Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það vera kvenréttindi að verða leið þegar karlmenn gera lítið úr verkum kvenna. Hún sakar Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um andlegt ofbeldi fyrir skrif sín.
Björn skrifaði um forystu verkalýðshreyfingarinnar á vefsíðu sinni á föstudag: „Það sannast enn í viðtali sem sagt er frá á dv.is í dag (24. júlí) að Drífa Snædal, forseti ASÍ, stendur á vinstri jaðrinum og hrópar þaðan. Hún vill knýja fram öfgafull markmið í anda Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sósíalistans í formennsku Eflingar-stéttarfélags, strengjabrúðu Viðars Þorsteinssonar og Gunnars Smára Egilssonar, höfuðsmiða Sósíalistaflokks Íslands. Þar er skuggastjórn ASÍ.“
Sólveig Anna svarar skrifum Björns í pistli á Facebook í dag. „Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, kallar mig á vefsíðu sinni enn á ný „strengjabrúðu“ tveggja karlmanna. Áður hefur hann að ég sé „gerð út“ af þessum sömu mönnum.“
Hún segist hafa hugsað um orð hans áður en hún hafi farið að sofa í gærkvöldi. Útlistar hún öll þau störf sem hún hefur unnið um ævina og verkefni sín í gegnum tíðina. „Ég hugsaði um lifaða ævi konu,“ skrifar hún. „Um það sem ég hef reynt og gert, sagt og hugsað. Um að ég hef ávallt, frá því að ég var lítil stelpa, verið eins einbeitt og ég get í því að hugsa um skoðanir mínar, af hverju ég hef þær, hvers vegna ég geri það sem ég geri. Að ég er vissulega óskólagengin, „bara“ með grunnskólapróf, en hef samt alltaf verið mjög ströng við sjálfa mig um að lesa og fræðast um það sem gerist í veröldinni og það sem hefur gerst. Vegna þess að það hefur skipt mig mjög miklu máli að vita með sjálfri mér að skoðanir mínar séu mínar eigin, byggðar á upplýstri afstöðu og lifaðri reynslu.“
Ætlar ekki að verða köld og hörð
Hún segir það gera hana dapra að verða aldrei meira en „strengjabrúða“ í hugum valdamikilla manna. „Þessi konu-partur veit og viðurkennir að svona orðfæri er andlegt ofbeldi. Notað til að kúga og þagga. Notað til að særa og lítillækka. Mér sárnar að vera kölluð strengjabrúða. Ég upplifi vanmátt þegar það gerist. Mér finnst leiðinlegt að mamma mín sjái og heyri svona tal. Mér finnst leiðinlegt að dóttir mín sjái það og heyri. Og mér finnst það leiðinlegt mín sjálfrar vegna; leiðinlegt vegna þeirrar stelpu sem ég var, ungu konu og nú fullorðnu konu.“
Sólveig Anna segir tilfinningar kvenna vera notaðar gegn þeim. „Ég veit að ég er ekki strengjabrúða eins né neins og ég veit að það er fráleitt að halda því fram. Ég veit líka að því verður aldrei hætt. En ég ákvað í gærkvöldi að verða samt alltaf leið þegar það gerist. Ég ætla ekki að pína konu-partinn til að verða kaldan og harðan gagnvart ógeðinu, heldur halda í tilfinninguna og leyfa henni að lifa.“
„Það eru kvenréttindi mín að verða leið“
Segist hún því vilja viðurkenna tilfinningar sínar fyrir sér sjálfri. „Kven-fjandsemin er víða og baráttan gegn henni þessvegna háð útum allt, líka inn í okkar eigin heilum og hjörtum. Ég hef oft fyrirlitið sjálfa mig fyrir að vera „of viðvæm“. En ég er hætt því. Það eru kvenréttindi mín að verða leið. Ég ætla ekki að breytast. Það sem ég ætla að gera er að berjast fyrir því að kven-hatandi mennirnir með ljótu orðin og hugsanirnar missi völdin sín. Það er barátta sem er þess virði að taka þátt í.“
Athugasemdir