Elísa hét einn af spámönnum Jave í Gamla testamentinu. Hann var í upphafi nánasti aðstoðarmaður Elía spámanns, en eftir að Elía varð uppnuminn til himna varð Elísa aðalmaðurinn.
Í öðrum kapítula annarrar Konungabókar Gamla testamentisins segir frá því að Elísa hreinsaði eitrað vatnsból borgarinnar Jeríkó með því að kasta í það salti og blessa það.
Vatnið hafði valdið fósturmissi hjá konum en komst nú í samt lag aftur.
Þaðan hugðist Elísa halda til bæjarins Betel skammt frá Jerúsalem.
Segir þvínæst í Konungabókinni:
„Komdu hingað, skalli!“
Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans:
„Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!“
Sneri [Elísa] sér þá við, og er hann sá [smásveinana], formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum.“
Ekki virðist höfundi Konungabókar þykja ástæða til að gera of mikið veður út af því þótt guð sendi tvær birnur til að drepa 42 ungpilta. Því hann heldur bara áfram:
„Þaðan fór [Elísa] til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.“
Þessi stutti kafli í Konungabók er eitt af mörgum dæmum þess að guð Gamla testamentisins er ekki „góður guð“ í neinum venjulegum skilningi, hann er þvert á móti afprýðisamur, grimmur, dyntóttur og hefnigjarn.
Þótt ótrúlegt megi virðast þá halda kristnir bókstafstrúarmenn á netinu, ekki síst í Bandaríkjunum, uppi eindregnum vörnum fyrir drápsæði guðs og Elísa við þetta tækifæri.
„Að sýna guði fyrirlitningu er dauðasök“
Á Biblíusíðu einni eru birt svör tveggja þeirra við spurningum sem þessi ritningarstaður kunni að vekja:
„Í fyrsta sinn var sök ungu mannanna stór. Með því að hæðast að spámanni guðs voru þeir í raun að niðurlægja guð sjálfan [...] Svo var það ekki Elísa sem svipti [ungu mennina] lífi heldur guð sjálfur þegar hann stýrði birnunum til að ráðast á þá. Ljóst er að með því að hæðast að þessum guðsmanni þá sýndu ungu mennirnir raunverulegan hug sinn til guðs sjálfs.
Að sýna guði fyrirlitningu er dauðasök. Í Biblíunni segir ekki að Elísa hafi beðið um nákvæmlega þetta. En þetta var greinilega refsing guð til handa þessu ósvífna gengi.“
Og þá er allt fínt, greinilega.
Athugasemdir