„Eigum við að skreppa í sund?“ „Nei kemst ekki, minns er að fara í geimferð. En skal koma, þegar minns er búin að fara út í geim.“ Fyrir suma er ekkert mál að ferðast innanhúss. Varst þú að pæla í heimsferð næsta vetur? Kemst ekki vegna ferðatakmarkana? Hvers vegna ekki að nota árið og skella þér í skemmtilegt ferðalag í háskólanum? Í leikskólakennaranámi gefst þér tækifæri að ferðast með hugmyndfræðingum, með vísinda- og listafólki um heim bernskunnar, þar sem allt er hægt, þar sem allar hugmyndir eru framkvæmanlegar.
Þarf að fara í margra ára háskólanám til að vinna með leikskólabörnum? Já, ef þú vilt eiga starfsframa innan leikskólans, vilt geta valið úr stöðum og staðsetningu. Ef þú vilt búa við gott atvinnuöryggi. En aðallega ef þú vilt njóta þess að vera fagmaður, sjá og skilja heim bernskunnar, vera sá eða sú sem kann að nota nýjustu þekkingu í þágu barna. Getur verið sá sem greinir og kemur með lausnir. Kannt að stjórna starfsmannahóp, vera leiðtogi í starfi.
Það sem er gott við leikskólafræðin er að þú undirbýrð þig undir fjölbreytt starf og nám. Þú getur komið inn með fyrstu háskólagráðu og bætt við þig meistaragráðu til kennsluréttinda og þú getur klárað fyrstu gráðu í leikskólafræðum og fært þig þaðan yfir á önnur svið. Alveg eins og með að ferðast í huganum, þá er það þitt ímyndunarafl sem setur þér skorður.
Í rannsókn á leik barna sem ég og samstarfskonur mínar gerðum, sáum við fyrst og fremst ótrúlegt ímyndunarafl barna, en líka hvernig börn bera umhyggju fyrir öðrum börnum. Hvernig þau gerðu sitt besta til að fá barn sem var utan gátta í hópnum til verða hluti hópsins. Hvernig þau lögðu sig fram um að breyta leiknum til að barnið á jaðrinum fyndi sig sem hluta af leikheiminum. Lítið atriði í leik, opinberaði, styrk sumra barna og veikleika annarra barna. Það opinberaði þær áherslur sem voru í leikskólastarfinu og barnahópnum, þá miklu áherslu sem lögð er á virðingu og vináttu í leikskólanum. Hvernig starfið þar einkenndist af trú á getu barna. Einhver annar, sem fylgdist með þessum sama leik, sá kannski bara börn „leika sér“.
Mundu svo að starfið í leikskólanum er fyrir öll kyn.
Athugasemdir