Það skímar af degi og ég geng framhjá Ingólfstorgi, enn þá svolítið syfjuð þó svo klukkan sé að ganga ellefu. Fyrsta vika nýs árs skríður af stað og á torgið er mættur hópur svartklæddra manna vopnaðir slöngum og dælum. Þeir sprauta vatni á jörðina og undan þeim bráðnar skautasvellið, sem þjónað hefur sínum tilgangi. Söngglaði afgreiðslumaðurinn er mættur í pulsuvagninn. Hann hendir hvítum brauðmolum út um upplýstan gluggann og offeitir þrestir grípa molana. Nýr dagur, nýtt ár.
Við viljum hugsa í línum. Sagan er lína, tíminn er lína. Helst viljum við sjá beinar línur; gróðalínur upp á við, kóvídlínur niðurávið. Upp og niður, út og suður. En það er svo margt sem beinar línur eiga ekki við. Margt sem fer í hlykkjum, gengur í bylgjum, er spírallaga, hringlaga. Á eftir vetri kemur vor, á eftir nóttu kemur dagur. Eftir erfiða tíma koma aðeins betri tímar. Við sofum, við vöknum, við lifum, við deyjum. Árstíðir eru hringir, rútínur eru spíralar.
Mér finnst eins og eftir því sem ég eldist kunni ég betur að meta mjúku, bugðóttu línurnar. Það er í þeim eitthvert náttúruform sem ber með sér þroska og visku. Tíminn hefur líka kennt mér að hver bugða og beygja hefur einhvern lærdóm falinn í sér. Að oft kemur dýrmætasta innsýnin eftir dýpstu lægðirnar. Myrkrið er besta framköllunarherbergið.
Kannski vegna þess sem tíminn hefur kennt mér geng ég inn í þetta nýja ár með óvænta tilhlökkun í kerfinu. Laus við aumingjahrollinn sem oft hefur fylgt áramótunum á mínum bæ, gagnvart þvinguðum heitum og óþarfa ambissjónum akkúrat á þeim tíma árs sem kona þarf mest á súkkulaði, rauðvíni og heimakúri að halda.
Allt er á hreyfingu, hverja einustu sekúndu er eitthvað sem deyr og eitthvað sem vaknar til lífsins. Allt hefur sinn gang og sinn tíma. Enginn tími ber þess eins skýrt vitni og þessi tími. Ég held göngunni áfram meðfram bryggjunni, þar sem sjómenn plokka jólaseríur eins og perlufestar af togurunum og stíma brattir inn í morgunskímuna.
Athugasemdir