Einn kosturinn við fámenni Íslands er fjölbreytnin sem smæðin býr til í lífi hvers og eins. Eða eins og barnið sagði: Hann pabbi hefur svo margar vinnur.
Ég er að tala um skólastjórana sem skella sér í sauðburðinn á vorin, kennarana sem sækja sjóinn á sumrin, leikarana og söngvarana sem eru leiðsögumenn í hjáverkum, prófessorana sem leika djass á skemmtiferðaskipum þegar kennsla liggur niðri, og þannig gæti ég haldið áfram til kvölds. Hvergi annars staðar hef ég séð og reynt þvílíka fjölbreytni, ekki einu sinni í Færeyjum, eins og sést til dæmis á því að Færeyingar tala margar mállýzkur. Íslendingar tala allir sama mál þótt við sitjum ekki öll við sama borð, ekki enn.
Fjölbreytni er kostur
Það er með fullri virðingu ekkert varið í tveggja strengja langspil þegar maður hefur heyrt fullskipaða sinfóníuhljómsveit í essinu sínu eða gott rokkband. Sérhæfing og rækt við fortíðina hafa að vísu mikilsverða kosti í mannlegu félagi, en fjölbreytni og framsýni eru jafnframt bráðnauðsynlegar, ekki bara af augljósum hagkvæmnisástæðum heldur einnig af því að fjölhæfnin er jafnan svo miklu skemmtilegri og yndislegri en einhæfnin sem fylgir þröngri sérhæfingu.
Olíulönd kunna að raka saman fé, rétt er það, en þau fara misvel með féð svo sem alþekkt er, og skemmtileg eða yndisleg eru þau ekki. Tökum Sádi-Arabíu. Þar eru sárafáar þýddar bækur á boðstólum. Öllum kvikmyndahúsum og leikhúsum í landinu var lokað 1980 og þau voru ekki opnuð aftur fyrr en 2018, ári eftir að konum þar var leyft að setjast undir stýri. Fáir útlendingar þekkja til þarlendra kvikmynda, rithöfunda, skálda, tónskálda eða vísindamanna. Þetta er skuggahlið einhæfninnar: menningin skrælnar, mannlífið dofnar.
Þessi hugsun á ekki bara við um lönd og svæði heldur einnig um einstaka þætti mannlífs og þjóðlífs á hverjum stað. Fjölbreytni er til dæmis kostur í myndlist. Við hugsum mörg um Jóhannes Kjarval, þjóðmálara Íslendinga ef einhver ber þann titil með rentu, sem landslagsmálara. Það er hann að sönnu, en hann er miklu meira en það því hann málaði myndir í öllum hugsanlegum stílum, þar á meðal glæsilegar mannamyndir, og mótaði meira að segja myndir í leir. Hann var einn með öllu.
Fjölbreytt skáldskaparlag
Fjölbreytni er einnig kostur í skáldskap og vísindum. Sum skáld einskorða sig á þröngu sviði og yrkja keimlík kvæði innan þeirra marka sem sjálfvalin sérhæfing setur þeim og fer oft vel á því. Önnur skáld hafa fleiri strengi í hörpu sinni og yrkja þá eftir því fjölbreyttari kvæði með margvíslegu skáldskaparlagi.
Hér langar mig að taka dæmi af einu fjölhæfu íslenzku nútímaskáldi sem ég þekki vel, Kristjáni Hreinssyni.
Í hörpu Kristjáns Hreinssonar eru margir strengir. Hann yrkir ýmist grafalvarleg eða léttúðug, liðmjúk og kliðmjúk ástarkvæði, eldheit þjóðrækniskvæði, sonnettur, epísk sögukvæði, tækifærisljóð, kersknisbragi, barnavísur og margt fleira. Hann yrkir þessi kvæði undir hefðbundnum háttum eins og gömlu skáldin. Hann virðir fornar bragreglur frá Agli Skallagrímssyni og áfram út í yztu æsar og yrkir því sjaldan atómkvæði og þvílíkt nema til að skemmta sjálfum sér og vinum sínum. Tryggð hans við fornar og nýgamlar skáldskaparhefðir hamlar honum ekki að minni hyggju þar eð hann hefur fært út landhelgi kvæða sinna með óvenjulegri fjölbreytni í efnisvali og bragarháttum sem hann býr marga til sjálfur líkt og til dæmis Einar Benediktsson gerði umfram önnur skáld á fyrri tíð.
Kristján hefur veitt mér góðfúslegt leyfi til að birta hér nýtt kvæði hans, Land og tunga.
LAND OG TUNGA
Með ilm þinn svífur golan mild á milli dala
og moldin hefur losnað undan þraut og kala,
í ásýnd fjallsins vagga veikbyggð strá,
nú vill þitt hjarta hugga nöturlega skugga
sem landið batt við fönn og frost
er fjallið bjó við slæman kost
og klakans glettna bláma þráir þú að sjá,
þig þyrstir í að heyra storminn tala
um frostrósir sem þekja þína glugga.
Að sumri dansar blærinn oft um akra sveita
og ylrík birta dagsins styrk sinn fær að veita
þá hopar jökulbrynjan köld og keik
sem kenndi þér að una við hinn sanna funa
er ískalt rokið birkið braut
og brunagaddur áfram þaut
um fold sem þjáð og kvalin lá svo lengi veik.
Þig langar slóðum fortíðar að breyta
og djúpar fannir fýsir þig að muna.
Að hausti vilt þú líta gróður grænna eyja
og grös í huga þínum mega ekki deyja
ef skynjar þú að fellur fölnað blað,
þá fyllir augun glýju snjór sem lamar hlýju.
Þú saknar þess sem þröstur söng
og þegar nóttin verður löng
í enni fjallsins langar þig að lesa það
sem landið vill með hverri táknmynd segja.
Þú bíður þess að brosi sól að nýju.
Takið eftir hvernig golan svífur mild á milli dala og blærinn dansar um akrana unz hann víkur fyrir jökulbrynju og brunagaddi og þú saknar þess sem þröstur söng og bíður þess að brosi sól að nýju. Þyngslin í kvæðinu eru lauflétt.
Og takið eftir endaríminu þar sem lokaorðin í fyrsta, öðru og áttunda vísuorði ríma (dala, kala, tala) og einnig lokaorðin í þriðja og sjöunda vísuorði (strá, sjá), þá lokaorðin í fjórða og níunda vísuorði (skugga, glugga) og loks lokaorðin í fimmta og sjötta vísuorði (frost, kost). Og ekki bara það: takið eftir innríminu í fjórða vísuorði hvers erindis (hugga, skugga; una, funa; glýju hlýju).
Formúlan haggast ekki milli erinda kvæðisins. Atkvæðatalningin er ofurnákvæm. Kvæðið er öðrum þræði tyrfið, satt er það, en það er samt auðskilið líkt og lesandinn hafi hringt í vin því Kristján kann að brúa bilið. Þar er galdurinn.
Vorið kemur bráðum
Kristján Hreinsson er heimspekingur að mennt og hefur birt tugi ljóðabóka auk annarra verka sem spanna vítt svið. Hann yrkir ekki bara grafalvarleg ljóð eins og ættjarðarástarkvæðið að framan heldur yrkir hann einnig með bjartsýnu, laufléttu kveðskaparlagi, svo léttu að sum kvæðin hans syngja sig sjálf að kalla má og koma lesandanum í gott skap og létta honum lífið, eins og til dæmis þetta litla kvæði:
BROS
Ég man þá stund í miklu frosti
á miðjum degi
að falslaus við mér fegurð brosti
á förnum vegi.
Og svo var það á sumarengi
er sönn var hlýja
að birtist sól og brosti lengi
hjá bökkum skýja.
Ég brosið læt í veðri vaka
og vonin lifir
en þegar kemur bros til baka
þá birtir yfir.
Og svo kann hann líka að yrkja ljóð með fögru en óræðu inntaki eins og til dæmis þetta kvæði sem sumir myndu túlka sem vögguvísu og aðrir sem eldheitt ástarkvæði:
VERTU HJÁ MÉR
Vertu hjá mér vinur
því vært nú sofa fjöllin
á meðan stormur stynur
og stækkar vetrarhöllin.
Við skynjum kaldan klaka
og kyrrð er vötnin frjósa,
um stund við viljum vaka
í veröld norðurljósa.
Við eigum ósk sem hylur
ísköld klakabrynja
þegar þungur bylur
þarf sinn harm að skynja.
Er vetrar höllin hrynur
þá hlýnar okkur báðum,
já, vertu hjá mér vinur
því vorið kemur bráðum.
Kristján Hreinsson er ekki bara mikið skáld heldur hefur hann einnig skilað miklum afrakstri af iðju sinni. Eftir hann liggja 500 sonnettur. Shakespeare orti 100.
Athugasemdir