Á fimmtudagsmorgni í síðustu viku fékk ég skilaboð frá blaðamanni á Stundinni sem hvatti mig eindregið til að senda blaðinu sýn mína á framboð mitt til formanns Nýlistasafnsins, eða Nýló. Ástæðan var sú að ein af mótframbjóðendum mínum hafði þegar gert það.
Allir frambjóðendur, að mér meðtalinni, velja sjálfir hvernig þeir vilja auka sinn sýnileika og hvaða miðla þeir vilja nýta til þess. Til dæmis hefur verið gripið til að kynna eigin verk eða kveikja spennandi umræður um hvaða bakgrunn formaður Nýló ætti að hafa. Það er allt saman gott og gilt og hefur skapað mikinn áhuga og umræðu um Nýlistasafnið sem safn og sýningarrými.
Ég verð samt að viðurkenna að ég var á báðum áttum þegar ég fékk boð um að koma minni sýn á framfæri á þessum vettvangi. Hluti af mínu starfi sem sýninga- og verkefnastjóri hefur verið að kynna listamenn, myndlist, verkefni og sýningar í gegnum fjölmiðla og aðrar skapandi aðferðir sem ég hef skilgreint í samvinnu við listamennina sjálfa. Þessi vinna hefur verið hvetjandi og spennandi, vegna þess að tilgangurinn var að auka sýnileika listamannanna og verka þeirra. Sýn minni á Nýló hafa fulltrúar þegar kynnst og áhugasamir geta einnig farið á vefsíðu safnsins og lesið sér þar til um öll framboð. En ég vel þetta gullna tækifæri sem nú gefst, til að kynna Nýlistasafnið fyrir lesendum Stundarinnar, safni sem er mér og mörgum öðrum kært.
Fyrir rúmlega fjörutíu árum var Nýló stofnað til þess að safna og varðveita listaverk sem opinber söfn á þeim tíma höfðu ekki áhuga á. Síðan þá hefur safnið margfaldast að umfangi. Nú er Nýló viðurkennt safn og sýningarstaður, með annan fótinn í Breiðholti, þar sem safneignin er varðveitt, og hinn í Marshallhúsinu. Þar er tekið á móti sýningargestum í góðu sambýli við aðra listamenn, þar á meðal Kling & Bang, sprelllifandi listamannarekið sýningarrými sem auðvelt er að sækja innblástur hjá.
Í Nýló á ekki að vera stigveldi, heldur samtal. Allir hjálpast að við að setja upp sýningar, taka á móti gestum og sjá um praktísk mál eins og að skúra gólf. Sameiginlegt markmið okkar allra á að vera að styðja við listina. Þegar ég flutti aftur til Íslands fyrir u.þ.b. þremur árum síðan eftir nám og störf erlendis þekkti ég engan í íslensku listalífi, og ég er ekki að ýkja. Þegar ég svo var ráðin til Nýló fann ég samstundis að ég var innilega velkomin, meðal sýnenda, starfsmanna, stjórnar og fulltrúa safnsins. Allir sem hafa áhuga á Nýló, fulltrúar, sýnendur og gestir, eiga að finna fyrir þessari hlýju. Nýló á að vera athafnarými listamanna úr öllum áttum, tækifæri til að leggja sitt af mörkum. Safnið er rekið á samtakamætti og sjálfboðavinnu (sem er bráðum að þolmörkum komin), og formannssætið er því miklu meira en bara starf. Nýló er nefnilega samfélag og því meira sem félagar taka þátt því meira gerist í safninu.
Um daginn heyrði ég talað um Nýló sem móðurskip. Að safnið styðji við sjálfsprottin verkefni og önnur frumkvæði listamanna, til að mynda með því að varðveita heimildir. Það er að mörgu leyti alveg dagsatt, en Nýló er líka lifandi vettvangur frumsköpunar og listamenn sem gefa í safneign taka þátt í að skrifa sína eigin sögu.
Mér finnst ekki nauðsynlegt að nýr formaður Nýló sé myndlistamaður. En mér finnst hins vegar augljóst að burðarásinn í starfinu – hornsteinninn – eigi að vera listamennirnir sjálfir. Á miðvikudaginn er mikilvægur dagur fyrir framtíð Nýló. Þá er aðalfundur og ég vona að allir fulltrúar sem hafa tök á nýti sinn atkvæðisrétt. Ég er ein af þeim sem gefa kost á sér til formanns, en ég er ekki sú eina. Það gera einnig Helena Aðalsteinsdóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Freyja Eilíf.
Lengi lifi Nýló!
Með kærri kveðju,
Sunna Ástþórsdóttir
Athugasemdir