Við erum vön að hugsa um velferðarkerfi sem málefni vinstriflokka sem hægriflokkar gagnrýna fyrir að vera vinnuletjandi, kostnaðarsöm og slæm fyrir framleiðni þjóðarbúsins. Það var samt ekki alltaf þannig, fyrsta vísinum að velferðarkerfi var komið á fót af Ottó von Bismarck, íhaldsmanninum sem sameinaði Þýskaland og var fyrsti kanslari þess á árunum 1871–1890. Vinstri öfl þess tíma voru ekki par hrifin af uppátækinu enda var þeim ljóst hvað vakti fyrir Bismark.
Félagslegur stöðugleiki
Félagslegur stöðugleiki snýst einkum um reglu og fyrirsjáanleika, að lífið sé í tiltölulega föstum skorðum og að framtíðin sé fremur fyrirsjáanleg. Félagslegur stöðugleiki er mikilvægur til að við getum gert áætlanir og tekið stefnu í lífinu en það getur reynst erfitt að ef það er mikið um átök og sviptingar í þjóðfélaginu. Af því leiðir að án félagslegs stöðugleika getur reynst erfitt að viðhalda efnahagslegum stöðugleika sem þjónar svipuðu hlutverki en bara á afmörkuðu sviði þjóðfélagsins, það er efnahagslífinu.
Félagslegur óstöðugleiki hefur margar birtingarmyndir sem eru misalvarlegar eftir því hve mikið stöðugleikanum er raskað. Hörð átök á vinnumarkaði geta verið til marks um óstöðugleika. Mótmælaalda á borð við þá sem brast á í Bandaríkjunum í kjölfar morðsins á George Floyd er dæmi um alvarlegri óstöðugleika þar sem langvarandi misrétti og aukin jaðarsetning hefur grafið undan samfélagssáttmálanum. Borgarastyrjaldir og byltingar eru svo líklega mest afgerandi dæmin um afleiðingar félagslegs óstöðugleika.
Eitt markmið, tvær leiðir
Í grunninn eru tvær leiðir til að viðhalda félagslegum stöðugleika. Sú fyrri er að halda fólki niðri með ofbeldi og kúgun en sú seinni að veita fólki hlutdeild í samfélagssáttmálanum. Velferðarríkið með sinni víðtæku þjónustu og tilfærslum er dæmi um síðari nálgunina. Velferðarríkið er í raun bara risavaxið samtryggingarkerfi sem tryggir tiltekin lífskjör og lífsgæði og tengir þannig hagsmuni sem flestra við félagslegan stöðugleika.
„Þróunin er markaðsvæðing samfélaga sem hefur meðal annars þrengt að velferðarkerfum hins opinbera“
Sem dæmi um fyrrnefndu nálgunina má nefna hvers kyns alræðisríki, svo sem Sovétríkin, Þýskaland nasismans og ýmsar herforingjastjórnir í Suður- og Mið-Ameríku í gegnum tíðina. Raunar er það svo að slíkar alræðisstjórnir beittu sjaldnast bara ofbeldi og kúgun. Oft og tíðum hefur ofbeldið og kúgunin beinst að tilteknum hópum á meðan aðrir hópar fá hlutdeild í samfélagssáttmálanum og njóta góðs af stjórnarháttunum. Fyrir vikið eiga til dæmis harðstjórar eins og Augusto Pinochet og Jósef Stalín enn í dag sitt stuðningsfólk sem heldur uppi vörnum fyrir arfleifð þeirra.
Samfélagssáttmáli fyrir suma
En það þarf ekki endilega alræði og harðstjórn til að bara hluti þjóðfélagsins fái hlutdeild í samfélagssáttmálanum og öðrum hlutum þess sé haldið niðri með kúgun og ofbeldi. Ástandið í Bandaríkjunum hefur varla farið framhjá neinum. Bandaríkin eru dæmi um þjóðfélag þar sem hluti íbúa eiga aðild að samfélagssáttmálanum, samfélag þar sem lagskiptingin hangir saman við litarhátt, trúarskoðanir og uppruna og félagsvernd velferðarkerfisins er veikburða og brotakennd. Þetta birtist meðal annars í mismunandi lífslíkum, fátækt, atvinnuleysi, aðgangi að menntun og heilbrigðisþjónustu, og fangelsun, lögreglueftirliti og -ofbeldi, svo dæmi séu nefnd.
Kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum á sér langa sögu en staðan í dag er að hluta til afleiðing af þróun undanfarinna áratuga og sú þróun hefur átt sér stað víðar. Þróunin sem um ræðir er markaðsvæðing samfélaga sem hefur meðal annars þrengt að velferðarkerfum hins opinbera. Franski félagsfræðingurinn Loïc Wacquant hefur bent á að samhliða þessu hafa umsvif refsikerfa vaxið víða og að virkni þeirra beinist í auknum mæli að jaðarsettum hópum. Með því að þrengja að velferðarkerfum og gera stuðning þeirra sífellt bundnari hvers kyns skilyrðingum er í raun verið að afturkalla aðild tiltekinna hópa að samfélagssáttmálanum og þá þarf að beita öðrum og harkalegri aðferðum til að slíkir hópar verði ekki ógn við félagslegan stöðugleika.
Velferðarkerfið er hagkvæm lausn
Það er hægt að viðhalda félagslegum stöðugleika með kúgun og ofbeldi, að minnsta kosti í einhvern tíma. En það er kostnaðarsamt, kallar á mikið eftirlit og er mun brothættara en að veita öllum hlutdeild í samfélagssáttmálanum.
Það var ekki umhyggja fyrir verkalýðnum sem olli því að Bismark gerðist brautryðjandi velferðarríkisins heldur mjög pragmatísk valdapólitík. Járnkanslarinn Bismarck var ákaflega harðsvíraður pólitíkus. Vinstri öflin voru hins vegar í örum vexti og höfðu róttækar þjóðfélagsbreytingar á stefnuskránni. Bismarck vildi festa hið nýsameinaða þýska ríki í sessi og til þess þurfti hann félagslegan stöðugleika. Það gerði hann með því að koma á fót vísi að velferðarkerfi til að veita verkamannastéttinni hlutdeild í samfélagssáttmálanum og tryggja þannig hollustu hennar við nýja ríkið og samfélagsgerð þess.
Athugasemdir