I believe the children are our future
Teach them well and let them lead the way
Nánast um leið og ég ræsi bílinn hefst lagið:
Show them all the beauty they possess inside
Give them a sense of pride to make it easier.
Ég er á leið í dómsal, að mæta manni sem sendi mér fjárkröfu upp á fimm milljónir sem áttu að greiðast innan sjö daga ellegar yrði mér gert að fara fyrir dóm vegna starfa minna sem blaðamaður og ritstjóri. Maðurinn sendi mér svo afmælisgjöf. Tveimur árum eftir að umfjöllunin birtist fékk ég símtal á afmælisdaginn minn frá lögmanninum mínum sem spurði hvort hún mætti verja mig í meiðyrðamáli sem maðurinn stæði fyrir. Stefnan barst svo með formlegum hætti innan nokkurra daga.
Stingandi augnaráð
Á meðan lagið spilast í útvarpinu, þar sem framtíðin er sögð vera barnanna og mikilvægi þess að hlúa að þeim er áréttað, situr maðurinn á fjórðu hæð í Héraðsdómi Reykjavíkur, í dómsal 401, og gefur skýrslu. Ég má ekki vera viðstödd en skilst síðar að hann hafi notað tækifærið til að tala um hversu þungbært það hefði reynst honum, öldruðum manninum, að dætur hans hafi fengið rödd og rými til að tjá upplifun sína af því hvernig þær telja að kerfið hafi brugðist sér í barnæsku, þegar þær báru föður sinn ítrekað þeim sökum að hafa brotið gegn sér kynferðislega og báðust undan því að þurfa að hitta hann, án þess að á þær væri hlustað.
Ég geng upp á fjórðu hæð og inn í salinn þar sem ég á að gefa skýrslu, kem mér fyrir og dreg andann djúpt, það er jú streituvaldandi að fara fyrir dóm. Ég hef aldrei skilið af hverju það á að vera svo sjálfsagður hluti af starfsumhverfi blaðamanna að hver sem er geti dregið þá fyrir dóm fyrir nánast hvað sem er, hversu fjarstæðukenndar sem stefnurnar eru. Íslenska meiðyrðalöggjöfin þykir ströng í alþjóðlegum samanburði og það hefur lengi verið kallað eftir breytingum þar á, án árangurs.
Í ofanálag hefur íslenska ríkið orðið uppvíst að því að brjóta ítrekað á tjáningarfrelsi blaðamanna. Þar sem ég er að undirbúa mig undir skýrslugjöfina gengur maðurinn inn í salinn og stendur yfir mér: Sæl Ingibjörg, segir hann. Sæll vertu, svara ég. Við eigum ekki frekari orðaskipti en hann stendur og starir á mig, sest síðan niður og heldur áfram að horfa á mig, eins og hann sé að reyna að bora sér leið inn í huga minn með augnaráðinu. Ég hunsa það, leyfi stingandi augnaráðinu ekki að slá mig út af laginu.
Bannað að nota orðið mansal
Dómarinn spyr hvort ég hafi farið fyrir dóm áður og ég játa því. Áður en markvisst var farið að senda meiðyrðamál til Mannréttindadómstóls Evrópu var mér og meðritstjóra mínum á Stundinni, þá starfsmönnum á tímaritinu Ísafold, stefnt fyrir umfjöllun um aðbúnað nektardansmeyja á Goldfinger. Stefnt var fyrir 24 ummæli og fimm dæmd ómerk, ummæli á borð við:
- „Flest bendir til þess að mansal sé stundað í Kópavogi.“
- „Stúlkan segist geta fullyrt að aðstæður austur-evrópsku stúlknanna flokkist undir mansal.“
- „Þær voru mjög hræddar við eigandann og hans fólk. Enda var alltaf sagt: Hér kemur Geiri og hirðin. Er það ekki mansal?“
Umræða um vændi, ofbeldi, ógnanir, jafnvel glæpasamtök og sölu á fólki var talin eiga rétt á sér en eitt orð mátti ekki nefna; mansal. Jafnvel ekki í almennu samhengi, velta upp spurningunni hvort vissar aðstæður mætti skilgreina sem mansal, ekki einu sinni segja frá vangaveltum þeirra sem þekktu til.
Niðurstaða dómsins byggði á einfaldri skilgreiningu íslenskrar orðabókar sem gefin var út af Eddu árið 2005 á orðinu mansal: Þrælasala. Í greininni var hins vegar sérstaklega tekið fram að unnið væri út frá alþjóðlegri skilgreiningu á mansali sem birtist í samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta var lykilatriði í málinu sem dómurinn hafði að engu, þar sem Palermo-sáttmálinn skilgreinir mansal með mun víðtækari hætti en gert var í íslenskri orðabók. Samkvæmt sáttmálanum getur mansal falist í því að smala, flytja og jafnvel selja fólk eða taka á móti því með þvingunum eða hótunum um ofbeldi. En það getur líka falist í valdamisnotkun eða misnoktun á neyð, meðal annars í þeim tilgangi að nota manneskjur kynferðislega. Í aðstæðum þar sem slíkum aðferðum er beitt skipti samþykki þolenda mansals engu máli. Með öðrum orðum þá getur mansal falist í því að flytja fólk á milli landa og hagnast á að notfæra sér neyð þess, samkvæmt alþjóðasamningum sem íslensk stjórnvöld höfðu skuldbundið sig til að fylgja en látið fyrir liggja að fullgilda og um leið vanrækt skyldu sína til að vernda brotaþola.
Brotið á mannréttindum blaðamanna
„Lögreglan telur þær fórnarlömb mansals. Blaðamenn kalla þær tómar mellur. Ekki hjálpa femínistarnir þeim,“ sagði eigandi nektardansstaðarins í kjölfar umfjöllunarinnar, sem hafði skömmu áður birt auglýsinguna: Travelling in Iceland? Need a Ride? í nafni nektarstaðarins og sagði sjálfur, inntur eftir viðbrögðum við umfjöllun Ísafoldar, að ferðafrelsi starfsstúlkna væri skert, þær réðu sér „mjög mikið sjálfar“, en eftir að vaktinni væri lokið meinaði hann þeim að fara ferða sinna í átta klukkustundir. „Ég sé bara ekkert að því.“
„Ég sé bara ekkert að því“
Vikan fylgdi umfjöllun Ísafoldar eftir með viðtölum við fleiri nektardansmeyjar, sem sögðu meðal annars frá vændi, eiturlyfjaneyslu og hótunum í tengslum við starfið. Blaðamaðurinn var dæmdur til að greiða eiganda nektardansstaðarins 500 þúsund í sekt og 400 þúsund til viðbótar í dráttarvexti. Meðal annars fyrir að hafa eftir lýsingu viðmælandans á því hvernig stelpurnar sem kæmu hingað þrjá mánuði í senn „væru eins og í fangelsi“.
Dómnum var vísað til Mannréttindardómstóls Evrópu sem dæmdi íslenska ríkið brotlegt gegn tjáningarfrelsi blaðamannsins. Skömmu síðar var annað mál sent til mannréttindadómstólsins, sambærilegt mál þar sem blaðamaður var dæmdur fyrir meiðyrði vegna umfjöllunar um nektardansstað. Aftur var niðurstaða Mannréttindadómstólsins skýr; fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi við að miðla upplýsingum og hugmyndum um öll málefni er varða hagsmuni almennings. Það er ekki aðeins skylda fjölmiðla að veita slíkar upplýsingar, heldur einnig réttur almennings að fá þær. Tjáningarfrelsið gildir ekki aðeins um upplýsingar eða hugmyndir sem falla í góðan jarðveg, teljast meinlausar eða skipta ekki máli, heldur einnig þær sem misbjóða, hneyksla eða koma illa við fólk. Umfjöllunin tengdist víðtækara málefni sem átti lögmætt erindi við almenning.
Frelsi fjölmiðla fellur
Það var ekki fyrr en Mannréttindadómstóll Evrópu hafði komist sex sinnum að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið væri að brjóta á mannréttindum blaðamanna sem dómar í meiðyrðamálum fóru almennt að taka mið af því. Eftir það hafa nánast öll meiðyrðamál sem hafa verið höfðuð gegn blaðamönnum unnist. Samt er það veruleiki okkar sem störfum við þetta fag að geta sífellt átt von á því að vera dregin fyrir dóm. Tilhæfulausum stefnum er jafnvel beitt sem valdatæki til að ræna fjölmiðla og fjölmiðlafólk dýrmætri orku, tíma og peningum, sem ella hefðu getað farið í fréttavinnslu og miðlun upplýsinga til almennings. Eitt grófasta dæmið um málsókn var þó þegar auðmenn stefndu blaðamanni fyrir hatursáróður vegna leiðara um fjármálagjörninga þeirra. Í annað skipti barst honum, ásamt meðritstjóra mínum og fleirum, stefna á Þorláksmessu. Ég fékk símtal frá lögmanni á afmælisdaginn minn.
Reyndar hafa fleiri afmælisdagar verið markaðir af baráttunni fyrir frelsi fjölmiðla. Árið 2017 hófst afmælisdagurinn hjá héraðssaksóknara sem hafði kallað fjölmiðlafólk í skýrslutöku í leit að heimildarmanni. Síðar þurftum við að fara fyrir dóm til að mæta kröfu fallins banka í leit að heimildarmanni eftir að lögbann var lagt á umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra. Valdbeitingin á sér ýmsar birtingarmyndir en er alltaf jafn grimm.
Sjaldan þó eins rætin og áróðursherferð Samherja gegn Helga Seljan, sem hefur ekki aðeins þurft að þola að stöðugt sé reynt að grafa undan trúverðugleika hans og heilindum sem fréttamanns heldur hefur hann líka þurft að þola umsátur og ógnandi skilaboð frá starfsmanni Samherja, án þess að forsvarsmenn fyrirtækisins svo mikið sem skammist sín. Enn er fyrirtækið að framleiða áróðursmyndbönd gegn fréttamanninum, nú síðast út frá niðurstöðu siðanefndar sem taldi hann hafa farið fram hjá reglunum með því að nota orðið gæskur í opinberri umræðu. Áróðursherferð Samherja þykir svo alvarleg atlaga að einstaka fréttamönnum að hún er nefnd sem ástæða þess að Ísland fellur enn neðar á lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum. Fleiri ástæður eru nefndar, svo sem versnandi samskipti stjórnmálamanna við fjölmiðla, ítök hagsmunaaðila á fjölmiðlamarkaði og erfitt fjárhagslegt umhverfi fyrir fjölmiðla. Bent er á fyrirliggjandi frumvarp sem ætlað er að styðja einkarekna fjölmiðla, en Alþingi á enn eftir að taka afstöðu til.
Fólkið sem stefndi Stundinni
Þennan afmælisdag árið 2017 lá leiðin frá héraðssaksóknara yfir í héraðsdóm þar sem blaðamaður Stundarinnar var sýknaður af meiðyrðakröfu manns sem lét af störfum sem yfirmaður eftir að lærlingar sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Krafðist maðurinn ómerkingar á ummælum sem voru beint upp úr bréfum þriggja læringa til annarra stjórnenda og vildi tveggja milljóna króna greiðslu frá blaðamanninum sem sagði frá því. Læknir sem var ákærður fyrir að berja annan í höfuðið með hamri stefndi blaðamanni Stundarinnar fyrir að tala um tilraun til manndráps en ekki alvarlega líkamsárás. Lögreglumaður sem var í þrígang kærður fyrir kynferðisbrot án þess að málin rötuðu nokkurn tímann fyrir dóm krafðist þess að ung kona sem skrifaði fréttina greiddi honum 1,5 milljónir. Svo var það konan sem stefndi Stundinni vegna þess að nafn hennar birtist í frétt, án þess að hún væri bendluð við nokkuð misjafnt og tapaði málinu án þess að tekið væri til varna.
Hér erum við enn, dregin fyrir dóm til að takast á um mörk tjáningarfrelsis og meiðyrða, hvort dætur mannsins hafi haft rétt til að segja sögu sína. Fyrir dómi er tekist á um vinnubrögðin við vinnslu greinarinnar, hvort og þá hvað hefði verið hægt að gera betur að mati fólks með bakgrunn í lögmennsku en ekki fjölmiðlum.
Hvað felst í þvingun?
Dómarinn spyr hvort markmiðið hafi verið að maðurinn ætti ekki eða mætti ekki þekkjast, bætir því við að nú sé hann kominn í réttarheimspekilegar vangaveltur. Lögmaður mannsins heldur áfram á svipaðri línu, hvers vegna það var tekið fram að maðurinn menntaði sig í Bandaríkjunum í stað þess að láta duga að hann hafi menntað sig erlendis og sömuleiðis hvers vegna hann var sagður fyrrverandi starfsmaður ráðuneytis en ekki háttsettur opinber embættismaður. Ef hér er verið að velta því upp hvort maðurinn hafi átt að þekkjast af þessum upplýsingum þá felst ákveðin skekkja í því að hann sitji svo hér fyrir opnu þinghaldi, eftir að hafa valið sjálfur að opinbera sig. Ekki aðeins með því að fara með málið fyrir dóm, heldur einnig með því að veita fjölmiðlum viðtal í kjölfarið, þar sem hann steig fram undir nafni og mynd. Um leið svipti hann dætur sínar réttinum til að velja nafnleysi, þvingaði þær til þess að standa berskjaldaðar frammi fyrir alþjóð með þessa sáru reynslu, eftir að þær höfðu valið að gera það ekki.
Aðaláhersla lögmannsins var hins vegar á hvort réttlætanlegt væri að nota orðið „þvingaðar“, þegar sýslumaður beitti ekki dagsektum. Að mati lögmannsins á orðið þvingun ekki við þegar sýslumaður kemst að þeirri niðurstöðu að dæturnar eigi að umgangast föður sinn þrátt fyrir að þær hafi beðist undan því og sakað hann um kynferðisbrot, sem þær sögðu meðal annars að hefði átt sér stað í umgengni sem þær höfðu beðist undan. Nei, samkvæmt lögmanni mannsins er aðeins hægt að tala um þvingun ef sýslumaður beitir dagsektum, en ef fyrri aðferðum dómstóla er beitt þá er skilgreining íslenskrar orðabókar á orðinu þvingun hins vegar: það að þvinga, neyða. Möguleg samheiti eru meðal annars nauðung, neyð, þrúgun eða þrýstingur.
Dæturnar bera vitni gegn föður sínum
Næst er kallað til vitni, félagi mannsins úr gönguhópi var beðinn um að staðfesta að manninum hafi verið vikið úr gönguklúbbnum í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar. Í ljós kom að vitnið hafði aldrei rætt það við forsvarsmenn klúbbsins en hafði það eftir manninum sjálfum. Vitnið hafði heldur ekki lesið umfjöllun Stundarinnar, þekkti ekki til málsins en sagðist aðeins þekkja manninn lítillega og þá af góðu. Hann hafði verið hinn fínasti göngufélagi.
Fleiri vitni eru kölluð til. Maðurinn var aldrei kærður fyrir kynferðisbrot en dætur hans mæta honum nú í réttarsal. Fyrst önnur, svo hin. Þar lýsa þær aðstæðum sínum í æsku og ástæðum þess að þær völdu að segja sögu sína, hvernig þeim misbauð að lesa í gegnum málsskjölin þegar þær voru orðnar fullorðnar, ekki síst minnispunkta frá ónefndum starfsmanni barnaverndaryfirvalda úr viðtali þar sem önnur systirin segir frá því að faðir sinn hafi brotið gegn henni í umgengni og starfsmaðurinn skrifaði á spássísuna „sagt ósannfærandi“ án þess að færa nokkur rök fyrir því eða bregðast frekar við ásökunum barnsins. Þær segja hvernig þeim misbauð að lesa samtímafrásagnir af börnum í sambærilegum aðstæðum og ákváðu að miðla sögu sinni með það að marki að auka skilning samfélagsins á aðstæðum þessara barna, í von um að það yrði farið að hlusta á börn og taka frásagnir þeirra alvarlega. Inntar eftir því hvort þær hafi viljað koma höggi á föður sinn svöruðu þær með svipuðum hætti: „Nei, þá hefði ég sagt miklu meira.“
Sterkar konur sem kæra ekki
Í málflutningi lögmanns mannsins var talað um hin „meintu gögn“ sem lágu til grundvallar greininni, fullyrt að fyrrverandi eiginkona mannsins hafi ekki aðeins verið fjársterk heldur einnig „sterk kona“. Svo sterk kona hefði aldrei hikað við að tilkynna „meint“ kynferðisbrot gagnvart börnunum ef hún hefði lagt trúnað á frásagnir dætra sinna. Dregið var í efa að bréf sem hún skrifaði og vísað er í í greininni, þar sem hún lýsti frásögn dóttur sinnar fyrir yfirvöldum, hafi raunverulega verið til.
Enn er verið að reyna að refsa dætrunum, nú fyrir það að faðir þeirra var aldrei kærður til lögreglu, þrátt fyrir að það sé vel þekkt staðreynd að það reynist brotaþolum kynferðisbrota ekki auðsótt að sækja réttlæti í réttarkerfinu, hvað þá á þeim tíma þegar þær voru börn og umræðan um kynferðisbrot var mun skemmra á veg komin. Móðir systranna er látin en ástæður þess að hún ákvað að kæra ekki eru tilgreindar í gögnum, meðal annars þær að hún vildi hlífa systkinum þeirra sem höfðu þegar mátt þola nægan sársauka. Auk þess sem gagnrýni systranna í dag snýst meðal annars um að enginn þeirra fjölmörgu fulltrúa yfirvalda sem höfðu vitneskju um ásakanir þeirra á hendur föður sínum tók þær nógu alvarlega til að vísa málinu til lögreglu.
Í erindi sínu fullyrti lögmaður mannsins að hann væri ekki svona maður, hann hefði þvert á móti verið einn helsti ráðgjafi íslenskra stjórnmála í ríkisfjármálum og ætti ótrúlegan feril að baki. Nú þegar hann væri á níræðisaldri og ætti að njóta elliáranna hefði fólk snúið baki við honum vegna umfjöllunar Stundarinnar. Meira að segja elsta dóttir hans neitaði nú að umgangast hann.
Áður hefur komið fram að eldri systkinin voru fengin til að sinna eftirliti með umgengninni á sínum tíma og skrifuðu barnaverndaryfirvöldum bréf þar sem þau sögðust ekki vilja vera í því hlutverki, það væri „ótrúlega slítandi andlega“. Systurnar hafa auk þess rætt við systkini sín um afleiðingarnar og ástæður þess að þær vilja enn ekki umgangast föður sinn, en lögmaður mannsins kvartaði einmitt undan því að dæturnar sem báru vitni gegn föður sínum hefðu ekki svarað ítrekuðum tilraunum hans til þess að hafa samband, ekki einu sinni ábyrgðarbréfi.
Fleiri „gjafir“ frá manninum
Að málflutningi loknum bauð dómarinn manninum aftur orðið. Maðurinn stóð upp og sagðist vera með „gjöf fyrir Gabríelu“, dóttur sína, sem sat í dómsal. Síðan dró hann upp bréf sem hún skrifaði honum sem barn. Fimm ára gömul greindi hún móður sinni frá misnotkun föður síns og í kjölfarið upphófst skilnaðarferlið. Bréfið var skrifað í miðjum skilnaði, bréf barn til föður síns, sem sagðist sakna hans og spurði hvort hann vildi kaupa fyrir sig dót og nammi, með teikningu af flugvél, þar sem faðir hennar var þá í útlöndum. Maðurinn rétti bréfið í átt að dómaranum sem afþakkaði það og sagði það betur geymt hjá honum. Því næst gekk hann að dóttur sinni og reyndi að afhenda henni bréfið. Óþægindi hennar voru auðsýnileg, þegar hún neitaði að taka við bréfinu og færði sig undan föður sínum.
Dómarinn lagði fram sáttatillögu sem maðurinn hafnaði, viðtal við hann í Stundinni, enda hefur hann aldrei sóst eftir neinu, aðeins sent fjárkröfu á hendur mér með hótunum um stefnu, sem síðan var fylgt eftir. Nokkrum dögum síðar var hann hins vegar mættur í viðtal við Mannlíf, þar sem hann lýsti sakleysi sínu og gaf þær skýringar að móðir dætranna hefði verið „mikill femínisti“ og undir áhrifum annarrar konu sem var misnotuð af föður sínum. Ásökunum um að hann hafi brotið gegn annarri dótturinni í þvingaðri umgengni vísaði hann á bug með orðunum: „Þær voru alltaf tvær. Sem gerir það náttúrlega miklu ólíklegra, hvernig átti það þá nákvæmlega að gerast að ég væri með fingurna einhvern veginn inni í þeim báðum í einu?“ Ef dæturnar hefðu sagt móður sinni frá kynferðisbrotunum (sem þær gerðu) „þá hefði hún náttúrlega rokið í háaloft og beinlínis strax til lögreglunnar.“ Systkini þeirra hefðu sömuleiðis átt að tilkynna hann til lögreglunnar. Í viðtalinu lýsti hann því einnig hvernig hann hefði mætt fyrirvaralaust „eins og skollinn úr sauðarleggnum“ í skólann til þeirra. Börnunum hefði brugðið, orðið hvumsa, jafnvel hrædd og stundum brostið í grát. En nú væri hann orðinn gamall maður sem vonaðist eftir að þau gætu hagað sér eins og faðir og dætur „áður en ég kveð þennan heim“.
Hafa þær rétt á að segja sína sögu?
Dómarinn bauð mér aldrei aftur orðið, líkt og manninum. Ef hann hefði gert það þá hefði ég kannski sagt: Hér hefur því verið haldið fram að fólk hafi snúið baki við manninum vegna umfjöllunar, þegar raunin er líklega sú að fólk hefur snúið baki við manninum vegna framgöngu hans og þeirra ásakana sem dætur hans hafa borið á hann allt frá barnæsku, án þess að á þær væri hlustað. Nú reynir á hvort þær hafi rétt á því að segja sína sögu, í því skyni að hægt sé að draga lærdóm af reynslu þeirra.
Þetta er eitt mál af mörgum. Fyrir hrun var Ísland efst á lista yfir frelsi fjölmiðla, en hefur fallið hratt og fellur enn á milli ára. Ísland er nú komið niður í 16. sætið á meðan hin norrænu ríkin raða sér í efstu sætin. Hlutverk fjölmiðla er að að veita almenningi upplýsingar sem hann á rétt á. Árásir á fjölmiðlafólk eru þar af leiðandi ekki einkamál þess, heldur varða þær samfélagið allt. Starfsumhverfi fjölmiðla hefur áhrif á getu þeirra til að veita aðhald og sinna lýðræðislegu hlutverki sínu, því sterkari sem fjölmiðlar standa því betur eru þeir í stakk búnir til að starfrækja skyldur sínar gagnvart almenningi.
Athugasemdir