Árni Helgason, formaður þingmannanefndar um málefni útlendinga og innflytjenda, var nefndarmaður í kærunefnd útlendingamála áður en hann tók að sér formennsku í nefndinni. Árni leiðir því vinnu sem hefur það markmið að fjalla um verklag sem hann sjálfur tók þátt í að móta hjá kærunefnd útlendingamála um árabil.
Árni var nefndarmaður í kærunefnd útlendingamála á árunum 2016 til 2020 og tók á þeim tíma þátt í að úrskurða um fjölmörg mál er inn á borð nefndarinnar komu. Meðal annars skrifaði Árni undir úrskurð nefndarinnar þar sem synjun Útlendingastofnunar á umsókn Khedr-fjölskyldunnar egypsku, sem fjallað hefur verið um síðustu daga, um alþjóðlega vernd hér á landi var staðfest, í nóvember á síðasta ári.
Hlutverk þingmannanefndarinnar er að vera til samráðs um framkvæmd útlendingalaga og „eftir atvikum endurskoðun laga og reglugerða á málefnasviðinu með mannúðarsjónarmið og skilvirka þjónustu til grundvallar,“ eins og segir á vef stjórnarráðsins. Nefndin var fyrst skipuð í byrjun árs 2014 af innanríkisráðherra til að kanna þörf á heildarendurskoðun laga um útlendinga.
Í júlí á síðasta ári boðaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þá starfandi dómsmálaráðherra að útlendinganefndin, eins og hún var kölluð, yrði endurvakin en hún hafði þá verið óvirk um skeið. Í september á síðasta ári skipaði dómsmálaráðherra svo Hildi Sverrisdóttur formann nefndarinnar. Árni tók hins vegar við formennskunni í lok maí síðastliðins.
Athugasemdir