2020 áttaði mannkynið sig á því að heimsfaraldrar eru ekki bara söguleg fyrirbæri heldur raunveruleg ógn nú sem fyrr. Um sumt svipað og árið 2008, þegar Vesturlandabúar uppgötvuðu að fjármálakrísur eru ekki bara söguleg fyrirbæri eða hlutskipti fátækra landa heldur merki um óleyst vandamál, jafnvel í ríkustu löndum heims.
Við uppgötvuðum líka að það er hægt að gerbreyta mannlífi og efnahagslífi nánast á einni nóttu. Það voru ekki bara handaböndin sem lögðust af, stór hluti mannlegra samskipta færðist yfir á misstóra tölvuskjái. Það þurfti bara smá þjálfun. Muna að slökkva á hljóðinu þegar við þegjum. Kveikja þegar við höfum eitthað að segja. Hafa myndavélina í gangi. Nú eða slökkt. Ekki sitja með bakið að glugga. Vera snyrtilega til fara. Að minnsta kosti fyrir ofan mitti.
Starf háskólakennarans endurspeglaði þetta vel. Stundum var kennslan eins og að tala við örbylgjuofninn. Allir áhorfendur þögulir og með slökkt á myndavélinni. Stundum var líf og fjör. Jafnvel óvart, þegar gæludýr eða ung börn ruddust inn í beina útsendingu.
Kennslan verður aldrei söm aftur, jafnvel þótt kennslustofurnar opni aftur. Fjármálakerfið breyttist hins vegar furðulítið eftir 2008. Nýjar kennitölur fyrir alla auðvitað og einhverjar breytingar á regluverki til hins betra en annað er svipað og áður. Það verður varla undið ofan af 2020-áhrifunum með sama hætti. Kannski kemur handabandið aldrei aftur.
Fjarfundir, fjarráðstefnur og fjarverslun munu lifa og hefðu sjálfsagt orðið reglan hvort eð er fyrr eða síðar. Það er auðvitað afar frumstætt að ferja fólk fram og til baka um heiminn með miklum tilkostnaði, og þungu vistspori, til þess eins að tala saman. Svo ekki sé minnst á leitina að bílastæði. Miklu auðveldara að kveikja bara á myndavélinni í tölvunni. Jafnvel hægt að vera á fleiri en einum fundi í einu. Fjartý munu líka lifa, þótt sem betur fer muni fólk líka hittast og gera sér glaðan dag saman eftir faraldur, jafnvel án grímu og 2 metra reglu. Það verða líka haldnir tónleikar aftur, ekki bara heima hjá Helga.
Þannig að við lærðum að nýta okkur skilvirkari samskiptaleiðir. Við lærðum líka fullt um veirur. Fylgdumst spennt með þróun R. Alveg eins og að 2008 lærðum við fullt um skuldatryggingaálag og þrautalánveitendur. Hvað lærum við næst? Talsverðar líkur á því að fyrir Íslendinga verði það á sviði jarðfræði. Er ekki enn órói á Reykjanesi?
Við lærðum líka að meta sannleikann, vísindin og heilbrigða þjóðfélagsumræðu. Umburðarlyndi og frjálslyndi líka. Reyndar metum við þetta ekki öll. Heimurinn skiptist í tvennt hvað það varðar. Þróunin byrjaði ekki 2020 en faraldurinn virtist magna skiptinguna. Ýta undir það versta í sumum, útlendingahatur, margs konar fordóma og einbeittan vilja til að hlusta ekki á aðra en þá sem voru sama sinnis. Velja sér staðreyndir eftir þörfum. Búa þær til á staðnum.
Samfélagsmiðlar auðvelduðu vinnuna. Það þarf enginn lengur að heyra í öðrum en þeim sem flytja þann boðskap sem hlustandinn velur. Við getum valið okkur bergmálshelli. Bandaríkjaforseti sagðist hafa unnið kosningar með miklum mun. Þótt hann hafi tapað illa. Hirðin þvertók einum rómi fyrir að keisarinn væri nakinn. Flestir kjósendur hans trúðu þessu. Hvítt varð svart, eins og í sirkus Geira Smart. Stríðið gegn staðreyndum virðist unnið. Hnattræn hlýnun var með sömu rökum samsæri kommúnista. Faraldurinn líka.
Það verður ekki hlaupið að því að snúa þessari þróun við. Ekkert bóluefni við henni í sjónmáli frá Pfizer og félögum. Enn síður frá Rússlandi.
Heilbrigt lýðræðiskerfi ætti þó á endanum að ná að hrista af sér lýðskrum og hatur. Lýðræðið fetar að sönnu ekki alltaf stystu leiðina og ferðalagið er sjaldnast fagurt ásýndar. Raunar hefur verið fullyrt að lýðræði sé ómögulegt stjórnskipulag, það eina sem það hafi sér til ágætis sé að vera skárra en öll önnur. Kannski er það rétt. Heilbrigði lýðræðisins er hins vegar ekki sjálfgefið, það sáum við víða um heim árið 2020. Því þarf að standa vörð um það. Það er mikilvægasti lærdómurinn sem ætti að draga af atburðum ársins 2020.
Athugasemdir