Hátt uppi í Andesfjöllum Suður-Ameríku, á einöngruðum fjallstindi í 2.663 metra hæð, er nú verið að byggja stjörnusjónauka og athugunarstöð sem verða tekin í notkun árið 2022, en fyrstu tilraunir með sjónaukann hefjast raunar nú í ár.
Tindurinn heitir El Peñón í Cerro Pachón-fjalli í Tjíle en stöðin er kennd við Veru C. Rubin, bandarískan stjörnufræðing sem lést tæplega níræð árið 2016 eftir að helgað líf sitt rannsóknum á stjörnuþokum og hinu dularfulla „dökka efni“ sem allt virðist úa og grúa af í alheiminum þótt enginn sjái það.

Rubin-sjónaukinn var settur niður þarna í fjöllunum í Tjíle til að forðast loft- og ljósmengun á þéttbýlli og lægri stöðum og hann er eða verður svo öflugur að hann á að geta tekið nákvæmar myndir af öllum stjörnuhimninum á aðeins þremur sólarhringum. Flestir sjónaukar eru mánuði eða jafnvel ár að taka slíkar myndir. Með Rubin-sjónaukanum verður hægt að taka myndir með svo stuttu millibili að miklum mun auðveldara verður en áður að greina allt það sem er á hreyfingu í útjaðri sólkerfisins okkar.
Og æ meiri líkur eru nú taldar á að þar muni finnast níunda reikistjarnan, sem reiknað hefur verið út að kunni að vera allt að 15 sinnum þyngri en Jörðin.
Eins og allir vita náttúrlega var hnötturinn Plútó í hlutverki níundu reikistjörnunnar þangað til 2006 þegar vísindamenn ákváðu að endurskilgreina hann og kalla hann eftirleiðis „dvergplánetu“ en ekki alvöru reikistjörnu. Plútó er aðeins um tveir þriðju af tunglinu okkar að stærð, og þegar þarna var komið sögu höfðu allmargir hnettir af svipaðri stærð - og jafnvel stærri - fundist í útjaðri sólkerfisins. Þessir hnettir kölluðust nú allir dvergplánetur.

Eftir því sem rannsóknum á jaðri sólkerfisins fleytti fram vöknuðu æ fleiri spurningar í hugum vísindamanna. Fleiri dvergplánetur fundust og sumar þeirra voru á mjög furðulegri braut um Sólinu, mjög sporöskjulaga og jafnvel á ská við planið sem allar reikistjörnurnar átta liggja á.
Árið 2014 birtu birtu stjörnufræðingarnir Scott Sheppard og Chad Trujillo niðurstöður rannsóknar á brautum þessara nýfundnu dvergpláneta og vörpuðu fram þeirri kenningu að einhvers staðar þarna úti í dimmunni hlyti að vera níunda reikistjarnan, stór klettapláneta, jafnvel mun stærri en Jörðin. Aðdráttarafl slíkrar plánetu væri í raun það eina sem gæti skýrt furðulegar brautir dverganna.
Nú þegar styttist í að Rubin-sjónaukinn verði tekinn í notkun er spennan farin að aukast verulega meðal stjörnufræðinganna, eins og lesa má í þessari frétt Guardian og þessari frásögn á vefsíðunni First Post.
Og málið snýst ekki aðeins um að staðfesta hugmyndir um að níunda reikistjarnan leynist þarna úti í geimnum. Merkilegast er nefnilega að ef hún er þarna á þessum slóðum - smalandi í kringum sig dvergplánetum - þá gjörbyltir það hugmyndum okkar um hvernig sólkerfið hafi myndast.
Samkvæmt áliti flestra vísindamanna nú á dögum myndaðist sólkerfið úr miklum „diski“ af ryki og alls konar efnisögnum sem sveimaði kringum nýkviknaða Sólina. Og öll reiknilíkön fram að þessu hafa talið útilokað af svo stór og þung klettapláneta, eins og sú sem Sheppard og Trujillo reiknuðu með, gæti hafa myndast og viðhaldist svo óralangt úti í jaðri sólkerfins, sem raun virðist bera vitni.
Efnið, sem myndaði slíka reikistjörnu, hlyti að hafa dregist nær sólu strax í upphafi sólkerfisins.
Ef Rubin-sjónaukinn finnur á augabragði reikistjörnu 15 sinnum þyngri en Jörðina einhvers staðar í víðáttufjarlægð, þá er ljóst að margt þarf að endurskoða.
En ekki eru allir sannfærðir um að Rubin muni finna reikistjörnu. Stjörnufræðingarnir Jakub Scholtz og James Unwin hafa varpað fram þeirri kenningu að það sem hafi áhrif á undarlegar brautir dvergplánetanna sé ekki reikistjarna heldur svarthol sem sé á sveimi í útjaðri sólkerfisins.

Svarthol, sem gleypir í sig allt það efni sem kemur nærri því og hefur svo massíft aðdráttarafl að það gleypir meira að segja sjálft ljósið.
Svarthol þurfa ekki endilega að vera risastór og svolgra í sig heilu sólirnar. Það er til sú kenning að strax við Miklahvell, þegar alheimurinn myndaðist, hafi orðið til ótölulegur grúi af litlum svartholum sem geti leynst nánast hvar sem er.
Og þeir Scholtz og Unwin telja sem sé að úti í útjaðri sólkerfisins muni að leynast eitt slíkt.
Ef sú er raunin, þá mun jafnvel hið öfluga auga Rubin-sjónaukans ekki nema það, því eðli málsins samvæmt, þá sjást svarthol ekki. Frá þeim berst ekkert ljós sem myndi gera okkur kleift að koma auga á þau.
En alla vega - æ fleiri vísindamenn (en þó ekki alveg allir) virðast nú sammála um að þarna úti þarna svo langt úti að við getum varla hugsað okkur það, þá sé eitthvað á sveimi.

Athugasemdir