„Fæðing sona minna mótaði líf mitt til hins betra,“ segir Guðný Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur. „Þeir kenndu mér skilyrðislausa ást. Bæði elska ég þá skilyrðislaust og svo í seinni tíð finn ég sterkt að þeir elska mig skilyrðislaust til baka. Mér finnst þeir skemmtilegir og ég upplifi mig skemmtilega, hugrakka og góða með þeim.
Þegar frumburðurinn kom í heiminn fann ég tilgang lífsins og jafnframt sterkar þegar seinni drengurinn kom í heiminn. Fæðing þeirra jafnast ekki á við nokkurn annan skapaðan hlut í veröldinni því þær voru svo magnaðar. Að finna styrk minn og ást um leið og ég fékk þá í fangið er það magnaðasta sem ég hef upplifað. Ég finn að ég er sköpuð til að vera móðir og það er minn æðsti tilgangur í lífinu.
Ég fann skilyrðislausa ást mína til þeirra svo sterkt þegar ég lá fyrir dauðanum í krabbameinsmeðferð fyrir nokkrum árum; það varð svo áþreifanlegt þegar ég horfðist í augu við það að missa þá og að þeir gætu misst mig. Ég fann að ég hafði svo margt að gefa og að ég vildi vera til staðar fyrir þá, styðja og styrkja í þeirra lífi. Ég þráði framtíð með þeim.
Fyrir mér er nóg að þeir dragi andann og séu hamingjusamir í hversdagsleikanum, sama hvað þeir taka sér fyrir hendur. Þannig lýsi ég best ást minni til þeirra.“
Athugasemdir