Við erum vön því að hugsa um ójöfnuð og misskiptingu sem lóðrétta. Neðst eru þau sem hafa minnst og efst þau sem hafa mest og svo röðumst við hin þar á milli. Ójöfnuðurinn á sér þó ýmsar birtingarmyndir og ein þeirra er hvernig tekjur, eignir, menntun, vald, virðing, félagslegur auður og menningarauður dreifast yfir svæði. Við getum kallað það landfræðilega misskiptingu.
Misskipting á milli svæða á sér tvær megin orsakir. Sú fyrri er að þrátt fyrir að fólki sé frjálst að velja sér búsetu er frelsinu á húsnæðismarkaði misskipt. Húsnæðisverð er svo mismunandi á milli svæða og ræðst af fjölda þátta svo sem stærð húsnæðis og gæðum þess auk ýmissa kosta sem fylgja staðsetningu. Af því leiðir að fólk hefur meira val um búsetu því hærri tekjur sem það hefur og því meiri eignir sem það á. Þá hefur menntun áhrif á möguleika fólks til að afla sér tekna í framtíðinni sem getur haft áhrif á aðgengi að lánsfé til húsnæðiskaupa. Í stuttu máli, fólk með meira á milli handanna hefur ráð á húsnæði í „betri“ hverfum en fólk sem hefur minna.
Seinni orsökin liggur í landfræðilegu misskiptingunni sjálfri. Svæðið sem við ölumst upp á hefur áhrif á möguleika okkar í lífinu. Það eru ekki bara þær bjargir sem uppeldisheimilið hefur yfir að ráða heldur einnig þær bjargir sem eru í grenndarsamfélaginu, svo sem fyrirmyndir, almenn viðhorf til menntunar, rödd í þjóðmálaumræðunni til að krefjast úrbóta og svo tengslanet barnanna sem verða til í skólum og tómstundastarfi. Það er auðvitað alltaf eitthvert fólk sem elst upp í hverfum sem búa yfir takmörkuðum auð sem nær að skapa sér góð lífskjör og verða þá dæmi um félagslegan hreyfanleika. Þessir einstaklingar nýta þó ósjaldan það aukna frelsi á húsnæðismarkaði sem leiðir af bættum kjörum til að flytja á eftirsóknarverðari svæði.
Nýjar rannsóknarniðurstöður
Í nýjasta hefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla birtist grein upp úr rannsókn sem ég á aðkomu að. Greinin er skrifuð af Berglindi Rós Magnúsdóttur, dósents á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Auði Magndísi Auðardóttur, doktorsnema við sama svið, og svo sjálfum mér. Mér er ljúft og skylt að taka fram að uppleggið var þeirra Berglindar og Auðar en ég kom inn í rannsóknina á seinni stigum. Mitt framlag var fyrst og fremst í formi gagnagreininga en heiðurinn af verkinu er þeirra.
Í greininni er fjallað um skiptingu ýmiss konar auðs á milli skólahverfa á höfuðborgarsvæðinu og hvernig sú skipting hefur þróast yfir tíma. Sjónarhornið er heimili barna enda markmiðið að gefa mynd af aðstöðumun barna í mismunandi hverfum út frá ójöfnu aðgengi að tegundum ýmiss konar auðs sem hefur áhrif á möguleika þeirra í lífinu.
Annars vegar er um að ræða auð í formi fjármagns, það er efstu fimmtunga eigna og tekna, en hins vegar í formi menntunar, það er framhaldsmenntun á háskólastigi sem og menntun sem veitir fyrst og fremst táknrænan menntunarauð (sem má ef til vill skilja sem eina tegund af menningarauði). Rannsóknin spannar tímabilið 1997 til 2016 og byggir á gögnum frá Hagstofu Íslands. Niðurstöðurnar sýna hvernig framangreindum auð er misskipt á milli svæða á höfuðborgarsvæðinu og hvernig sú misskipting þróaðist á tímabilinu sem um ræðir.
Hin ríku urðu ríkari
Árið 2016 var umtalsverður munur á eignaskiptingu á milli hverfa en 35,9% barna í því hverfi þar sem mestar eignir voru bjuggu á heimili í efsta fimmtungi dreifingar eigna á landsvísu en í því hverfi þar sem eignir voru minnstar var hlutfallið aðeins 0,6%. Ef við umreiknum muninn á milli hverfa í líkindahlutföll (e. odds-ratios) þýðir þetta að líkindin á því að barn búi á einu af 20% eignamestu heimilum samfélagsins eru tæplega 93 sinnum hærri í eignamesta hverfinu en í því eignaminnsta.
Munurinn á mill hverfa jókst einnig á tímabilinu 1997 til 2016. Árið 1997 var hlutfall barna á heimilum í efsta eignafimmtunginum 20% í eignamesta skólahverfi þess tíma en 0,3% í því eignaminnsta. Þó hlutfallið hafi óneitanlega hækkað í eignaminnsta hverfinu hækkaði það minna en í því eignamesta, eða 0,3 samanborið við 15,9 prósentustig.
Það var líka mikill munur á skiptingu tekna á milli hverfa. Árið 2016 bjuggu 50,5% barna í tekjuhæsta hverfinu á heimilum í efsta fimmtungi tekjudreifingarinnar á landsvísu en aðeins 3,5% í tekjulægsta hverfinu. Munurinn á milli hverfa hafði einnig aukist á milli hverfa á tímabilinu sem var til skoðunar en árið 1997 bjuggu tæplega 33% barna í tekjuhæsta hverfinu á heimili í efsta tekjufimmtungi en aðeins 5,2% í tekjulægsta hverfinu. Munurinn jókst þar af leiðandi bæði vegna þess að tekjuhæstu hverfin juku forskot sitt og þau tekjulægstu drógust aftur úr.
Við þetta má bæta að tekjuhæsta skólahverfið árið 2016 var líka eignamesta skólahverfið það ár. Tekjulægsta hverfið var að sama skapi eignaminnsta hverfið árið 2016 en hafði jafnframt verið tekjulægst og eignaminnst árið 1997. Bág tekju- og eignarstaða hverfisins var þannig viðvarandi ástand yfir þá tvo áratugi sem gögnin náðu yfir.
Menntun er líka misskipt
Misskiptingin á milli hverfa jókst einnig hvað varðar menntun. Í því hverfi sem bjó yfir mestri menntun bjuggu 21,1% barna á heimili þar sem að minnsta kosti annað foreldrið hafði lokið framhaldsmenntun á háskólastigi árið 1997 en í því hverfi sem bjó yfir minnstri menntun var hlutfallið 1,2%. Árið 2016 voru hlutföllin komin í 50,5% í hverfinu sem bjó yfir mestri menntun en 4,1% í því sem bjó yfir minnstri slíkri. Munurinn fór úr tæpum 20 prósentustigum í næstum 46,5 prósentustig. Hverfið sem bjó yfir mestri menntun var að sama skapi hverfið þar sem tekjur voru hæstar og eignir mestar. Að sama skapi var hverfið þar sem menntun var minnst einnig tekjulægsta og eignaminnsta hverfið. Þessi hverfi voru jafnframt sömu hverfi og bjuggu yfir mestri/minnstri menntun foreldra árið 1997.
Af hverju skiptir þetta máli?
Eins og ég kom inn á í inngangi þessa pistils þá hafa þær bjargir sem eru í nærumhverfinu áhrif á möguleika barna í lífinu. Það að eignum, tekjum og menntun sé misskipt á milli skólahverfa á höfuðborgarsvæðinu þýðir að börn á tilteknum svæðum hafa umtalsvert forskot á meðan börn á öðrum svæðum hefja lífshlaupið með refsistig á bakinu. Það að munurinn á milli hverfa hafi aukist umtalsvert á tveggja áratuga tímabili þýðir jafnframt að aðstöðumunur barna eftir því hvar þau búa hefur aukist. Ef við sjáum lífið sem kapphlaup má segja að börnin í best settu hverfunum hefji hlaupið mun framar en þau sem búa í verst settu hverfunum og mun framar en börn úr sömu hverfum tveimur áratugum áður.
Það er á vissan hátt erfitt að sporna við landfræðilegri misskiptingu enda er hún sjálfsprottin af „frjálsu“ vali einstaklinga. Ég set frelsið í gæsalappir því það er mikilvægt að hafa í huga að frelsi í búsetuvali er mjög misskipt út frá tekjum, eignum og öðrum björgum. Það er ekki þar með sagt að það séu ekki til nein úrræði. Það er til dæmis hægt að hafa áhrif á búsetuval með borgarskipulagi, til dæmis með því að hafa félagslega og efnahagslega blöndun byggðar að leiðarljósi við uppbyggingu eða þróun hverfa og tryggja framboð af mismunandi gerðum húsnæðis og misdýru húsnæði innan sama svæðis.
Þá má fjárfesta í uppbyggingu svæða, til dæmis verja auknu fé í skóla á svæðum sem standa höllum fæti, rækta upp félagslegan og menningarlegan auð og byggja upp atvinnustarfsemi. Á endanum er svæðisbundin misskipting þó alltaf bara ein af birtingarmyndum misskiptingar almennt og það þarf að taka á henni sem slíkri, til dæmis með því að auka valfrelsi þeirra tekjulægstu með því að bæta kjör þeirra.
Athugasemdir