Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Himnaríki og helvíti

Páll Stef­áns­son ljós­mynd­ari fór að gos­inu í Geld­inga­dal þeg­ar fólk­ið streymdi að í hættu­að­stæð­ur.

Það er helvíti langt í gosið, um tuttugu plús kílómetra gangur til og frá Grindavík -  fyrst upp og síðan niður í Geldingadal. Sjónarspilið var svo stórt að enginn hugsar um leiðina löngu til baka. Það var ótrúlegt að sjá þúsundir Íslendinga berja þetta stórkostlega gos augum. Þrátt fyrir að vera lítið, þá er það eitt það fallegasta sem ég hef séð - og hef ég séð öll gos landsins síðustu 40 árin.  

Þótt gosið sé ekki stórt miðað við önnur gos síðustu ár, þá er maðurinn einhvern veginn minni í þessu lokaða dalverpi, heldur en til dæmis í Holuhrauni sem var margfalt stærra og öflugra gos. Miðað við gang gossins mun hraunið fylla dalinn á fimmtán dögum. Og þá byrjar ballið! Það er stutt í byggð, þótt Geldingadalur sé í miðri óbyggð. 

Eyjafjallajökull var bara strókur í fjarska en þarna kemst þú svo sannarlega í nána snertingu við náttúruöflin; hitann og hávaðann sem glóandi hraunið gefur frá sér, kvæsið í gígnum, lyktina af brennisteini og hættuna af gasinu sem fylgir. 

„Eyjafjallajökull var bara strókur í fjarska en þarna kemst þú svo sannarlega í nána snertingu við náttúruöflin“

Það var svo falleg gleði hjá öllum sem lögðu leið sína í Geldingadal í gær til að sjá óbeisluð náttúruöflin. Það var allt annað upp á teningnum, þegar síðustu kílómetrarnir til baka voru svona ótrúlega langir. Margir dauðþreyttir eftir að hafa staldrað við í stutta stund í himnaríki.

Síðan kom kvöldið og nóttin. Ég hafði mætt hundruðum manna á leið í gosstöðvarnar rétt fyrir myrkur. Ég hafði áhyggjur, því margir virtust ekki búnir fyrir rigningu og slyddu, sem spáð var.  Enda kom á daginn að í nótt þurfti að kalla til allar björgunarsveitir á suðvesturhorninu til að bjarga fólki sem annað hvort örmagnaðist eða villtist af leið í myrkrinu og kuldanum. Það er EKKERT ferðaveður í dag og svæðið lokað vegna gasmengunnar.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Eldgos við Fagradalsfjall

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu