Ég er alveg þurrausin, það þýðir að ég get ekki rausað, nei ég meina ég er þurr-ausin, ég hef ekkert til að skrifa um. Ég er alveg tóm, það er út af því að ég lifi í framtíðinni.
Ég er með framtíðina á bakinu eða öllu heldur í staðnum sem er þarna í miðjunni, rétt fyrir ofan brjóstin. Ég veit ekki hvað þessi staður heitir en í mínum bókum gæti ég kallað hann kvíða-bústað. Eða bólstað. Kvíðinn hefur tekið sér bólstað í líkama mínum. Kvíðinn er þannig að hann mun lifa mig. Hann heldur áfram að plaga fólk löngu eftir minn dag. Þótt mér takist að ráða niðurlögum hans heldur kvíðinn samt áfram sínu ömurlega verki. En það er spurning hvort mér takist að ráða niðurlögum hans. Það gerist stundum, suma daga, að hann lætur ekkert á sér kræla. Suma daga kemst ég ekki útí búð eða í sturtu nema hringja í vinkonu mína og fá hvatningu. Þetta byrjaði með ótta fyrir tannaðgerð, svo ruddist kvíðinn inní öll herbergi í minni áfallahöll, sérstaklega danssalinn, en ég hafði alist upp sem hetja í alkóhólískri fjölskyldu minni við að passa, hugga og taka til, en stundum braut ég rúður eða sýndi áhættuhegðun. Á bak við þessi tvö hlutverk var nagandi kvíði lítillar stelpu sem var hrædd um að lifa þetta ekki af og geta aldrei blómstrað og vaxið en dýpsta löngun manneskjunnar er að vaxa og vera, vaxa og skapa sér pláss.
Semsagt, ég sá kvíðann ryðjast upp úr fortíðinni og taka öll völd. Ég gat ekki farið útí búð eða keyrt bílinn. Svo leið semagt eitt ár og nú er ég komin á lyf en það er tvískiptur vandi hvað varðar kvíðalyf, annars vegar er ég með biluð nýru sem taka ekki hvaða lyf sem er og í öðru lagi er ég með bipolar eitt sem veldur því að ég má ekki taka kvíðalyf sem yfirleitt venjulegt fólk tekur. En jæja.
Ég hef aldrei vitað hvernig ég ætti að taka þessu með núið, fundist þetta hálfgerð tíska og ég þoli ekki svoleiðis og er yfirleitt sein að tileinka mér nýjungar. Nema svo brá mér hvað ég væri þurrausin og gæti ekki skrifað einn hér pistil í þetta ágæta blað svo ég fór í hugleiðslu og slökun (sem ég hef heldur ekki getað farið í því ég er alltaf í kvíða að kvíða framtíðinni, kvíða því að fara í bíó á morgun, kvíða því að keyra yfir heiðina, kvíða því hvernig ég verð í bíóinu, hvort margir munu horfa á mig, hvað öllum finnist um mig og svo framvegis. Kvíða líka uppvaskinu og því að fara í heimabankann). Í slökun komst ég semsagt að því að ég lifði í framtíðinni og hvernig er hægt að lifa í framtíðinni, því hún er ekki komin?
Kannski hafði þessi litla stelpa ekki misst vonina og vonaðist eftir betra lífi þrátt fyrir allt.
Ég man alltaf eftir því þegar ég var í áfengismeðferð þegar vonin birtist, sem örlítill logi í hjartanu.
Já, ég hef ekkert meira að segja.
En ef ég má bæta einu við, þá held ég nú að eftir þetta þá taki ég slökun og hugleiðslu inní mitt líf.
Stundum verður maður bara að byrja að lifa í staðinn fyrir að grotna niður útaf fortíð og kvíða fyrir framtíð.
Hvað þýðir það að vera í núinu, nú-tíðinni? Það þýðir að maður verður að takast á við lífið. Til dæmis uppvaskið.
Og bara vera, anda inn, anda út.
Athugasemdir