Allir fjölmiðlar gera mistök. Allir vinnustaðir gera mistök.
En þegar það er sett á forsíðu fríblaðs* (leiðrétt síðar) að formaður verkalýðsfélags, Ragnar Þór Ingólfsson, hefði verið „staðinn að ólöglegri netalögn“ á Suðurlandi fyrir nokkrum mánuðum, „samkvæmt heimildum“, verður heimildin að vera virkilega sterk. Eins og segir í ritstjórnarreglum Fréttablaðsins: „Almennt skal hafa tvo sjálfstæða heimildarmenn frá fyrstu hendi að sérhverri viðkvæmri frétt.“
En allir gera mistök.
Þegar það er hins vegar sami fjölmiðill og hefur í hverri forystugreininni á fætur annarri varað þjóðina við forystufólki verkalýðsfélaga, skapast óþægilegar grunsemdir um að misjöfnum ritstjórnarreglum sé beitt eftir því hvern á við. Augljóst er að efnisvalið er misjafnt, enda er „efling atvinnulífsins“ eitt af hlutverkum Fréttablaðsins samkvæmt ritstjórnarstefnunni, og leiðarahöfundar hafa verið staðfastir á þeirri skoðun að launahækkanir almennings séu ógn við atvinnulífið og lífið í landinu.
Stefna blaðsins
Í ritstjórnarreglum Fréttablaðsins segir: „Ritstjórn ber virðingu fyrir meginreglu réttarríkisins um að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð“. Fréttablaðið hefur hins vegar ekki lagt í vana sinn að fjalla um meint lögbrot nafngreindra einstaklinga áður en þeir eru ákærðir eða komnir fyrir dóm, hvað þá á forsíðu.
Það er sjálfsagt að segja frá framferði kjörinna fulltrúa þótt það feli ekki í sér refsivert brot. Og sjálfsagt að segja frá raunverulegum veiðiþjófnaði Ragnars Þórs, þótt hann væri ekki enn dæmdur. En að fullyrða að einhver maður hafi verið „staðinn að“ einhverju ólöglegu krefst þess að maðurinn sé staðfestanlega staðinn að einhverju ólöglegu, en ekki bara viðstaddur nærri vettvangi eða í óskilgreindu félagslegu samhengi við atburðinn.
Netið þrengist
Fréttablaðið hafði enga staðfestingu frá lögreglunni á því að Ragnar Þór hefði verið „staðinn að“ neinu ólöglegu. Enda neitar lögreglan yfirleitt að veita slíkar upplýsingar. Í dag hefur lögreglan hins vegar svarað því afdráttarlaust að Ragnar er hvorki sakborningur né vitni.
Viðbrögð Fréttablaðsins við því að lögregla staðfesti að hann hefði ekki verið staðinn að neinu í málinu, eða verið til vitnis um það, voru að skrifa frétt um að bóndi sem kom að netlögninni hefði þá skoðun að Ragnar geti ekki „fríað sig“ alfarið frá ábyrgð. Þannig varð ábyrgð Fréttablaðsins og ritstjóra þess komin yfir til bóndans, sem virðist hafa verið „heimildir blaðsins“, samkvæmt hverjum fréttin var skrifuð.
Við sem verðum vitni að möskvastærðinni í fréttaneti Fréttablaðsins, og hvernig ábyrgðinni er misskipt og sannleikurinn þar samsettur, hljótum að hafa áhyggjur af siðferði og þekkingarfræði Fréttablaðsins.
Afbrotið afhjúpað
Samkvæmt framhaldsfrétt Fréttablaðsins byggði fréttaflutningurinn á því að bóndi fann net, rakti netalögnina til bæjarins Holts, og að þar hafi verið á tilteknum tíma hópur manna og að Ragnar Þór hafi verið einn þeirra í hópnum. „Þeir voru þarna saman í hóp,“ segir bóndinn í framhaldsfrétt Fréttablaðsins.
Því sýnir viðbragðsfréttin, sem felur leiðréttinguna inni í niðurfærslu úr ásökun um lögbrot í félagslegt siðferðisbrot án sönnunar, að forsíðufrétt Fréttablaðsins sem sakaði Ragnar Þór ranglega um afbrot, var ekki mistök, heldur samkvæm nýrri óskrifaðri stefnu blaðsins. Það eru að óbreyttu verðmætar upplýsingar fyrir okkur hin, sem hafa forspárgildi um framtíðarframferði blaðsins.
* Þess ber að geta að þótt Fréttablaðið sé kallað fríblað, er það ekki frítt. Auglýsendur (atvinnulífið) borga fyrir dreifingu Fréttablaðsins inn á heimili og hallarekstur útgáfunnar er greiddur af auðmanninum Helga Magnússyni.
Athugasemdir