Til ykkar sem hafið beitt ofbeldi, ég styð ykkur.
Ég veit að ég er ekki sú fyrsta til þess. Hér á landi þekkist jafnvel að stofna til undirskriftasöfnunar og birta stuðningslista opinberlega. Mamma þín, amma þín, félagarnir og nágranni í næsta húsi geta hiklaust tekið afstöðu með gerendum, slíkt er alls ekki óþekkt. Oftar en einu sinni hafa fjölskyldur tekið opinbera afstöðu gegn ástvinum þegar þeir lýsa kynferðisbrotum nafngreindra manna. Við höfum séð athugasemdir, aðsendar greinar og sjónvarpsviðtöl þar sem fjölskyldumeðlimir lýsa stuðningi við gerendur. Það er einhvern veginn auðveldara að skilja slíkt þegar meintur gerandi er einnig bundinn þeim fjölskylduböndum, erfiðara þegar slík tengsl eru ekki fyrir hendi.
„Er ég fullkomlega sannfærður um að þessi frásögn sé með öllu tilhæfulaus,“ sagði bróðir brotaþola í biskupsmálinu sem taldi sig knúinn til að greina fjölmiðlum frá þeirri afstöðu sinni, sem hann skýrði með því að hann hefði ekki heyrt af málinu áður en það komst í hámæli, og lét lögmenn því senda bréf þess efnis. „Þótti mér óhjákvæmilegt að gera grein fyrir áliti mínu.“ Konan fékk síðar sanngirnisbætur frá kirkjunni ásamt öðrum þolendum biskups.
Undirskriftalistarnir
Fjölskyldan endurómaði viðhorf samfélagsins. Nánast allt sem skrifað var á þeim tíma beindist gegn konunum sem börðust fyrir réttlæti og til stuðnings biskupi. Undirskriftalistar bárust frá 99 konum í sókninni, 22 kórfélögum, 16 próföstum og kirkjuráði, sem sendi biskupi samúðarkveðjur og kærleika vegna ásakana sem ráðið sagði kalla sorg yfir alla málsaðila, unnendur kirkju og kristni. 30 prestar slógu skjaldborg um biskup, sumir hinir sömu og skrifuðu síðar undir yfirlýsingu til stuðnings séra Gunnari Björnssyni sem var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gagnvart ungum stúlkum en viðurkenndi fyrir dómi að hafa strokið þær, kysst og leitað huggunar í faðmi þeirra.
Sex konur sögðu seinna frá sárum samskiptum við séra Gunnar á barns- og unglingsárum. Eftir að hafa fengið á sig kæru, farið fyrir dóm, fengið áminningu fyrir biskupi, hlýtt á börn segja frá sársauka sínum fyrir dómi og seinna enn fleiri konur þegar þær voru sex sem stigu fram til að lýsa sárum samskiptum við hann á barns- og unglingsárum, voru viðbrögð hans þau að lýsa málinu sem „fáránlegu“, hann sem hefði fengið það staðfest fyrir dómi að hann hefði aldrei komið óviðurkvæmilega fram við kvenfólk.
Einföld afgreiðsla, engin sjálfsskoðun, enginn vilji til að skilja hvernig háttsemi hans særði aðra.
Hvorki biskup né séra Gunnar voru dæmdir fyrir kynferðisbrot. Ungur maður á Húsavík var hins vegar dæmdur fyrir að nauðga bekkjarsystur sinni, bæði í héraði og Hæstarétti. Maðurinn játaði brot sín í upphafi en dró játninguna síðar til baka í meginatriðum. Samfélagið vildi samt ekki trúa því upp á hann og þegar dómur féll tók það til sinna ráða, safnaði 113 undirskriftum og birti í bæjarblaðinu til stuðnings gerandanum. Þolandinn hafði þá þegar hrökklast burt frá bænum og kom aldrei aftur. Á listanum voru meðal annars nöfn fólks sem hún hafði talið til vina sinna.
Dómstóll götunnar
Ekkert sem er að gerast í dag hefur ekki gerst áður – nema kannski krafturinn, baráttuþrek þeirra sem vilja skapa hér þolendavænna samfélag, þar sem óbreytt ástand ógnar lífi, heilsu og velferð þolenda. En hitt, það höfum við séð áður: Konur saka menn um ofbeldi og meiðandi samskipti, samfélagið rís upp mönnunum til varnar.
Nú hafa um 1.700 skrifað undir undirskriftalista þar sem skorað er á þjóðhátíðarnefnd um að endurskoða ákvörðun um að afbóka tónlistarmann í brekkusönginn. Konurnar í biskupsmálinu fengu uppreist æru eftir rannsóknarskýrslu, nánast allir sem skrifuðu undir stuðningslistann í Húsavík hafa lýst eftirsjá en ritstjórinn í Eyjum og fylgismenn hans halda ótrauðir áfram, á þeim forsendum að það sé ótækt að dómstóll götunnar stjórni því hverjir koma fram á viðburðum. En hvað er dómstóll götunnar annað en almenningsálit og síðan hvenær hefur almenningsálit ekki haft áhrif á framgang listamanna? Allt í einu varð brandarinn sem Steindi kastaði fram í sjónvarpinu árið 2009 um að tónlistarmaðurinn ætti í samneyti við ungar stúlkur, allt of ungar, ekkert fyndinn lengur. Ekki þegar stúlkur sem höfðu verið í þeirri stöðu sögðu frá reynslu sinni og lýstu því hvernig þessi maður hafði gengið fram með óviðeigandi háttsemi, meiðandi framkomu og í verstu tilfellum ofbeldi.
Auðvitað veit enginn hvað gerðist, ekki frekar en þegar aðrir þolendur deila reynslu sinni, þar sem ofbeldi er yfirleitt beitt í einrúmi. Eins getur verið erfiðara að taka skilaboðin alvarlega þegar þolendur eru nafnlausir, þú sérð hvorki né finnur fyrir þeim og fyrir vikið verður auðveldara að afskrifa þá, en er hægt að ætlast til þess að ungar konur stígi fram gegn þjóðþekktum mönnum þegar sagan sýnir hverju þær geta átt von á? Við sjáum viðbrögðin núna, hefðum við viljað leggja þessa heift á herðar ungra kvenna sem hafa líklega þurft að þola nóg? Hvernig getur samfélagið krafist þess að þolendur leggi sársauka sinn sífellt á borð í tilraun til að uppræta skaðleg viðhorf og ómenningu þegar það er stöðugt öskrað á þá, saklaus uns sekt er sönnuð? Í ríki þar sem réttarkerfið bregst þolendum svo illa að níu konur hafa kært meðferð sinna mála til Mannréttindadómstólsins. Í samfélagi þar sem þolendur vita að jafnvel þótt sekt sé sönnuð þá þýðir það ekki endilega að þeir fái stuðning. Ef þeir gerast síðan svo djarfir að nafngreina gerendur mega þeir allt eins eiga von á því að jakkafataklæddir menn með vasa fulla af peningum og séu mættir með stefnur í handraðanum.
Löngun til að skilja
Viðhorf breytast. Rétt eins og þegar þeir sem höfðu hlegið með að nauðgunarbröndurum Gillz fengu snögglega óbragð þegar hann var kærður fyrir kynferðisbrot. Tvær konur sökuðu hann um nauðgun en bæði málin voru látin niður falla, líkt og gagnsókn hans, sem hafði brugðist við með því því að stefna konunni sem kærði fyrir meiðyrði. Það er erfitt að setja sig í þessi fótspor. Erfitt að skilja hvers vegna maður sem fer heim með konu sem er í sárum eftir samskiptin, svo djúpstæðum hætti að hún leitar til lögreglu, sýnir ekki vilja til að skilja hvað fór úrskeiðis, hvar hann brást og hvernig hann getur tryggt að slíkt hendi ekki aftur. Ef hann er ekki meðvitaður um það nú þegar.
Ef þú telur þig saklausan af ásökunum, viltu þá ekki skilja hvers vegna aðrir eru í sárum eftir samskipti við þig?
Nú skyldi ætla að ástæða væri fyrir tónlistarmanninn að staldra aðeins við og hlusta, skoða sín mál og sýna auðmýkt en nei, hann ætlar frekar að fara í mál. Við hvern kemur síðar í ljós. Í kvöld er gigg og hann er ósáttur við að fá ekki að leiða brekkusönginn á þjóðhátíð. Eins og það sé réttindamál að vera treyst fyrir því hlutverki, eins og hann eigi eitthvert tilkall til þess.
Þeir eru svo margir, þessir þekktu menn sem hafa verið sakaðir um að misnota valdastöðu gagnvart ungum stúlkum en sýna lítinn sem engan vilja til að axla ábyrgð á framgöngu sinni. Viðbrögðin eru iðulega þau sömu, afneitun, vörn og gagnárás. Yfirlýst sakleysi, lítið gert úr atvikum og meintum brotaþolum. Ef eitthvað er játað þá er það að hafa farið yfir mörk, en aldrei að hafa brotið gagnvart einhverjum. En hvað felst í því að fara yfir mörk, annað en að brjóta á einhverjum?
Presturinn taldi sig hafa fengið staðfestingu á að hann hafi aldrei gengið fram með óviðurkvæmilegum hætti gagnvart ungum stelpum vegna þess að hann var sýknaður fyrir dómi, en þær segja nú samt aðra sögu.
Lagalegar skilgreiningar
Á endanum snýst umræðan um dómstól götunnar um hvort við viljum búa í samfélagi þar sem lagahyggjan er allsráðandi eða hvort hægt sé að skapa rými fyrir viðbrögð við frásögnum af ofbeldi án þess að viðkomandi hafi verið fundinn sekur fyrir dómi:
Er maður saklaus þar til hann er fundinn sekur fyrir dómi?
Var brotaþoli að ljúga ef ekki tekst að færa sönnur á mál hans?
Er ekki hægt að brjóta gegn öðru fólki nema það sé hegningarlagabrot?
Svarið við fyrstu spurningunni er skýrt í lagalegum skilningi, en barnaníðingurinn sem sagði nýlega sögu sína vissi betur þegar hann reyndi að bæta fyrir brot sem hann hafði aldrei verið dæmdur fyrir. Getur samfélagið leyft sér breiðari túlkun, möguleikann á að þolendur séu að segja satt þótt þeir leggi ekki fram kæru, málið sé fellt niður, sönnunargögn duga ekki til sakfellingar og gerandinn sé aldrei dæmdur? Siðferðisleg viðmið byggja á fleiru en lögum. Það er hægt að sýna þolendum stuðning án þess að dæma gerendur í fangelsi. Það er líka hægt að sýna gerendum stuðning á uppbyggilegan hátt.
Þetta er erfiður tími fyrir fólk sem hefur beitt ofbeldi, er sakað um meiðandi samskipti eða getur speglað sig í slíkum aðstæðum. Gerendur finna eflaust að þeir eru að missa völdin og það getur gert þá ringlaða, hrædda og jafnvel svolítið illa. Væntanlega finnst þeim að sér vegið, nú þegar þolendur hafa ákveðið að bera ekki skömm þeirra heldur segja frá sárum samskiptum og samfélagið velur að hlusta, taka mark á frásögnum þeirra og bregðast við. Af viðbrögðum þeirra sem um ræðir að dæma kunna þeir kannski ekki annað en að bregðast við með klassískum hætti ofbeldismanna, annaðhvort með hótunum eða sem fórnarlömb.
Þess vegna lýsi ég stuðningi við alla þá sem hafa beitt aðra ofbeldi. Stuðningur minn felst í öðru en blindri trú á sakleysi ykkar. Ég get vel trúað því að því að þið hafið farið yfir mörk og ástundað meiðandi samskipti, beitt ofbeldi og haft ásetning um að ná ykkar fram. Jafnvel talið ykkur trú um að það væri réttur ykkar, að þið ættuð, gætuð og mættuð það. Hugmyndin um grá svæði, svokallaðar nauðganir af gáleysi, er mér framandi en ég hef fengið að kynnast afneitun, sjálfréttlætingum og sjálfsblekkingu. Af því að ég hef rætt við gerendur, barnaníðinga, nauðgara og ofbeldismenn, veit ég hvað það getur verið erfitt að horfast í augu við eigin misgjörðir.
Frelsið fólst í játningunni
Nýlega ræddi ég við barnaníðing sem hafði talið sjálfum sér trú um að börn leituðu í hann. Það að þau leituðu réttar síns dugði ekki til að hann horfðist í augu við afleiðingar gjörða sinna heldur sannfærði hann alla ástvini sína um eigið ágæti og taldi þeim trú um að hann sæti saklaus í fangelsi. Það var ekki fyrr en hann heyrði af ömurlegum örlögum eins þolandans að það skall á honum eins og högg hvað hann hafði raunverulega gert. Á einu augabragði áttaði hann sig á því að hann bar ábyrgð á afdrifum þeirra sem hann braut á. Skyndilega sá hann sjálfan sig, sviptur afneitun. Hann vissi hver hann var og hvað hann hafði gert.
Um leið skildi hann að frelsið fólst ekki í því að viðhalda blekkingunni heldur því að gera hreint fyrir sínum dyrum. Svo hann kallaði fjölskylduna til, gekkst við kynferðisbrotunum, líka þeim sem hann var aldrei dæmdur fyrir, í von um að viðurkenning hans yrði að minnsta kosti til þess að þolendur hans fengju þá aðstoð sem þeir þurftu á að halda, seldi íbúðina fyrir miskabótum og sótti sér sjálfur viðeigandi aðstoð. Játningin hafði afleiðingar, sumir sneru alfarið við honum baki, honum verður vart treyst aftur í návist barna og á almennt erfitt uppdráttar í samfélaginu. En það var ekki allt. Játningin þýddi líka að hann er frjáls undan afneituninni sem gerði honum kleift að beita börn ofbeldi og það hlýtur að vera meira virði en allt annað. Ef það er erfitt fyrir barnaníðinga að sjá hvað þeir hafa gert rangt, má rétt ímynda sér hversu torséð áreitni fullra manna getur verið þeim.
Í kjölfar viðtalsins hafði annar maður samband og var að íhuga að ræða sögu sína. Vegna þess að sá hafði leitað sér hjálpar áður en hann braut á börnum. Hann fann að hann hafði þessar kenndir, gerði sér grein fyrir alvarleika slíkra brota og sótti sér því aðstoð áður en hann lét til skarar skríða. Af því að hann sá sjálfan sig. Hann vissi hver hann var og hvað hann gæti gert. Hann vissi líka hvað hann gæti gert til að koma í veg fyrir það, en til þess varð hann að horfast í augu við sjálfan sig. Það virðist ekki vera auðvelt.
Réttlætingar ofbeldismanna
Einhvern tímann helltist yfir mig löngun til að skilja hvað býr að baki ofbeldi eins og nauðgunum, svo ég hringdi í menn sem áttu það sameiginlegt að hafa verið dæmdir fyrir nauðgun. Eftir að erindið hafði verið borið upp skelltu þeir nánast undantekningarlaust á. Nema þeir sem vildu ræða hvernig þeir hefðu verið dæmdir saklausir. Einn sendi vin sinn meira að segja á skrifstofuna með gögn sem áttu að sýna fram á óvægna og ósanngjarna fjölmiðlaumfjöllun um málið á sínum tíma, út frá þeim forsendum að maðurinn hefði í raun verið sendur saklaus í fangelsi. Nokkrum áratugum síðar krafðist maðurinn þess að umfjöllunin yrði þar með leiðrétt og hann fengi betri mynd af sér í blöðunum. Ekki í einu einasta tilfelli var að sjá að þessir menn væru tilbúnir til að horfast í augu við gjörðir sínar, axla ábyrgð á þeim eða sýna auðmýkt gagnvart aðstæðum.
Síðar hef ég rætt við nauðgara sem sýndu iðrun, af því að þeir voru tilbúnir til að viðurkenna að þeir tóku ákvörðun um að beita ofbeldi vegna þess að þeir gátu það. Á endanum var ástæðan að baki ofbeldinu ekki flóknari en svo. Þeir sáu tækifæri til að taka það sem þá langaði í og þeir gerðu það. Það er undantekningin að maður tali svo afdráttarlaust. Þeir eru fleiri sem fara í vörn. Maður sem henti kærustunni sinni fram af svölum mætti í viðtal til að útskýra hvernig hún hefði kallað það yfir sig. Annar reyndi að réttlæta alvarlega áverka á andliti kærustunnar. Maður á eftirlaunaaldri mætti með uppkominn son sinn í viðtal til að koma því á framfæri að unga stúlkan sem hann hafði verið dæmdur til að tæla til kynferðismaka með gjöfum hefði í raun verið ómerkilegur ómerkingur. Stundum hefur þetta verið svolítið skrautlegt, svo ekki sé meira sagt.
Ofbeldi er val
Ofbeldi er val, ef svo væri ekki þá væri ofbeldi almennt ekki beitt í einrúmi og þar sem gerendur hafa völd á aðstæðum.
Kannski er auðveldara að segja það heldur en að axla ábyrgð á því þegar fólk kann ekki að bregðast við vanmætti, reiði eða erfiðum tilfinningum og missir hreinlega tökin á tilverunni. Þegar fólki hefur kannski verið kennt að beita ofbeldi, þegar það horfði upp á eða var sjálft beitt ofbeldi. Ofbeldi getur alið af sér ofbeldi. Kannski beitir fólk ofbeldi af skilningsleysi, því það getur ekki sett sig í fótspor annarra og hefur talið sér trú um að það eigi rétt á því að koma svona fram, því hefur tekist að réttlæta fyrir sjálfu sér að vaða yfir aðra eða taka völd á annarri manneskju, sannfært sig um að það beri ekki ábyrgð á aðstæðum heldur þolendur þeirra, nú eða að framkoma þeirra skaði ekki aðra. En það skiptir ekki máli. Ef fólk er í þeirri stöðu að það meiðir aðra ber það ábyrgð á og skylda til að sækja sér aðstoð. Valið felst í því að sama hvaða ástæður búa að baki er alltaf hægt að bregðast öðruvísi við. Enginn þarf að beita ofbeldi og það geta allir hætt því. Mögulega er til siðlaust fólk sem er ekki viðbjargandi, en allavega langflestir geta gert betur.
Þess vegna lýsi ég stuðningi við gerendur. Ég styð ykkur til að hlusta betur, leita inn á við og horfa í gegnum sjálfsblekkinguna og afneitunina. Ég styð ykkur til að sjá ykkur sjálfa, leita ykkur aðstoðar, fyrir ykkur og alla sem á vegi ykkar verða. Ég styð ykkur í átt að bata og betra lífi, þar sem þið getið gert betur en þetta.
Athugasemdir