ábygð Reykjavíkurborgar í áratugi fram til 1973. Það er löngu ljóst að þar var unnið eftir svo kaldranalegum og í raun mannfjandsamlegum viðhorfum til barna og sálrænna þarfa þeirra að það má með ólíkindum heita.
Og bæði börn og foreldrar hafa borið skaða af.
En allra sorglegast er þó – eins og fimmmenningarnir bentu á á fundi sínum og borgarstjóra vegna málsins – að starfsemi þessara vöggustofa skyldi halda áfram í að því er virðist lítt eða óbreyttri mynd eftir að Sigurjón Björnsson, borgarfulltrúi og sálfræðingur, hafði vakið rækilega athygli á því sem þar fór fram þegar árið 1967.
Hvernig á því stóð hefur því miður aldrei verið kannað í neinni alvöru, ekki heldur eftir rómaðan útvarpsþátt Viðars Eggertssonar frá 1994, þar sem hann vakti rækilega athygli á því sem viðgengist hafði á vöggustofunum. Sá frægi þáttur vakti réttilega ofboð og eftirtekt en hafði þó ekki sérstakar afleiðingar á þeim tíma.
Menn vissu þaðan í frá af þessu, en meira var ekki gert að sinni.
Verður brugðist við 2071?
Á undanförnum árum hefur sem betur fer ýmislegt verið að þokast til betri vegar varðandi þekkingu okkar á syndum og sorgum fortíðarinnar. Vistheimili hafa verið tekin til rannsóknar, kolsvört fortíð Landakotsskóla og fleira. Sameiginlegt með öllum slíkum málum hefur verið að einstaklingar hafa stigið fram og ekki viljað þegja lengur. Ekki viljað una því að hlutskipti þeirra liggi endalaust í láginni. Kerfið hefur svo komið á eftir, framan af helstil tregt en þó stefnir í rétta átt eins og nú sést í málefnum vöggustofanna.
Það er hins vegar hörmulegt hvað þetta hefur allt tekið langan tíma. Af hverju var ekki brugðist við þegar Sigurjón Björnsson steig fram á sínum tíma? Af hverju var ekki brugðist við þegar Viðar flutti sinn útvarpsþátt fyrir bráðum þrjátíu árum?
Og hvað getum við lært?
Þurfum við að bíða í fimmtíu ár – til ársins 2071! – eftir að hið opinbera fáist til að hefja rannsókn á því hvernig í ósköpunum stóð á því að fórnarlömbum kynferðisbrota var mætt með skeytingarleysi og jamli og japli og fuðri þegar þau leituðu réttar síns, jafnvel svo seint sem árið 2021?
Gera eitthvað strax?
Þurfum við að bíða í hálfa öld eftir því að þáverandi ríkisstjórn viðurkenni að það hafi verið eitthvað athugavert við að þegar loksins, loksins tókst að berja í gegn endurskoðun á Guðmundar- og Geirfinnsmálum, þá skuli lögmaður ríkisins hins vegar enn standa í pontu í réttarsal og halda því fram að sakborningar í þeim málum hafi nú borið heilmikla sök sjálfir?
Mun það kosta fimmtíu ár áður en rannsókn verður hafin á starfsemi Útlendingastofnunar og þeim mannfjandsamlegu viðhorfum sem þar ráða ríkjum?
Og mun alltaf þurfa duglega og þrautseiga einstaklinga til að halda málum gangandi og koma þeim loksins í réttan farveg?
Getum við ekki framvegis sammælst um að sleppa þessari hálfu öld og gera eitthvað í málunum strax?
Athugasemdir