23. spurningaþrautin er svona:
Aukaspurningarnar eru tvær.
Hvað er að gerast á myndinni hér að ofan?
Og hver er kona sú sem er á myndinni að neðan?
1. Eiður Smári Guðjohnsen var í sex ár í framlínu enska fótboltaliðsins Chelsea og gekk mjög sómasamlega. Fyrstu fjögur árin var í framlínunni með honum hnarreistur Hollendingur og þóttu þeir ná sérlega vel saman. Hvað heitir sá hollenski?
2. Hvað heitir það dýr á íslensku sem kallast Cheetah á engelsku?
3. Davíð Oddsson er sem kunnugt er annar ritstjóra Morgunblaðsins. Hvað heitir hinn ritstjórinn?
4. Hvað heitir söngvarinn í þýsku gleðisveitinni Rammstein?
5. Bíómyndir Francis Ford Coppola um Guðföðurinn eru víðkunnar. En hvað hét rithöfundurinn sem skrifaði sögurnar sem fyrsta myndin var byggð á?
6. Í árdaga íslenska sjónvarpsins var barnatíminn í umsjón leikbrúðu af Krumma og ungrar stúlku, og þótti börnum spjall þeirra hið ánægjulegasta. Hvert var (og er) nafn stúlkunnar? Hér dugar fornafn.
7. Hvert var tilkall bandarísku stjórnmálakonunnar Geraldine Ferraro til frægðar?
8. Skemmtigarðar kenndir við Disney eru sex talsins. Tveir eru í Bandaríkjunum, einn í Evrópu en þrír í Asíu. Í hvaða tveimur löndum eru þeir?
9. Stúlka ein bar nafnið Sophie Friederike Auguste von Anhalt-Zerbst-Dornburg og var prinsessa í þýsku smáríki fyrir tæpum þrem öldum síðan. Ekki virtist Sophie líkleg til mikilla frægðarverka á ungum aldri, en þó gerðist það að hún fór úr sínu þýska smáríki og haslaði sér völl í öðru landi og ansi miklu stærra. Þar varð Sophie mikil valdapersóna en að vísu undir öðru nafni, því þegar hún hófst til áhrifa í hinu stærra landi varð hún að skipta um nafn. Undir hvaða nafni varð hún fræg?
10. Hver leikur Svörtu ekkjuna í bíómyndum um ofurhetjurnar Avengers?
Hér eru svörin:
1. Jimmy Floyd Hasselbaink.
2. Blettatígur.
3. Haraldur Johannessen.
4. Till Lindemann.
5. Mario Puzo.
6. Rannveig.
7. Fyrst kvenna í framboði til varaforseta Bandaríkjanna, það var árið 1984.
8. Þeir eru tveir í Kína og einn í Japan. Annar kínversku garðanna er í Hong Kong sem nýtur nokkurrar sjálfstjórnar í Kínaveldi en telst þó hluti af kínversku landi.
9. Katrín - Katrín mikla keisaraynja í Rússlandi.
10. Scarlett Johansson.
Efri myndin er tekin í uppreisn Ungverja gegn Sovétríkjunum 1956.
Neðri myndin er af Völu Flosadóttur íþróttahetju.
Og hér er þrautin frá í gær.
Athugasemdir