Atvinnuleysi er í grunninn einfalt fyrirbæri. Fólk er atvinnulaust ef það 1) er ekki í vinnu; 2) vill vinna; og 3) getur hafið störf innan tiltekins tíma. Í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands er fólk til dæmis skilgreint sem atvinnulaust ef það var án vinnu í tiltekinni viku, ef það hafði leitað að vinnu undanfarnar fjórar vikur og var tilbúið að byrja að vinna innan tveggja vikna frá þessari tilteknu viðmiðunarviku, en þessi skilgreining er í samræmi við skilgreiningar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hugmyndin er sú að það sé ekki nóg að vera án vinnu til að vera atvinnulaus heldur þurfi maður að vera að leita sér að nýju starfi. Ef ekki, þá er maður ekki lengur virkur á vinnumarkaði.
Við komumst hins vegar ekkert sérlega langt með skilgreiningar á mælingum atvinnuleysis. Það er auðvitað gagnlegt að vita hvað er verið að segja þegar það er sagt og svo og svo margir einstaklingar séu atvinnulausir en hvað varðar stefnumótun og viðbrögð stjórnvalda er í mun fleiri horn að líta en bara á tölur og skilgreiningar. Þær aðstæður sem eru uppi á vinnumarkaðnum hafa nefnilega töluverð áhrif á hvaða úrræði eru heppileg. Það sem virkar í einum aðstæðum gerir það ekki endilega í öðrum.
Atvinnuleysi á Íslandi
Ísland hefur lengi notið þess að atvinnuþátttaka hér hefur almennt verið mikil og atvinnuleysi fremur fátítt. Í venjulegu árferði er atvinnuleysi í flestum tilfellum til mjög skamms tíma, fólk er fyrst og fremst á milli starfa. Í slíkum aðstæðum er engin sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af atvinnuleysi eða láta það hafa forgang við stefnumótun. Þeir fáu einstaklingar sem festast í langtímaatvinnuleysi gera það hugsanlega vegna þess að það skortir önnur úrræði í velferðarkerfið sem ættu betur við eða vegna einstaklingsbundinna þátta. Atvinnuleysistryggingakerfið þarf þá aðeins að bera fólk í skamman tíma þar til það kemst aftur í vinnu.
Atvinnuleysi í kjölfar áfalla
Þegar atvinnuleysi eykst á Íslandi er það gjarnan í kjölfar efnahagslegra áfalla. Hrunið er nærtækt dæmi og vaxandi atvinnuleysi nú í kjölfar COVID-19 er þeirrar gerðar líka. Aðstæður gera það að verkum að eftirspurn eftir vinnuafli dregst snarlega saman. Það sem gerir þetta ástand frábrugðið því sem við höfum mátt venjast á Íslandi er að það er umfram framboð af vinnuafli sem þýðir að færri fá störf en vilja. Í þessum aðstæðum er sérkennilegt að hafa of miklar áhyggjur af því að örlæti velferðarkerfisins letji fólk til vinnu þar sem vandamálið er fyrst og fremst að það eru ekki nógu mörg störf. Þvert á móti skiptir meira máli að verja afkomu fólks og ýta þannig undir eftirspurn í hagkerfinu.
Viðvarandi atvinnuleysi
Í sumum nágrannalöndum okkar hefur atvinnuleysi verið viðvarandi vandamál um allnokkurt skeið. Sem dæmi má nefna að á tímabilinu 2003–2019 var atvinnuleysi á ársgrundvelli minnstí Frakklandi árið 2008, eða 7,1%, samkvæmt tölum Eurostat, en er flest önnur ár á bilinu 8–10%. Til samanburðar má nefna að samkvæmt sömu heimild varð atvinnuleysi á ársgrundvelli hæst 6,6% á Íslandi í kjölfar hrunsins, það er árið 2010. Slíkt atvinnuleysi verður gjarnan landlægt í tilteknum þjóðfélagshópum sem búa við jaðarsetningu í samfélaginu. Lengi vel var ráðið við slíkum aðstæðum að reyna að auka sveigjanleika vinnumarkaðar með því að breyta regluverkinu eða auka sveigjanleika í launasetningu. Í seinni tíð hefur áherslan færst í auknum mæli á virkniaukandi aðgerðir og starfsgetumat. Niðurstöður rannsókna á árangur framangreindra úrræða hafa ekki verið sérlega afgerandi en það blasa svo sem ekki við neinar sérstakar lausnir á því vandamáli þegar atvinnuleysi festir rætur í samfélaginu.
Langvarandi atvinnuleysi hefur tilhneigingu til að herða lagskiptingu samfélagsins
Ísland hefur blessunarlega sloppið við þessa gerð atvinnuleysis. Það skrifast samt tæplega á stefnumótun heldur virðist fremur vera um heppni að ræða. Það er hins vegar ekkert sjálfgefið að lánið haldi áfram að leika við okkur. Það er auðvitað ekki útilokað að eitthvað nýtt og betra bíði handan núverandi kreppu en það er mjög erfitt að treysta á það. Hvernig sem á það er litið hefur hið opinbera mikilvægu hlutverki að gegna til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði viðvarandi á Íslandi, til dæmis með vandaðri atvinnustefnu og svo með því að búa til störf. Seinni hugmyndinni er gjarnan andmælt á þeim forsendum að það geri engum gott að grafa skurð að morgni til að fylla í hann að kveldi. Það þarf þó ekki að litast um lengi til að sjá að það eru þarfari verk að vinna, að starfsmannavelta og kulnun í vissum starfsstéttum er skýr vísbending um að það sé þörf fyrir fleiri hendur, til dæmis í menntakerfinu, umönnunarþjónustu og svo við löggæslu.
Langvarandi atvinnuleysi hefur tilhneigingu til að herða lagskiptingu samfélagsins sem og hvers kyns jaðarsetningu, annaðhvort með því að bætast við sem auka áhrifaþáttur eða með því að búa til átakalínu á milli hinna starfandi og þeirra atvinnulausu.
Árstíðabundið atvinnuleysi
Stundum tengist atvinnuleysi árstíðabundnum sveiflum í atvinnugreinum. Ferðamannaiðnaðurinn er ágætt dæmi um atvinnugrein sem sveiflast á fyrirsjáanlegan hátt yfir árið, hækkar framan af ári og nær svo hámarki í júlí og ágúst en svo hægir aftur á það sem eftir lifir árs. Kjarni málsins er að eftirspurn eftir vinnuafli í slíkum greinum er breytileg yfir árið. Kúnstin er þá að tryggja framboð af annars konar störfum á þeim árstíma sem eftirspurnin er minni eða þá að beita atvinnuleysisbótakerfinu til að halda fólki uppi þegar atvinnugreinin er í árstíðabundinni niðursveiflu.
Svæðisbundið fjöldaatvinnuleysi
Þegar atvinnuleysi eykst mikið á tilteknu svæði þá breytist eðli vandans og þá sérstaklega ef það ástand varir lengi. Fyrir fólk sem missir vinnuna getur verið erfiðara að finna vinnu á sínu atvinnusvæði en ella og það getur dregið máttinn úr fólki. Það hefur líka mikil áhrif á bæjarlífið. Minni eftirspurn vegna fjölgunar atvinnulausra hefur neikvæð áhrif á tekjur og atvinnu annarra, auk þess sem þátttaka atvinnulausra í bæjarlífinu er gjarnan minni en annarra. Jafnvel fólkið sem heldur störfum sínum þarf að glíma við nokkurs konar „survivor‘s guilt“ og í mörgum tilfellum við viðvarandi atvinnuóöryggi, en rannsóknir sýna að ótti við atvinnumissi getur haft slæmar afleiðingar fyrir andlega og líkamlega heilsu fólks.
Þegar atvinnuleysi verður mikið og langvarandi á tilteknu svæði getur það orðið gróðrarstía fyrir hvers kyns félagsleg vandamál
Þegar atvinnuleysi verður mikið og langvarandi á tilteknu svæði getur það orðið gróðrarstía fyrir hvers kyns félagsleg vandamál sem getur reynst erfitt að vinna á og haft þannig langvarandi áhrif á samfélagið og hamlað frekari uppbyggingu. Það er erfitt að negla niður nákvæmlega hve mikið atvinnuleysi og hve langvarandi það þarf að vera til að allt fari í óefni og líklega er það breytilegt á milli svæða og yfir tíma. Það er hins vegar ekki fýsilegt að láta reyna á það. Það er til mikils að vinna að stjórnvöld bregðist hratt og örugglega við til að forða því að mikið atvinnuleysi verði viðvarandi á tilteknum svæðum. Fréttir undanfarinna vikna benda til dæmis til þess að ástandið sé sérstaklega alvarlegt á Suðurnesjum og mikilvægt að stjórnvöld taki það mjög alvarlega.
Verkefnin fram undan
Atvinnuleysi er alls konar og því er mikilvægt að skilja bæði eðli og umfang þess atvinnuleysis sem er verið að eiga við og ekki gefa sér að almennar þumalputtareglur, sem hafa kannski gefist vel í öðrum aðstæðum, eigi endilega við. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir eru ekki að tryggja nægilegt framboð af vinnuafli heldur að auka eftirspurnina eftir því, í fyrsta lagi til að tryggja að atvinnuleysi verði ekki viðvarandi vandamál á Íslandi og í öðru lagi til að tryggja að fjöldaatvinnuleysi verði ekki viðvarandi vandamál á tilteknum svæðum, eins og til dæmis Suðurnesjum. Og þó það sé ljóst að markaðurinn sé mikilvægur hluti af lausninni er jafn ljóst að hið opinbera hefur mikilvægu hlutverki að gegna, bæði hvað varðar atvinnustefnu sem og að búa til störf.
Athugasemdir