Til hversu eru kvöldfréttatímar sjónvarpsstöðvanna tveggja, og þá er ég eingöngu að hugsa um erlendu fréttirnar þeirra? Eru þær og eiga að vera fyrst og fremst myndskreytingar við fréttir dagsins, sem fólk hefur í flestum tilfellum heyrt margsinnis yfir daginn í útvarpi, lesið á netinu og í mörgum tilfellum þegar horft á í fréttaklippum frá útlöndum? Er hlutverk þeirra sem sagt að vera SAMANTEKT ef einhver skyldi hafa misst af öllu saman?
Eða á hlutverk þeirra að vera FRÉTTASKÝRING á því sem gerst hefur, ÁBENDINGAR um ýmislegt sem ekki er víst að hafi komist til skila í erli dagsins og í besta falli RANNSÓKN á því sem að baki liggur?
Tveir kostir
Ég hygg að flestir fréttamenn og yfirmenn fréttastofa, sem stæðu frammi fyrir þessum tveim kostum, myndu óhikað velja þann seinni. Útskýringuna fremur en samantektina eina. Því miður er það þó svo - áreiðanlega fyrst og fremst vegna hins alræmda tímaskorts og manneklu á íslenskum fjölmiðlum - að fyrri kosturinn verður oftar en ekki ofan á.
Nokkuð augljóst dæmi um þetta má sjá í fréttatímum RÚV og Stöðvar 2 á þriðjudaginn var þar sem fluttar voru fréttir frá Bandaríkjunum. Í Ríkisútvarpinu var byrjað á nærri 6 mínútna langri frétt sem snerist nær eingöngu um framgang mótmælanna og þær óspektir og ofbeldi sem þeim hefur fylgt.
Svipað var upp á teningnum í tæplega 2ja mínútna langri frétt á Stöð 2, þar niðurstaðan var sú að „gripdeild, skemmdarfýsn og ofbeldi“ hefðu einkennt mótmælin. Lögreglan hefði vissulega beitt hörku (sem ekki var minnst á hjá RÚV) en margir mótmælendur hefðu komið „bara til að stela“, sem haft var eftir lögreglustjóra í St.Louis.
Skemmdarvargar
Þetta var nú allt eins og það var og ekki mikið upp á vinnubrögðin að klaga, nema þessar óeirðafréttir var allar búið að segja yfir daginn, og - með djúpri virðingu fyrir fórnarlömbum skemmdarvarga - þá var þetta EKKI það markverðasta sem gerst hafði í Bandaríkjunum mánudaginn 1. júní 2020.
Því miður segir reynslan okkar að meiriháttar kynþáttamótmælum í Bandaríkjunum fylgja gjarnan óspektir og skemmdarverk. Slíkt er hryggilegt en það er hins vegar ekki tæplega mikil frétt til lengdar. Auðvitað hljóta allir fréttamiðlar að sinna slíku, en ég verð að viðurkenna að það olli mér vonbrigðum að hvorug fréttastofan reyndi að ráði á þeim mínútum sem til umráða voru að meta og skilgreina þann atburð sem sannanlega var óvenjulegastur, fréttnæmastur og óhugnanlegastur alls þess sem gerðist á mánudaginn.
Til Jóhannesarkirkjunnar
Það var gönguferð Trumps yfir Lafayette-torg og uppstilling hans á sjálfum sér með Biblíu við Jóhannesarkirkjuna.
Óvenjulegur, fréttnæmur og óhugnanlegur var sá atburður vegna þess að þar var fasisminn með í för.
Og hvað svo sem segja má um Bandaríkin - og það er bæði margt og mikið - þá höfum við ekki séð fasismann áður á gangi með forsetanum.

„Hvað svo sem segja má um Bandaríkin - og það er bæði margt og mikið - þá höfum við ekki séð fasismann áður á gangi með forsetanum“
Þetta var leikþáttur sem hafði verið vandlega fínpússaður í öllum smáatriðum fyrirfram og átti að höfða beint til þeirrar þarfar sem ýmsir hafa fyrir „sterka manninn“ þegar bjátar á.
Leikþátturinn kom í kjölfar ræðu í Rósagarðinum þar sem Trump belgdi sig út og hótaði hervaldi. Stöð 2 vakti réttilega athygli í inngangi fréttarinnar á því að ræðan hefði aukið spennu. Báðar fréttastofurnar birtu svo brot úr ræðunni, Stöð 2 sýnu lengra og ræðubúturinn á RÚV var raunar svo stuttur að hann hljómaði eins og tiltölulega venjulegt ákall um lög og reglu en ekki sú hernaðarhótun, sem ræðan var í raun.
Skýring eða samantekt
Hvorug fréttastofan minntist á að forseti Bandaríkjanna hefur ekki vald til að senda herinn inn í ríkin 50 og belgingur Trumps var því bara belgingur eins og venjulega. Þarna var liðinn nærri sólarhringur frá ræðunni og því höfðu fréttamenn haft nægan tíma til að skoða til dæmis þetta atriði ef þeir vildu að fréttirnar væru SKÝRING en ekki einungis SAMANTEKT.
RÚV minntist á að lögregla hefði beitt táragasi gegn mótmælendum skammt frá Hvíta húsinu en ekki að þeir mótmælendur hefðu verið friðsælir og engar óeirðir í gangi. Stöð 2 sagði aðeins að meðan á ræðu Trumps hafi mátt heyra „hvelli og sprengingar“ sem væru „lýsandi fyrir ástandið þessa dagana“.
Seinna var svo sagt að lögregla hefði beitt táragasi og gúmmíkúlum til að rýma Lafayette-torgið við Hvíta húsið.
Ískyggilegur leikþáttur
Af einhverjum ástæðum var alls ekkert minnst á hina óhugnanlegu gönguferð Trumps og Biblíuna hans í fréttinni á RÚV og skorti þó ekkert á að allan daginn höfðu ómað áhyggjufullar raddir frá Bandaríkjunum sjálfum um þennan ískyggilega leikþátt. Og að mörgum sómakærum Bandaríkjamönnum blöskraði algjörlega.
Við sáum vissulega göngu Trumps og Biblíuna á Stöð 2 en fátt var þó sagt um viðbrögð og hvorug stöðin gat til dæmis um mjög harðorð og skelegg mótmæli Mariann Budde biskups í Washington við þessu kirkjuklámi forsetans, sem þó voru löngu komin á öldur ljósvakans. RÚV gaf sér hins vegar tíma til að birta úr ræðum einhverra manna í Evrópu sem höfðu áhyggjur af óeirðum.
Einkenni fasískra stjórnarhátta
Og hvorug sjónvarpstöðin minntist á að við hlið Trumps í þessari táragasferð var æðsti herforingi Bandaríkjanna, Mark Milley, formaður æðsta herráðsins, og hann var hvorki meira né minna en í bardagabúningi - felubúningi - eins og stríð væri alveg að bresta á, og þeir væru á ferð um vígvöllinn væntanlega.
Með því átti að nota bandaríska herinn á opinskárri og blygðunarlausari hátt í þágu pólitískrar leiksýningar, enda hafði Milley strax sætt mikilli gagnrýni fyrir þátttöku sína í gönguferðinni, þótt mikilvægi gönguferðarinnar og Milleys í bardagaklæðunum kæmu ekki fram í íslenskum sjónvarpsfréttum.
Slík notkun á hernum í þágu pólitískra leiðtoga er einmitt einkenni fasískra stjórnarhátta. Er slíkt að grafa um sig í núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna? Um það hefði mátt fjalla.
Þetta er sem sagt vinsamlega ábending til íslensku sjónvarpsfréttastöðvanna. Hinar dýrmætu erlendu fréttir ættu síður að vera samantekt á einhverju sem gerðist fyrir allt að sólarhring, heldur frekar skýringar og bakgrunnslýsingar á því mikilvægasta sem gerðist.
Sem var klárlega gönguferð Trumps í þetta sinn.
Athugasemdir