Með nefið klesst við rúðuna horfði sex ára gömul hnáta á alla skrítnu hlutina í hillunum og smíðaði sér farartæki í huganum á meðan fullorðna fólkið keypti bráðnauðsynlegan varahlut í bílinn. Afgreiðslumaðurinn bað þau fyrir gjöf til mín og ég var rasandi hissa yfir því að ókunnugur maður, sem ég í raun hitti aldrei, skildi gera sér ómak til að gleðja feimið stelpuskott. Frá og með þessari stundu var ég staðráðin í vinna með börnum þegar ég yrði stór, gleðja þau og hjálpa eins og bifvélavirkinn kenndi mér og ég er afar stolt af því í dag að vera leikskólakennari.
Það jafnast ekkert á við starfið í leikskólanum og samveruna með börnunum. Flesta daga hendir eitthvað óvænt eða áhugavert og starfið gefur ótal möguleikar á að kenna og efla og vekja forvitni barnanna til náms og þroska með fjölbreyttum hætti. Börn hafa líka þá dásemlegu eiginleika að geta leikið og gleymt sér en tekist um leið á við grafalvarlegar spurningar og viðfangsefni.
Leikskólabörn eru engu lík
Eitt sinn rökræddi leikskólahópurinn minn sín á milli hvort guð hefði skapað heiminn eða önnur öfl verið þar að verki. Samtalinu lauk með því að eitt barnið leit til mín og spurði: Lísa, varst þú ekki til þá? Segðu okkur hvað gerðist. Þrítuga ég leit yfir barnahópinn sem beið vongóður eftir svari, fullviss um að ég hefði verið sérlegur aðstoðarmaður guðs við sköpunarverkið. Það er engu öðru líkt að vinna með börnum á leikskólaaldri, þau koma sífellt á óvart, geta svo ótal margt, drekka í sig þekkingu, færni og nýja getu og hafa djúpt og viturt rannsóknareðli. Um alla þessa þætti læra nemendur í leikskólafræðum við Háskólann á Akureyri og reyndar svo margt annað áhugvert fleira. Námið er bæði fræðilegt og hagnýtt, nemar dvelja á vettvangi, lesa fræðibækur og skrifa fræðileg verkefni, gera tilraunir og verklegar æfingar úti og inni. Kennarahópurinn við kennaradeildina er með fjölbreyttan bakgrunn en á það sameiginlegt að bera hag nema fyrir brjósti.
Gamall bifvélavirki sneri veröld minni á hvolf og opnaði leiðir sem mér höfðu aldrei dottið í hug áður. Ef þú vilt hafa áhrif, vinna fjölbreytta og skemmtilega vinnu með töluvert atvinnuöryggi þá hvet ég þig til að íhuga leikskólakennaranám. Það þarf svo auðvitað ekki að nefna það að námið hentar báðum kynjum.
Athugasemdir