Þegar ég var yngri hafði ég mikinn áhuga á pólitík og ég upplifði kosningaár eins og það væru auka jól. Í seinni tíð hefur áhugi minn á pólitík dalað nokkuð, alveg þannig að góður fjórðungur af lífsgleðinni lekur út þegar ég hugsa um að það séu kosningar í vændum (en þó ekki fyrr en næsta haust). Mikið magn af pólitískum umræðum, litið af innihaldi.
Gervigreind
Árið 1950 lagði Alan Turing til próf á getu véla til að ... ekki hugsa. Turing áttaði sig á því að það væri erfitt að skilgreina hugsun og að aðrir hugar væru okkur að nokkru leyti huldir. Mælikvarðinn sem Turin lagði til var að ef vél getur tjáð sig á hátt sem líkir eftir hugsun nægilega vel til að manneskja getur ekki greint vélina frá manneskjum í samtalinu, þá höfum við enga ástæðu til að ætla annað en að vélar geti hugsað.
Turing-prófið er augljóslega umdeilanlegt. Ein frægasta mótbáran er að Turing leggi getu véla til að vinna úr tungumáli að jöfnu við skilning. Þetta var kjarninn í mótbárum bandaríska heimspekingsins John Searle.
„Nei, mér er ekki boðið í mörg partí“
Mótrök Searle voru sett fram sem hugartilraun (e. thought experiment). Í tilrauninni er maður læstur inni í herbergi. Í herberginu er yfirlitsskrá yfir kínversk tákn og handbækur sem veita leiðsögn um notkun táknanna. Yfirlitsskráin er gagnagrunnur, handbækurnar eru jafngildar forritum í hugartilraun Searle. Utan herbergisins er fólk (notendur) sem senda spurningar inn í herbergið sem eru skrifaðar með kínverskri táknskrift. Ef maðurinn í herberginu er fær um að svara spurningunum með því að nota yfirlitsskrána og handbækurnar þá stenst hann Turing-prófið án þess að skilja í raun hvað hann var að gera. Við getum sumsé ekki leitt skilning af tjáningu, jafnvel þótt tjáningin sé rétt í einhverjum skilningi þess orðs. Turing-prófið er ekki nægilega sterk vísbending um að vélar geti hugsað.
Eins og hugsun
Árið 2016 kom út bók eftir stjórnmálafræðingana Christopher Achens og Larry Bartels sem bar titilinn Democracy for Realists. Í bókinni er kafli sem ber yfirskriftina „It Feels Like We‘re Thinking“. Í kaflanum er sú hugmynd gagnrýnd að kjósendur taki upplýsta afstöðu eftir að hafa vegið og metið málefni og málflutning, að rannsóknir bendi frekar til þess að fólk halli sér almennt meira eða minna að mismunandi flokkslínum þeirra flokka sem þeim hugnast best.
Eitt af því sem leiðir af þessari hugmynd er að ef forysta Vinstri grænna myndi leggja til einkavæðingu bankanna myndi stór hluti meðlima flokksins og kjósenda hans taka upp þá afstöðu. Að sama skapi, ef forysta Sjálfstæðisflokksins mælti fyrir umtalsverðri hækkun barnabóta þá myndi stór hluti meðlima og kjósenda Samfylkingarinnar fyllast efasemdum um slíka aðgerð.
Flokkslínur virka þannig sem nokkurs konar forrit sem hjálpa meðlimum og kjósendum þeirra að vinna úr þeirri ofgnótt upplýsinga sem þarf til að réttlæta fyrir sjálfum sér að kjósa flokkinn sem maður hefði sennilega kosið hvort eð er.
Þegar við réttlætum atkvæðin okkar eftir á hljómar það eins og við höfum hugsað okkur vandlega um. Við upplifum það jafnvel þannig. Raunin er hins vegar í mörgum tilfellum að flokkslínan sparaði okkur vinnuna við að hugsa.
Stjórnmál án hugsunar?
Ég er leiðinlegi gaurinn sem á það til að pota í fullyrðingar pólitískra vina minna, ekki til að hrekja þær heldur bara til að tékka hvort þeir skilji í raun og veru það sem þeir eru að tala um. Ég ætla að svara augljósu spurningunni strax: Nei, mér er ekki boðið í mörg partí.
Það sem ég hef komist að er að undantekningarlítið geta frambjóðendur og fótgönguliðar stjórnmálaflokka hengt saman nokkrar fullyrðingar um helstu málefni sem hljóma eins og þau hafi í raun og veru hugsað um málefnið. Þau myndu öll standast Turing-prófið. En hver fullyrðing hvílir á gefnum forsendum og losaralegum skilgreiningum og þegar maður byrjar að pikka í þessa hluti verður oft fátt um svör. Það er vísbending um að skilningurinn sé ekki til staðar.
Þetta er ástæðan fyrir því að mikið af stjórnmálaumræðu spilast oft sirka svona: A kemur með fyrirsjáanlega fullyrðingu. B bregst við henni á fyrirsjáanlegan hátt. C bregst við A og B samkvæmt formúlu. A kemur til baka og bregst við B og C, ekkert í viðbragðinu kemur sérstaklega á óvart. Dálítið eins og leikrit þar sem allir eru bara að fara með línurnar sínar, nema leikskáld eru yfirleitt betri í atburðarás og persónusköpun en handritshöfundar stjórnmálaflokkanna.
Pólitík skiptir máli
Ef þetta væri pistill um gervigreind væri niðurstaðan sú að Turing-prófið sé gallað af því pólitíkusar myndu ná því. En þetta er pistill um pólitík. Í pistlunum mínum er það gjarnan í þessari málsgrein sem ég byrja að leggja til lausnir. Í þessu tilfelli hef ég engar. Þetta er bara pistill um af hverju mér leiðist pólitík. Pólitík skiptir ekki máli. Nema … hún getur skipt máli og á að gera það.
Athugasemdir