Blaðamaður Stundarinnar náði tali af íbúum Selfoss um afstöðu þeirra til fjármögnunar, eignarhalds og uppbyggingar nýja miðbæjarins. Enginn viðmælendanna vissi hver stæði að baki verkefninu.
Klíkuskapur og pólitík
Oddný Guðmundsdóttir, 66 að verða 67 ára, er að bíða eftir því að komast á eftirlaun. Hún kaus gegn nýja miðbænum í íbúakosningunni og fór hörðum orðum um uppbyggingu hans. „Eiginlega finnst mér þetta dálítill hégómaskapur. Í peningaleysi og aðþrengingum hefði ég viljað betri götur fyrst, eða brúna til dæmis, okkur finnst kjánalegt að keyra þessa gömlu brú, yfirsprengda í umferð og biðraðirnar svoleiðis á sumrin. Svo er þarna eitthvert milljarða dæmi,“ sagði hún.
Oddný vissi ekki af aðkomu Kristjáns Vilhelmssonar að verkefninu, en velti því fyrir sér hvort það væri æskileg þróun. „Ég vissi svo sem að þetta væri, segja þeir, í einka og einka. Þar af leiðandi hljóta þetta að vera peningamenn, en þeir eru ekki að borga göturnar og þeir borga ekki undirvinnuna. Þeir eru ekkert að leggja í nýja dælustöð, ég held að það skoppi enn allur kúkur út í Ölfusá. Það er svo mikið bull í gangi að það hálfa væri nóg. Það var verið að tala um að Ratcliffe væri að kaupa Austfirði, þarna kemur einn að kaupa Selfoss. Hver er þróunin, hvert viljum við fara? Það er bara góð spurning.“
Hún sagðist telja það klíkuskap og pólitík að lóðirnar hafi verið afhentar án endurgjalds eða útboðs. „Það er náttúrlega bara pólitíkin, skoðum bara hvað þið kjósið næst. Þetta er bara eins og hver annar klíkuskapur og pólitík. Við sem venjulegir borgarar erum ekkert virt þar nema í atkvæðinu okkar og fólk hefur kosið svona. Þá verða þeir að kyngja því.“
Hefði viljað vita
Gylfi Birgir Sigurjónsson, 54 ára kennari, kaus með nýja miðbænum í íbúakosningu og sagði að honum litist vel á framkvæmdirnar. Hann sagðist ekki vita hverjir eiga og fjármagna hann, en þegar hann komst að því að einn ríkasti maður Íslands, Kristján Vilhelmsson í Samherja, væri meðal þeirra, sagði hann að hann hefði viljað að það væri uppi á borðum. Það hefði kannski haft áhrif á afstöðu hans.
„Ég eiginlega vissi það fyrir að þeir hefðu fengið þetta svæði til að byggja upp miðbæinn, en kannski ekki hverjir væru þarna á bakvið,“ sagði hann að lokum um endurgjaldslausa afhendingu lóðanna.
Ósátt með aðkomu Samherjamanns
Hugrún K. Helgadóttir er 58 ára gömul og vinnur á sjúkrahúsi Selfoss. Hún tók ekki þátt í íbúakosningunni, en sagði að henni litist mjög vel á uppbyggingu nýja miðbæjarins. Það runnu hins vegar á hana tvær grímur þegar hún frétti af eignarhaldi og fjármögnun verkefnisins. „Ég vissi það ekki,“ sagði hún og bætti við að henni þætti það ekki vera jákvætt.
„Mér líst ekki vel á það,“ sagði hún um að lóðirnar hafi verið afhentar þeim án endurgjalds eða útboðs. Hún sagði að sér hugnaðist Samherjamálið illa og hún hefði viljað að þessar upplýsingar lægju fyrir.
„Ég hef slæma tilfinningu gagnvart því. Mér finnst ekki allt rétt sem er að gerast þarna. Verst finnst mér hvernig þeir hafa komið fram í Namibíu, það kemur upp spurningarmerki hjá manni,“ sagði hún að lokum.
„Bara vesen“
Daníel Jens, 30 ára, Taekwondo-þjálfari.
Hvernig líst þér á byggingu nýja miðbæjarins?
„Bara vel.“
Veistu hverjir fjármagna og eiga nýja miðbæinn?
„Nei, hann heitir ... Ég man ekki hvað hann heitir.“
Vissir þú að Kristján Vilhelmsson, einn aðaleigandi Samherja og einn ríkasti maður landsins, á um 90 prósenta hlut ásamt viðskiptafélaga sínum?
„Nei.“
Hvað finnst þér um það?
„Ég veit það ekki, sko.“
Tókstu þátt í íbúakosningunni á sínum tíma, um miðbæinn?
„Nei.“
Heldur þú að það hefði haft áhrif á afstöðu þína ef þessar upplýsingar hefðu legið fyrir?
„Já, það gæti verið.“
Hver er afstaða þín til þess að lóðirnar hafi verið afhentar þeim án endurgjalds og útboðs?
„Bara vesen.“
Taldi að bæjarfélagið ætti miðbæinn
Örn Ingimarsson, 19 að verða 20 ára, starfsmaður bílasölu.
Hvernig líst þér á byggingu nýja miðbæjarins?
„Mér finnst það alveg frábært.“
Kaustu í íbúakosningunni á sínum tíma?
„Nei, ég var ekki með aldur til þess.“
„Ég er bara dálítið hissa á því“
Veistu hverjir fjármagna og eiga nýja miðbæinn?
„Ég þori ekki alveg að fara með það, mér skilst að það sé bara bæjarfélagið sjálft.“
Vissir þú að Kristján Vilhelmsson, einn ríkasti maður landsins og eigandi Samherja, á um 90 prósenta hlut ásamt viðskiptafélaga sínum?
„Nei, ég vissi það ekki.“
Hvað finnst þér um þetta allt saman?
„Ég er bara dálítið hissa á því. Ég hafði ekki hugmynd um það.“
Upplýsingarnar hefðu örugglega haft áhrif á afstöðuna
Ástrún Sæland, 28 ára, stuðningsfulltrúi.
Hvernig líst þér á byggingu nýja miðbæjarins á Selfossi?
„Mér líst bara mjög vel á þetta. Okkur vantar einmitt einhvern svona kjarna til að fá alla til þess að hittast.“
Veistu hverjir fjármagna og eiga nýja miðbæinn?
„Ég veit það ekki.“
Vissir þú að Kristján Vilhelmsson, einn aðaleigandi Samherja og einn ríkasti maður landsins, á um 90 prósenta hlut ásamt viðskiptafélaga sínum?
„Nei.“
Hvað finnst þér um það?
„Úff, ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Ég er bara hissa, eða svoleiðis.“
Heldur þú að það hefði haft áhrif á afstöðu þína ef upplýsingarnar hefðu legið fyrir?
„Já, örugglega. Ég hefði örugglega hugsað aðeins meira út í þetta og svoleiðis.“
Hver er afstaða þín til þess að lóðirnar hafi verið afhentar þeim án endurgjalds og útboðs?
„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja, ég er bara hissa. Það er skrítið.“
Góð viðbót við miðbæinn
Hugrún Tinna Róbertsdóttir, 15 ára, starfsmaður í Pulló.
Hvernig líst þér á byggingu nýja miðbæjarins á Selfossi?
„Bara mjög vel, ég held að þetta verði fínt, að fá einhverja viðbót svona við bæinn.“
Veistu hverjir fjármagna og eiga nýja miðbæinn?
„Ekki hugmynd.“
Athugasemdir