Hvað næst? – spyrjum við hvert annað, og óskum þess að súkkulaðieggjaframleiðendurnir taki ekki upp á þvi að finna upp nýja og arfaslaka málshætti, eins og um árið. Við viljum eitthvað sem við könnumst við, við viljum kunnuglegt súkkulaði og hvetjandi, gamaldags orðhnyttni til þess að fleyta okkur aðeins lengra inn í vorið. Við erum orðin svo langþreytt á þessari óvissu, þessum heimi sem sífellt tekur upp á einhverju ófyrirséðu, gerir kröfur á langlundargeð og raskar rútínurónni.
„Enginn með viti missir af svona tækifæri“
En eftir að jörðin hefur skolfið og skelkað í þrefalt lengri tíma en það tók Guð að skapa heiminn kemur loks að lausninni. Og það er mamma sem bjargar. Eftir margra mánaða kóf sem kapítalisminn í örvæntingu espar og nærir opnar hin æðsta móðir faðminn innst inn að kviku. Hún ypptir öxlum af æðruleysi þess sem lifir eftir tímatali aldanna. Hlær góðlátlega að smámenninu með sitt feðraveldisfruss og flýti. Við fáum óvænt smáskilaboð frá útlenskum vini; - What a cute volcano you have got! Já, hugsum við, og okkur líður aðeins betur. Gleymum því hvað okkur varðaði lítið um konuna sem fór í stríð. Nú er lag að uppfæra gönguskóna, besta leiðina, hlaða símann til að ná inn myndum á miðlana áður en offramboðið kikkar inn. Eða eftir. Enginn með viti missir af svona tækifæri.
Við tyllum okkur á mosaþúfu í þjóðhátíðarbrekkunni og hlúum að súkkulaðieggjunum í bakpokanum. Spjöllum við náungann um tækifærin í áratugalöngu ferðamannagosi. Mamma bjargar. Við höfum kvalist, píslargangan var okkar. Flestir höfðu gleymt hvert Jesú fór eftir að hann var krossfestur, dáinn og grafinn. Áður en hann reis upp á þriðja degi. Við plokkum skærlitað álið utan af egginu og potum puttanum í iðrin. Orðin mjúk og meyr og á höttunum eftir sannleikanum, sem rúllar út úr gulum hólki: Milt er móðurhjartað.
Athugasemdir