Opnað hefur verið fyrir umsóknir vegna sérstakra íþrótta- og tómstundastyrkja fyrir börn frá tekjulágum heimilum. Um er að ræða efndir á loforði ríkisstjórnarinnar sem boðaðar voru í aðgerðapakka 2 vegna COVID-19 frá því í apríl. Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 var sérstaklega tiltekið að styrkina ætti að veita til að „öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir í sumar.“ Það gekk ekki eftir.
Stundin greindi frá því í september að ekki hefði verið staðið við loforð um frístundastyrki þrátt fyrir að í fjáraukalögum, sem voru afgreidd sem lög frá Alþingi 11. maí síðastliðinn, hefði verið heimild upp á 600 milljónir króna í sértækan stuðning til sveitarfélaga til að veita styrki til tekjulágra heimila í því skyni að öll börn gætu stundað íþróttir og aðrar tómstundir óháð efnahag. Fjárheimild hefur því legið fyrir í sex mánuði án þess að vera nýtt.
Samkvæmt svörum frá félagsmálaráðuneytinu til Stundarinnar í september var stefnt að því að opna fyrir umsóknir í októbermánuði. Það gerðist hins vegar ekki fyrr en nú.
Styrkirnir sem um ræðir koma til viðbótar hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum sveitarfélaganna. Hægt er að sækja um styrk fyrir börn fædd á árunum 2005-2014 sem búa á heimili þar sem heildartekjur heimilis voru að meðaltali lægri en 740 þúsund krónur á mánuði á tímabilinu mars-júlí 2020. Sveitarfélögin annast afgreiðslu styrkjanna.
Um 13 þúsund börn eiga rétt á styrknum, sem nemur 45 þúsund krónum á barn. Það er lægri upphæð en lofað var í kynningu á aðgerðum að upphæðin yrði 50 þúsund krónur á barn.
Athugasemdir