Vísitala verðs á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,2 prósent milli júlí- og júnímánaða í ár og á tólf mánaða tímabili er hækkunin 4,9 prósent. Verð íbúða í sérbýli hækkar meira en verð í fjölbýli, um 1,4 prósent milli mánaða á móti 1,1 prósenti. Alls 737 kaupsamningum var þinglýst í júlí á höfuðborgarsvæðinu, sem er ríflega tvöföldun frá júnímánuði þegar 366 kaupsamningum var þinglýst. Samkvæmt gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar má leiða líkum að því að hækkandi verð skýrist af minna framboði íbúðarhúsnæðis í sölu á sama tíma og eftirspurn sé veruleg vegna lágra vaxta og möguleika á nýtingu séreignarsparnaðar.
Leiguverð hækkar einnig, um 0,5 prósent frá júní til júlí, og hefur leiguverð hækkað um 2,2 prósent frá því í júlí í fyrra. Er það annan mánuðinn í röð sem leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkar en það lækkaði skarpt í vetur, frá febrúar. Þá var vísitala leiguverðs 204 stig en lækkaði næstu mánuði og fór lægst í 195,3 stig í maímánuði.
Athugasemdir