Fullorðnir hafa verið duglegir við að draga allskonar dæmi til að lýsa samkomubanni og afleiðingum þess. Oft sést vitnað í barnavísuna „Ein ég sit og sauma, inn í litlu húsi“. Það hljómar ósköp einmanalega að vera aleinn í litlu húsi en frá sjónarhóli barns endar vísan ekki þarna. Í heimi barnsins þarf sá sem situr einn í sínu húsi bara að hoppa upp og loka augunum. Þá getur hann gert hvað sem er og meira að segja bent á þann sem er bestur.
Heimur töfra
Börn hafa virkt ímyndunarafl og í leik geta þau afrekað, verið, gert og farið hvert sem er. Þar er það HVAÐ EF heimurinn sem gildir. Þar sem leikgleði og ímyndunarafl eru alls ráðandi og möguleikar á að skapa betri heim, skemmtilegri aðstæður, prófa sig áfram með viðbrögð og samtöl en umfram allt vera við stjórnvölina sjálf um stund. Í leik skapa börnin sér þann heim sem þau vilja, heim þar sem mistök eru skemmtilegur þáttur í leiknum, heim þar sem engin er minnstur og engin er bestur. Þar sem allir eru með.
Hoppaðu upp og lokaðu augunum
Þegar barnahópur leikur er margt að gerast. Börnin búa til söguþræði og samtöl með ímyndunaraflið að vopni, nýta og æfa færni í máli og samskiptum og gera tilraunir og máta hugmyndir sem þau eru að fást við. Þegar barn dregur vini inn í leikinn með því að lána leikfang eða semja hann inn í leikinn æfa þau og sýna samhyggð, vináttu og góðsemi. Leikur með kubba gefur grunn að stærðfræði og það að hafa frelsið sem leikurinn veitir gefur færi á námi innan frá og skilningi sem byggir á reynslu. Leikur barna er merkilegt fyrirbæri og kennsluleið leikskólans en aðallega námsleið barnsins.
Komdu norður
Leikur, rannsóknir, tilraunir, forritun, leikfangahakk, vísindasmiðja, stærðfræði, vinna með kubba eða tækni af ýmsu tagi, málörvun, söguskjóður og sagnaskjattar eru allt þættir í námi leikskólakennara og svo margt og miklu fleira. Við Háskólann á Akureyri er boðið upp á fimm ára kennaranám er ætlað þeim sem hafa stúdentspróf en þeir sem hafa bakkalárgráðu á öðru sviði en kennslu geta sótt um tveggja ára nám á meistarastigi til M.Ed. eða MT gráðu til leyfisbréfs í leik- eða grunnskóla. Vertu með okkur liði komdu að kenna.
Athugasemdir