Drífa tók á móti blaðamanni á húsnæði Alþýðusambands Íslands á fallegum haustmorgni. Þetta var í miðri deilu ASÍ og SA. Samtök atvinnulífsins höfðu haft uppi stór orð um forsendubrest og mögulega uppsögn lífskjarasamninganna. Drífa átti þátt í gerð samninganna sem þóttu marka tímamót í vinnumarkaðsmálum á Íslandi meðal annars vegna umfangs þeirra, aðkomu stjórnvalda og þess að þeir beinast fyrst og fremst að lágtekjufólki.
Ekki var annað að sjá en að Drífa væri sallaróleg þrátt fyrir moldviðrið sem deilan hafði skapað í fjölmiðlum. Síðar átti eftir að koma í ljós að ekkert varð úr stóru orðunum. Kannski sér Drífa lengra en nef hennar nær.
Við komum við á kaffistofunni og helltum eldheitu kaffi í krúsir. Drífa notar alltaf sama bollann, eins og þeir sem hafa horft á kvöldfréttir að undanförnu hafa eflaust tekið eftir. Rauðan múmínbolla með mynd af Míu litlu. Í dag var engin undantekning á því. Fyrsta spurningin var því óhefðbundin og úr samhengi við allt.
Drífa, ertu aðdáandi múmínfjölskyldunnar?
Drífa hlær „Já, það er reyndar saga að segja frá þessum bolla. Þannig var að þegar ég bauð mig fram sem forseta ASÍ þá var ég teiknuð sem Mía litla af skopmyndateiknara Morgunblaðsins og fékk þennan bolla að gjöf frá vini mínum í kjölfarið. Þessi bolli hefur fylgt mér mína forsetatíð. Þetta er bara minn bolli hérna á skrifstofunni.“ segir hún sposk.
Fyrir þá sem hafa ekki sett sig inn í múmínpólitíkina er vert að geta að Mía litla er lágvaxin, stjórnsöm og ákveðin. Henni tekst nær alltaf að fá fólk á sitt band og oftar en ekki kemur í ljós að aðferðir hennar, sem virka stundum öfgafullar á yfirborðinu eru þær áhrifaríkustu.
Við komum okkur fyrir í þægilegum sófa á skrifstofunni hennar og snúum okkur að stóru málunum.
„Róttækasti vettvangurinn í dag“
Hvers vegna valdirðu að starfa að verkalýðsmálum?
„Þetta er bara einhvern veginn mest spennandi vettvangurinn, róttækasti vettvangurinn í dag. Þetta er vettvangurinn þar sem hlutirnir eru að gerast og möguleiki er á að hreyfa við hlutum, hafa áhrif og bæta kjör fólks. Mér finnst það vera mest spennandi barátta sem hægt er að heyja,“ segir Drífa. „Ég held líka að uppeldið hafi haft mikið að segja. Afi minn var varaforseti ASÍ þannig að ég óst upp við miklar umræður um verkalýðsmál. Ég fór snemma að taka þátt í pólitík sjálf, varð til dæmis formaður Iðnnemasambandsins í tvö ár á tíunda áratugnum. Síðan hef ég bara alltaf dottið niður í vinnumarkaðsmál, bæði þegar ég fór í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, en þá endaði ég á að skrifa lokaritgerð um kjarasamningsgerð og svo þegar ég fór í meistaranám í vinnumarkaðsfræði.“
„Afi minn var varaforseti ASÍ þannig að ég óst upp við miklar umræður um verkalýðsmál“
Hvað meinarðu með því að verkalýðsbarátta sé róttækasti vettvangurinn í dag?
„Það er hægt að koma á miklu róttækari breytingum í gegnum verkalýðshreyfinguna sem þrýstiafl heldur en að vera að dundast í einhverjum stjórnmálaflokki. Sagan kennir okkur að öll þessi kerfi, þessi öryggiskerfi og sú velferð sem við höfum byggt upp hefur orðið, meira eða minna vegna þrýstings vinnandi fólks og verkalýðshreyfinga, það er bara þannig. Hvort sem við erum að tala um lífeyrinn okkar, sjúkratryggingar, fæðingarorlofið eða hvað sem við erum að tala um.“
Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur sagt að of miklar launahækkanir valdi verðbólgu eða auknu atvinnuleysi. Hann segir að þetta sé ein af þeim staðreyndum eða lögmálum sem ekki er lengur deilt um.
Hafnar þú því að launahækkanir nú leiði til verðbólgu eða aukins atvinnuleysis?
Athugasemdir