Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bauð í dag þingmönnum á minningarathöfn um eldsvoðann á Þingvöllum árið 1970 sem tók líf þriggja.
„Þann 10. júlí nk. verða 50 ár liðin frá því að þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, og kona hans, Sigríður Björnsdóttir, og ungur dóttursonur þeirra létust í eldsvoða að Þingvöllum er svonefnt Konungshús brann,“ segir í tölvupósti frá ritara ráðherra til þingmanna. „Minningarsteinn um þennan atburð var reistur þar sem húsið stóð árið 1971. Efnt var til stuttrar minningarathafnar um eldsvoðann og fráfall forsætisráðherrahjónanna og dóttursonar þeirra árið 1995 þegar 25 ár voru liðin frá atburðinum.“
Bjarni hafði verið forsætisráðherra um sjö ára skeið þegar harmleikurinn átti sér stað, en áður var hann ritstjóri Morgunblaðsins. „Forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir, býður yður hér með að vera við minningarathöfn í tilefni framangreindra tímamóta,“ segir í póstinum til þingmanna. „Athöfnin mun fara fram á Þingvöllum við minningarsteininn þann 10. júlí nk. og hefst hún kl. 15.00. Að athöfn lokinni verður boðið upp á kaffiveitingar í Ráðherrabústaðnum á Þingvöllum.“
Athugasemdir