Ég hef ekki verið frambjóðandi frá því við vorum sæt saman í kjöri til ritnefndar skólablaðs MR fyrir nokkrum árum. Er það heldur ekki núna.
Nú er ég tilnefningur.
–– ––
Samfylkingin í Reykjavík – flokkurinn sem ég verið í eftir að Alþýðuflokkurinn og Bandalag jafnaðarmanna hættu að vera formlega til – hann hefur blásið til uppstillingar á framboðslistum sínum.
Það er svolítið undarleg aðferð.
Við þekkjum gömlu prófkjörin, opin og lokuð, flokksval og hvað það heitir nú allt.
Sjálfstæðisflokkurinn átti heiðurinn af þeirri nýjung, Alþýðuflokkurinn tók hana skrefinu lengra á sínum tíma og loks ákvað Alþýðubandalagið – undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar – að veita öllum félagsmönnum atkvæðisrétt í formannskjöri, frekar en klíkulandsfundum.
Samfylkingin tók þennan sið upp, sem var alveg til fyrirmyndar.
Aðrir, Vinstri græn og Framsókn, hafa notað alls kyns aðferðir við val á framboðslista. En allajafna í þá átt, að sem flestir hefðu áhrif.
Samt – svo við séum nú alveg hreinskilin með það – réðst valið á aðferðinni hverju sinni hugsanlega meira af hagsmunum einstakra frambjóðenda en einberri lýðræðisást.
–– ––
Samfó í Reykjavík er hins vegar í alveg nýjum gír.
Hún ætlar að láta fámennan hóp fólks stilla upp á lista – aftur – þrátt fyrir tuttugu ára hefð um prófkjör með ýmsum blæbrigðum.
Nýi gírinn er sagður vera sænskur.
Í honum eru flokksmenn látnir tilnefna fólk, sem því þykja vænlegir kostir til framboðs. Í kjölfarið samþykkir þetta fólk, nú eða ekki, að vera með í úrtakinu.
Að því loknu fer fram „könnun“ meðal flokksmanna um hvernig þeim lítist yfirleitt á þetta fólk.
Um það gilda reglur, sem ég ætla að rekja stuttlega hér á eftir – ef þið eruð ekki nú þegar sofnuð.
En fyrst gerist ég persónulegur.
–– ––
Ég varð semsagt fyrir því óláni að vera „tilnefndur“ og þurfti að taka afstöðu. Ertu memm eða ekki?
Fyrsta hugsun var náttúrlega „eriggialltílæimeðyggur“?
En svo tók vitaskuld pólitíska forvitnin yfirhöndina. Þetta var alveg nýtt. Auðvitað er ég memm í svona tilraun.
Jafnvel sænskri.
Þótt ekki væri nema til að fylgjast með hvernig þetta gerist.
Ég sagðist gera það í nafni tveggja minnihlutahópa: Landsbyggðarinnar. Og anarkista, sem ættu sér engan málsvara lengur.
„Hvurn andskotann varðar þig annars um hjúskap minn og aðstæður?“
Þar með var ég sumsé orðinn tilnefningur.
Og þá fékk ég nú aldeilis bréfin.
Þó einkum um hvaða upplýsingar ég þyrfti að veita um sjálfan mig.
Það er með sérkennilegri lesningum seinni ára.
Nafn?
Það segir sig vonandi nokkurn veginn sjálft, eller hur? Annars varstu að senda bréf á rangan viðtakanda, ágæti flokkur.
Svo var spurt um hjúskaparstöðu og aðstæður.
Olræt. Skiptir máli að ég sé nýskilinn við manninn minn? Breytir það einhverju fyrir flokkinn? Eða hvers vegna þarf flokkurinn yfirleitt að vita um stöðuna á sambandi okkar?
En alltílæ. Öll erum við nú að skilja hist og her dagana langa. Sum oftar en önnur. En sum hver aldrei.
En flokkurinn vill vita þetta. Hvers vegna?
Krafan er samt umfangsmeiri.
Hún er líka um „aðstæður.“
Aðstæður?
Jú, takk, ágæti flokkur, aðstæður eru alls konar.
Rúmið er þægilegt. Engin uppþvottavél, en ég kann að vaska upp.
Eða vildirðu vita hvort vaskurinn væri stíflaður? Nágranninn spili Stranglers of hátt?
Hvað í himninum fær þig til að vilja vita um aðstæður mínar?
Og ætlastu virkilega til þess að fá svar?
Hvurn andskotann varðar þig annars um hjúskap minn og aðstæður?
Og hvað kemur það þessu sænska verkefni í Reykjavík við?
Hvurslags eiginlega spurningar eru þetta?
Forláttu orðbragðið.
Stundum ber undrunin kurteisina ofurliði.
–– ––
En það er ekki eins og maður sé orðinn forframaður frambjóðandi, eins og skilja mætti af fréttum fjölmiðla um að alls kyns gott fólk „sækist eftir sæti ofarlega á lista“.
„Þarna er hvorki lýðræði né raunverulegt val, heldur flokksnefnd sem ræður niðurstöðunni“
Þetta sænska sýstem virkar ekki þannig. Það er ekki hægt að sækjast eftir sæti. Nema maður hringi í einhvern í uppstillingarnefndinni og heimti það. Sem virkar mjög sennilega ekki.
Fólk er tilnefnt og svo fær flokksfólk að haka við tíu manns, ekki í neinni röð samt. Ef þú vilt Ölmu, Þórólf líka, og alveg endilega Víði, þá vigta öll atkvæði til þeirra jafnt.
Uppstillingarnefndin fær svo nafnalista, fimm í senn – ekki eftir fjölda „atkvæða“ – nei, það væri of einfalt eða jafnvel lýðræðislegt. Hún fær nöfnin í stafrófsröð.
Alma – Víðir – Þórólfur – alveg óháð því hver fékk flest „atkvæði.“
Svo fær hún næsta skammt – fólkið í b-deildinni með Fram og Leikni.
Að svo búnu sezt nefndin niður og fer að raða á lista.
Hún þarf ekki einu sinni að taka mark á niðurstöðunni. Ef niðurstöðu má kalla.
Í reglu nefndarinnar númer fimm segir svo:
„Nefndin tekur mið af niðurstöðum könnunarinnar í vinnu sinni en er jafnframt heimilt að bæta við nöfnum.“
–– ––
Svíar eru ágætir, eða voru það að minnsta kosti einu sinni.
Hugmyndir þeirra um sóttvarnir ættu kannske að segja okkur eitthvað.
Þessi sérkennilega aðferð við að velja fólk á framboðslista er hugsanlega verri, af því að hún er sett fram í nafni einhvers konar lýðræðis.
Það er tómt hjóm og húmbúkk.
Þarna er hvorki lýðræði né raunverulegt val, heldur flokksnefnd sem ræður niðurstöðunni.
Eftir þessum reglum hefði Vilmundur Gylfason aldrei náð hærra en tólfta sæti á lista Alþýðuflokksins, svona rétt til skrauts, af því að hann þótti fremur skemmtilegur.
Sjálfur ætla ég að vera tilnefningur alveg til þrautar.
Þótt ekki væri nema til að fylgjast með þessari sænsku tilraun til enda.
Og hugsa fallega til lýðræðisins.
Athugasemdir